| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Tvöfaldir bikarmeistarar Liverpool heimsækja Southampton í næsta deildarleik. Flautað verður til leiks klukkan 18:45 þriðjudaginn 17. maí.

Ansi stutt er á milli leikja núna og maður veltir því fyrir sér af hverju þessi leikur gat ekki verið settur á degi síðar, þetta er eini leikurinn í þessari viku sem er settur á þriðjudag og eftir 120 mínútna maraþonleik á laugardaginn verður smá vesen að smala saman í byrjunarlið. Jürgen Klopp þarf að fara vel yfir hópinn til að stilla upp liði en við þökkum nú fyrir að breiddin er töluvert meiri nú en oft áður. Það er alveg ljóst að Mohamed Salah og Virgil van Dijk verða ekki látnir spila þennan leik og Fabinho er auðvitað meiddur ennþá. Andy Robertson fór svo af velli á laugardaginn vegna krampa og það þýðir þá væntanlega að ein af hetjum laugardagsins, Kostas Tsimikas, kemur inn ef Robbo þarf lengri tíma til að ná sér. Aðrir leikmenn ættu að vera klárir í slaginn en maður veltir því fyrir sér hvort þeir sem spiluðu hvað mest á laugardaginn þurfi ekki lengri hvíld. Hjá heimamönnum í Southampton er bakvörðurinn Livramento frá og þeir Stuart Armstrong og Fraser Forster eru tæpir.

Byrjunarliðið verður að vera sterkt en það þarf að passa líka að menn hafi orku til að spila og eigi ekki hættu á því að meiðast. Ágiskun okkar um hvernig Klopp stillir þessu upp er svona: Alisson í marki. Bakverðir Joe Gomez og Kostas Tsimikas og miðverðir þeir Ibrahima Konaté og Joel Matip. Á miðjunni verða James Milner, Curtis Jones og Alex Oxlade-Chamberlain. Fremstu þrír verða Roberto Firmino, Diogo Jota og Luis Díaz. Ég spái Díaz þarna inni því hann virðist alltaf vera klár í baráttuna en auðvitað gæti verið að hann þurfi hvíld eins og aðrir, í því samhengi er gott að nefna Sadio Mané, við trúum því varla að hann byrji leikinn. Það kæmi ekki mikið á óvart ef Divock Origi og/eða Takumi Minamino yrði treyst fyrir þessu verkefni enda ættu þeir að vera með ferska fætur svo um munar. Hvernig svo sem liðið verður getum við verið viss um að það verður skipað mönnum sem Klopp treystir til að klára verkefnið. Suðurstrandarliðið hefur ekki að miklu að keppa í þessum leik en þetta er síðasti heimaleikur þeirra á tímabilinu og þeir vilja ábyggilega kveðja stuðningsmennina á sem bestan hátt.

Síðast þegar liðin mættust á þessum velli sigruðu heimamenn 1-0 með marki frá Danny Ings snemma leiks, nánar tiltekið skoraði hann strax á 2. mínútu. Þetta var í byrjun janúar 2021 og okkar menn á toppi deildarinnar eftir jólatörnina en eftir þennan leik kom kafli þar sem ekkert gekk upp og meiðsli lykilmanna í vörninni fóru að taka virkilegan toll. En hvað um það, núna eru aðrir tímar og baráttan um sigur í deildinni í algleymi. Það er ennþá möguleiki á því að ná Manchester City á toppnum en til þess að það geti gerst þurfa Liverpool að vinna sína leiki. City gerðu jafntefli um helgina, fjórum stigum munar á liðunum og Liverpool á þennan leik til góða. Það er auðvitað skemmtilegt að hugsa til þess að ef sigur vinnst í kvöld verður einhver spenna í deildinni í lokaumferðinni, möguleikinn er ekki mikill en er samt til staðar. Við ættum að reyna að njóta á meðan hægt er. Gengi Liverpool hefur verið gott á þessum velli ef við horfum á síðustu fimm viðureignir, síðasti leikur tapaðist jú en þar á undan unnust þrír í röð og einn endaði markalaus. Þegar liðin mættust á Anfield í deildinni fyrr á tímabilinu voru lokatölur 4-0 og sáu Southampton varla til sólar í þeim leik.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool tekst að vinna 1-2 sigur. Jafnt verður í hálfleik, 1-1 en um miðjan seinni hálfleik kemur sigurmarkið og við getum haldið í þá veiku von að okkar menn lyfti Englandsmeistarabikarnum á sunnudaginn kemur.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 22 mörk.

- James Ward-Prowse er markahæstur hjá Southampton með 9 deildarmörk.

- Liðin hafa mæst 22 sinnum á heimavelli Southampton í úrvalsdeildinni. Liverpool eru með 10 sigra, fjórir hafa endað jafnir og Southampton sigrað átta leiki.

- Ef Liverpool sigrar leikinn verður það 13. útivallarsigur tímabilsins í deildinni. Aðeins hefur það tekist áður þrisvar sinnum í sögu félagsins en metið (14) var sett þegar síðasti deildartitill vannst tímabilið 2019-2020.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan