| Sf. Gutt

Áfram í undanúrslit!


Liverpool komst yfir mjög erfiða hindrun í Nottingham í kvöld. Liverpool vann Nottingham Forest 0:1 á City Ground og vann sér þar með sæti í undanúrslitum í FA bikarnum. Enn eru þrír titlar í boði til loka keppnistímabilsins!

Eins og reiknað var með var liði Liverpool nokkuð breytt frá sigrinum á Arsenal en samt voru máttarstólpar í liðinu. Sadio Mané og Mohamed Salah fengu frí. Trent Alexander-Arnold er meiddur og Andrew Robertson var veikur. Alls voru sjö breytingar gerðar á liðinu.

Það var uppselt á City Ground og andrúmsloftið var rafmagnað þegar flautað var til leiks. Það var hugur í heimamönnum eftir að hafa slegið Arsenal og Leicester City út úr bikarnum fram til þessa. 

Mikill hraði var í leiknum frá upphafi. Liverpool náði upp sínu spili og hafði góða stjórn á leiknum en heimamenn gáfu ekki þumlung eftir. Fátt var um færi og það fyrsta sem eitthvað kvað að kom ekki fyrr en á 28. mínútu. Eftir mistök í vörn Forest kom Alex Oxlade-Chamberlain á Roberto Firmino sem var einn á móti Ethan Horvath markmanni Forest. Roberto hugðist lyfta boltanum yfir Ethan en markmaðurinn sá við honum og varði. Varnarmaður bjargaði svo á síðustu stundu. Kannski svolítið kæruleysi hjá Roberto að ætla að lyfta boltanum yfir markmanninn í þessu færi. Segja má að þetta hafi verið eina hættulega færi hálfleiksins. Jafnt í hálfleik. 

Sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Hörð barátta, ekkert gefið eftir en fátt um færi. Jürgen Klopp var ekki alveg ánægður með gang mála og skipti fjórum leikmönnum inn á 64. mínútu. 

Á 76. mínútu náðu heimamenn góðri sókn. Sent var fyrir markið frá hægri. Philip Zinckernagel fékk boltann á auðum sjó í teignum en hann skaut framhjá markinu. Dauðafæri og heppnin með Liverpool. Tveimur mínútum seinna refsaði Liverpool. Boltinn gekk út til vinstri á Kostas Tsimikas. Grikkinn fékk boltann við vinstri vítateigshornið. Hann leit upp og sendi svo yfir til hægri á Diogo Jota sem náði að teygja sig í boltann og stýra honum í markið af stuttu færi. Markið var skoðað í sjónvarpinu með tilliti til rangstöðu en hún var ekki fyrir hendi og stuðningmenn Liverpool fyrir aftan markið sem Diogo skoraði í fögnuðu innilega!

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna. Á 86. mínútu vildu þeir fá víti eftir að þeirra maður komst inn í teig. Alisson Becker kom út á móti og leikmaður Forest féll. Atvikið var skoðað í sjónvarpinu og úrskurðurinn var sá að Alisson hefði ekki fellt manninn og var það rétt dæmt. 

Mínútu fyrir leikslok fékk Ryan Yates gott skallafæri eftir fyrirgjöf frá hægri en skallinn var laus og beint á Alisson. Í viðbótartíma skaut varamaðurinn Cafú yfir úr þokkalegu færi. Liverpool náði svo hraðaupphlaupi. Varamaðurinn Takumi Minamino sendi á Diogo sem var í dauðafæri en skaut yfir. Portúgalinn átti að skora! Rétt á eftir flautaði dómarinn til leiksloka. Sigrinum var vel fagnað hjá stuðningsmönnum Liverpool enda liðið komið í undanúrslit!

Liverpool lék í heildina vel en átti í fullu fangi með sterkt lið Nottingham Forest sem er undir stjórn Steve Cooper sem var um tíma unglingaþjálfari hjá Liverpool. Liverpool mætir Manchester City í undanúrslitum keppninnar í næsta mánuði. Það er enn möguleiki á þremur titlum! 

Nottingham Forest: Horvath, Spence, Worrall, Figueiredo, Colback (Costa Silva 90. mín.), Yates, Garner, Lolley (Ribeiro Dias 65. mín.) Zinckernagel (Mighten 78. mín.), Johnson og Davis (Surridge 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Mbe Soh, Bong, Laryea, Ojeda og Samba.

Liverpool: Alisson, Gomez, Konaté, van Dijk, Tsimikas, Keïta (Henderson 64. mín.), Fabinho (Thiago 64. mín.), Oxlade-Chamberlain (Díaz 64. mín.), Elliott (Minamino 64. mín.), Firmino og Jota. Ónotaðir varamenn: Adrián, Jones, Origi, Matip og Beck.

Mark Liverpool: Diogo Jota (78. mín.).

Gult spjald: Joe Gomes.


Áhorfendur á City Ground: 28.584.

Maður leiksins: Kostas Tsimikas. Grikkinn hafði í nógu að snúast. Hann var mjög sókndjarfur og tók góðar rispur fram. Hann stóð sig vel í vörninni þó hann væri stundum í vandræðum. Kostas lagði svo upp sigurmarkið með mjög góðri sendingu. Sendingin var meira að segja með hægri! Kostas er mikill baráttumaður og sýndi það sannarlega í leiknum.

Jürgen Klopp: Við vissum að leikurinn yrði svona og þá sérstaklega af því við nýttum ekki færin. Við hefðum getað spilað betur en við áttum að skora í fyrri hálfleik. Leikurinn hefði verið öðruvísi ef við hefðum skorað þá. Allt var undirbúið til að koma okkur úr leik en við komumst áfram af því við börðumst eins og ljón.


Fróðleikur

- Liverpool er komið í undanúrslit í FA bikarnum í 25. sinn. 

- Diogo Jota skoraði 19. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Portúgalinn hefur aldrei á ferli sínum skorað fleiri mörk á einni leiktíð. 

- Þetta var fyrsti sigur Liverpool á City Ground frá því 1984.

- Liverpool sló Nottingham Forest út úr FA bikarnum sjöunda skiptið í röð.

- Liverpool hefur aldrei tapað í FA bikarnum á City Ground.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan