| Grétar Magnússon

Sigur gegn Arsenal

Okkar menn unnu góðan 3-1 sigur á Arsenal í síðasta leik þriðju umferðar úrvalsdeildar. Gestirnir komust yfir með gjafamarki en þeir rauðu voru ekki lengi að snúa dæminu við.

Fátt kom á óvart í byrjunarliði Jürgen Klopp. Alisson var sem betur fer í markinu en orðrómur hafði verið í gangi um að hann væri lítillega meiddur, Thiago var hinsvegar ekki með vegna meiðsla. Sömu sögu var að segja af byrjunarliði gestanna sem stilltu upp sínu sterkasta liði eða því sem næst.

Það er yfirleitt sama sagan þegar farið er yfir leiki Liverpool. Sem fyrr voru þeir rauðklæddu mun meira með boltann og mótherjinn sáttur við að liggja til baka og verjast þétt. Fyrsta færið leit dagsins ljós eftir um korters leik þegar Mané fékk sendingu frá Alexander-Arnold inná teiginn, hann skaut að marki úr góðri stöðu en skotið fór beint á Leno í markinu. Alexander-Arnold var svo ekki langt frá því að skora með skoti fyrir utan teig sem hafði viðkomu í varnarmanni en boltinn skoppaði í þverslána og Skytturnar önduðu léttar. Frábær pressa uppvið mark Arsenal skapaði svo ágætt skotfæri fyrir Wijnaldum en skot hans var laust og Leno átti ekki í vandræðum með það. Fyrsta markið kom svo þvert gegn gangi leiksins. Arsenal menn sóttu hratt upp vinstra megin, sending kom inná teiginn þar sem Robertson virtist eiga auðvelt verk fyrir höndum að hreinsa frá. Honum tókst þó ekki betur til en svo að hann hitti boltann illa og sendi hann beint aftur fyrir sig á Lacazette sem var aleinn á markteig. Frakkinn hitti boltann illa en það var honum til happs því Alisson var búinn að færa sig til vinstri og náði ekki að koma í veg fyrir að boltinn skoppaði í markið.

En forysta gestanna varði ekki lengi. Mohamed Salah gerði mjög vel þegar hann lék inná teiginn framhjá Tierney og skaut að marki. Leno varði skotið en boltinn barst á Mané sem gat ekki annað en skorað. Á 34. mínútu komust okkar menn svo yfir þegar Robertson bætti fyrir mistök sín. Alexander-Arnold átti góða sendingu frá hægri, boltinn fór yfir alla í teignum og Robertson var mættur á fjærstöngina, lagði boltann fyrir sig og setti hann svo snyrtilega framhjá Leno. Staðan 2-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svo sem sama saga og í þeim fyrri en Lacazette fékk reyndar tvö úrvals færi einn gegn Alisson en Brasilíumaðurinn gerði vel í bæði skiptin, kom vel út á móti og varði. Það var kannski spurning um rangstöðu í fyrra skiptið og það atvik hefði verið skoðað í VARsjánni, engu að síður var virkilega gott að sjá boltann ekki í markinu. Hinumegin fékk Mané skotfæri í teignum eftir gott samspil í þröngri stöðu en hann þurfti að snúa sér til að skjóta að marki og hitti ekki á rammann. Þegar tíu mínútur voru eftir setti Klopp þá Milner og Jota inná. Jota fékk flott færi skömmu síðar þegar Salah sendi á hann, Portúgalinn þrumaði að marki en skaut í hliðarnetið. Ekki löngu síðar leit skyndisókn mjög vel út en Salah þvældist fyrir Jota og færið rann út í sandinn. En á 88. mínútu brást Jota ekki bogalistin þegar boltinn barst til hans rétt út við vítateigslínu miðja. Hann lagði boltann fyrir sig og skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Hans fyrsta marki fyrir félagið var að sjálfsögðu vel fagnað ! Lokatölur 3-1 og sanngjarn sigur í höfn.Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson, Fabinho, Keita (Milner, 79. mín.), Wijnaldum, Salah, Firmino (Minamino, 90. mín.), Mané (Jota, 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Williams, Jones, Origi.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (28. mín.), Andy Robertson (34. mín.) og Diogo Jota (88. mín.).

Gul spjöld: Mané og Alexander-Arnold.

Arsenal: Leno, Holding, David Luíz, Tierney, Bellerín, Elneny, Xhaka (Ceballos, 60. mín.), Maitland-Niles, Willian (Pepé, 68. mín.), Lacazette (Nketiah, 74. mín.), Aubameyang. Ónotaðir varamenn: Rúnarsson, Gabriel, Kolasinac, Saka.

Mark Arsenal: Alexandre Lacazette (25. mín.).

Gul spjöld: Bellerín og Ceballos.

Maður leiksins: Sadio Mané var öflugur og síógnandi í sínum leik og hlýtur nafnbótina að þessu sinni. Alisson á gott tilkall einnig með sínum mikilvægu vörslum í seinni hálfleik.

Jürgen Klopp: ,,Ég er fullkomlega ánægður með frammistöðuna. Við spiluðum góðan leik, vorum sveigjanlegir og brutum hlutina upp. Ég er virkilega ánægður fyrir hönd Diogo Jota. Hann er toppnáungi. Það er erfitt að bæta lið eins og okkar. Hann hefur verið á listanum hjá mér í tvö eða þrjú ár og það er gott að hann er hluti af liðinu núna."

Fróðleikur:

- Diogo Jota skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.

- Sadio Mané skoraði sitt þriðja mark í deildinni á leiktíðinni.

- Andy Robertson skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni.

- Liverpool hafa unnið fimm heimaleiki í röð gegn Arsenal, mest hafa sigrarnir orðið sjö talsins en það gerðist á árunum 1981-1988.

- Andy Robertson hefur lagt upp eða skorað mark í sjö af síðustu átta leikjum sínum í deildinni.

- Sadio Mané hefur skorað í fjórum af fimm heimaleikjum sínum gegn Arsenal.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan