| Grétar Magnússon

Stórleikur á Anfield

Næsti leikur okkar manna er stórleikur umferðarinnar þegar Manchester United mæta á Anfield. Leikurinn fer fram sunnudaginn 19. janúar kl. 16:30.

Það er margumrætt og skoðað að staða liðanna er ákkúrat öfug borið saman við bestu ár United og því kannski óþarfi að fara yfir það enn og aftur hér og við einbeitum okkur frekar að leiknum sem er á dagskrá. Það skal þó tekið fram að engu leiðist að kíkja á stöðuna í deildinni eins og hún er núna svo ekki sé minnst á vesenið sem hefur verið á erkifjendunum á tímabilinu.

Það eru svo sannarlega betri fréttir af meiðslum leikmanna Jürgen Klopp en þeir Joel Matip og Fabinho hófu báðir æfingar að nýju í vikunni. Meiri líkur eru taldar á því að Fabinho taki þátt í leiknum frekar en Matip en líklega vill Klopp láta þá æfa meira og hafa þá klára í leikinn gegn Úlfunum í næstu viku. Þeir Dejan Lovren, Naby Keita, James Milner og Nathaniel Clyne munu ekki ná þessum leik en það styttist vonandi í þá þrjá fyrstnefndu.

Gestirnir glíma einnig við meiðsli mikilvægra manna en alls eru átta leikmenn á sjúkralistanum þeirra. McTominay, Pogba, Tuanzebe, Rojo, Shaw, Bailly og Fosu-Mensah eru allir frá og í vikunni meiddist Marcus Rashford í aukaleik í bikarnum. Samkvæmt fréttum verður auðvitað allt gert til að koma honum í stand fyrir stórleikinn en það mun vera tæpt á því að það náist.

Líklega mun Klopp ekki gera neinar stórar breytingar á liðinu frá leiknum við Tottenham enda er varla ástæða til þess. Það hefur tekist að halda markinu hreinu í síðustu sex leikjum og í síðustu 11 leikjum hefur mótherjanum aðeins tekist að skora eitt mark, nánar tiltekið þegar mexíkóska liðið Monterrey jafnaði metin í heimsmeistarakeppni félagsliða í desember. Það verður svo fróðlegt að sjá hvernig Ole Gunnar Solskjær stillir upp sínu liði en hann hefur sagt að hann viti hvernig eigi að spila á móti Liverpool hafandi náð tveimur jafnteflum gegn þeim á Old Trafford sem stjóri liðsins. United hafa á tímabilinu náð fínum úrslitum gegn hinum stóru liðunum og unnu þeir m.a. Manchester City á útivelli fyrr í vetur. Við skulum því hafa varann á okkur fyrir leikinn, ljóst er að United menn munu selja sig dýrt til að verða fyrsta liðið til að stöðva Liverpool í deildinni, enda eru þeir eina liðið sem hefur tekist að taka stig af toppliðinu.

Auka mótivering fyrir United hlýtur líka að vera að liðið hefur náð í fín úrslit á Anfield í gegnum tíðina en það sem er auðvitað öðruvísi nú er gengi Liverpool það sem af er. Af síðustu sex leikjum liðanna á Anfield hafa bæði lið unnið tvo og tveir leikir endað jafnir. Allir muna jú eftir síðasta leik liðanna á Anfield þar sem okkar menn unnu 3-1 og Jose Mourinho var rekinn í kjölfarið. Önnur slík úrslit væru auðvitað vel þegin.

Spáin að þessu sinn er sú að sigurganga okkar manna heldur áfram og úrslit leiksins verða 2-1. Fyrri hálfleikur verður tíðindalaus stöðubarátta og öll mörkin líta dagsins ljós í seinni hálfleik.

Fróðleikur:

- Sadio Mané er markahæstur Liverpool manna á tímabilinu með 11 mörk í deild og 15 alls.

- Marcus Rashford er markahæstur United manna með 14 mörk í deildinni og 19 mörk alls.

- Andy Robertson spilar líklega deildarleik númer 80 fyrir félagið og 110. leikinn í öllum keppnum.

- Fyrir leikinn eru okkar menn sem fyrr í toppsæti deildarinnar með 61 stig eftir 21 leik.

- United eru í 5. sætinu með 34 stig eftir 22 leiki.









TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan