| Sf. Gutt

Árið endað með sigri!


Heims-, Evrópu- og Stórbikarmeistarar Liverpool enduðu árið með sigri! Liverpool vann Wolverhampton Wanderes 1:0 á Anfield í lokaleik þessa magnaða árs! Liverpool leiðir deildina með 13 stigum þegar nýtt ár gengur í garð.

Liverpool skartaði nýju merki á búningum sínum til merkis um það að liðið sé Heimsmeistari félagsliða. Liðið fékk leyfi til að hafa merkið á í þessum eina deildarleik. Stuðningsmenn Liverpool sungu líka söngva heimsmeistaratitlinum til staðfestingar! Magnað að hafa loksins þennan titil á afrekaskrá félagsins!

Liverpool hóf leikinn vel á móti Wolves og eftir þrjár mínútur sendi Trent Alexander-Arnold fyrir markið á Mohamed Salah en Egyptinn skaut yfir. Liverpool hafði yfirburði úti á vellinum en skapaði sér ekki mörg færi á móti sterku liði Wolves sem hafði unnið meistara Manchester City 3:2 eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í síðustu umferð. Á 21. mínútu skallaði Sadio Mané boltann til Moahmed sem tók boltann fallega á lofti við vítateiginn en skotið var beint á markmann Wolves. Eftir rúman hálftíma skallaði Roberto Firmino rétt framhjá eftir sendingu Andrew Robertson upp úr horni. 

Liverpool komst loks yfir á 42. mínútu. Sending kom inn í vítateig Wolves. Adam Lallana teygði sig í boltann og snerti hann með öxlinni. Boltinn féll fyrir fætur Sadio Mané sem skoraði örugglega af stuttu færi. Leikmenn og stuðningsmenn fögnuðu en ekki lengi því við tók við bið eftir sjónvarpsdómgæslu. Úrskurðurinn var sá að Adam hefði ekki snert boltann með hendi sem allir sáu! Þá var hægt að fagna aftur!

Þegar komið var fram í viðbótartíma hálfleiksins sótti Wolves. Vörn Liverpool náði ekki að hreinsa eftir horn frá hægri. Boltinn barst þvert fyrir markið á Pedro Neto sem skoraði. Aftur tók við bið eftir sjónvarpsdómgæslu og niðurstaðan var sú að rangstaða hefði verið á Wolves í aðdraganda marksins. Millimetraspursmál sem var rétt dæmt en þessi sjónvarpsdómgæsla er út í hött og er að stórskaða íþróttina. Þó svo að það hafi komið Liverpool vel í þetta sinn. 

Síðari hálfleikur var tíðindalítill en bæði lið spiluðu af mikilli ákveðni. Gestirnir færðu sig upp á skaftið en vörn Liverpool var sterk og Alisson Becker var öryggið uppmálað í markinu. Besta færið kom um miðjan hálfleikinn þegar Diogo Jota rændi boltanum af Virgil van Dijk rétt utan við vítateiginn. Hann lék nær markinu en Alisson Becker varði skot hans. Síðustu mínúturnar voru spennandi enda lögðu Úlfarnir allt í sölurnar. Heims-, Evrópu- og Stórbikarmeistarar Liverpool héldu fengnum hlut og unnu sanngjarnan sigur þó í minnsta lagi væri. 

Liverpool er í geysilga góðri stöðu nú þegar þetta magnaða ár í sögu félagsins er að renna sitt skeið. Allir deildarleikir hafa unnist utan einn sem lauk með jafntefli. Liverpool hefur góða forystu en það er langt í land. Vonandi nær liðið að halda áfram á sömu braut á nýja árinu. Nái liðið að gera það gæti nýja árið líka farið í annála félagsins eins og það sem nú kveður senn!

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson; Lallana (Keita 66. mín.), Henderson, Wijnaldum (Milner 85. mín.) ; Salah, Firmino (Origi 85. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrian, Jones, Elliott og Williams.

Mark Liverpool: Sadio Mané (42. mín.).

Gult spjald: Adam Lallana.

Wolverhampton Wanderes: Rui Patricio; Bennett, Coady, Kilman; Jonny, Dendoncker (Traore 57. mín.), Neves (Saiss 57. mín.), Moutinho, Vinagre; Neto og Jota (Jiminez 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Ruddy, Doherty, Cutrone og Otasowie. 

Áhorfendur á Anfield Road: 53.326.

Maður leiksins:
Joe Gomez. Hann var lengi að koma sér í gang eftir meiðslin í fyrra og virkaði stundum óöruggur. En núna í síðustu leikjum hefur hann spilað frábærlega. Hann stóð vaktina með sóma í vörninni þegar á reyndi. 

Jürgen Klopp:
Þetta var erfið prófraun eins og búast mátti við. Ég er virkilega ánægður með að við skyldum ná að herja fram sigur. 

Fróðleikur.

- Liverpool leiðir deildina með 13 stigum við áramót. 

- Sadio Mané skoraði 14. mark sitt á leiktíðinni. 

- Þetta var 50. deildarleikur Liverpool í röð á Anfield Road án taps. Liverpool hefur unnið 40 af leikjunum og gert tíu jafntefli. 

- Þetta er aðeins í þriðja sinn í efstu deild sem lið nær að spila 50 eða fleiri heimaleiki í röð án taps. 

- Jordan Henderson lék sinn 350. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 26 mörk. 

- Sadio Mané spilaði 150. leik sinn. Hann hefur skorað 73 mörk.  

- Virgil van Dijk lék sinn 100. leik. Hingað til hefur hann skorað tíu mörk. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan