| Grétar Magnússon

Góður sigur á Brighton

Sigurgangan hélt áfram í úrvalsdeildinni þegar 2-1 sigur vannst á Brighton á Anfield, sigurinn var þó alls ekki öruggur þegar upp var staðið og sem fyrr vorum við stuðningsmenn á nálum þangað til lokaflautan gall.

Í fjarveru Fabinho á miðjunni telfdi Jürgen Klopp fram þeim Henderson, Oxlade-Chamberlain og Wijnaldum saman og að öðru leyti var liðið skipað mönnum sem allir bjuggust við að myndu byrja. Okkar menn byrjuðu betur en eins og við var að búast voru Brighton menn þéttir til baka og reyndu að gefa fá færi á sér. Þeir Mohamed Salah og Roberto Firmino áttu tilraunir að marki á upphafsmínútunum, Salah skaut í hliðarnetið og Ryan í marki Brighton varði frá Firmino. Á 18. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu úti við teiginn hægra megin. Trent Alexander-Arnold sendi hárnákvæma sendingu inná teiginn þar sem Virgil van Dijk hoppaði manna hæst og skallaði boltann í fallegum boga í markið. Skömmu síðar hefði staðan átt að vera orðin 2-0 en Ryan í markinu varði þá tvisvar mjög vel frá Firmino og Mané með stuttu millibili.

En annað mark heimamanna leit þó dagsins ljós á 24. mínútu og uppskriftin var sú sama og í fyrsta markinu. Trent Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá vinstri og spyrnan var fullkomin. Virgil van Dijk var aftur mættur og þurfti lítið annað að gera en að mæta á boltann og hamra hann inn með höfðinu. Virkilega vel gert hjá þeim félögum og staðan orðin 2-0. Brighton menn létu þetta lítið á sig fá og hefðu með smá heppni getað minnkað muninn skömmu síðar. Propper náði góðu skoti úr teignum sem Alisson varði vel og svo fékk Dunk úrvalsfæri í teignum en hann hitti sem betur fer ekki markið aleinn og óvaldaður. Heimamenn áttu svo síðasta færið í hálfleiknum en Ryan var enn og aftur vel á verði og varði fínt skot frá Oxlade-Chamberlain.


Bæði lið mættu fersk til leiks í seinni hálfleik og Brighton menn fengu hornspyrnu skömmu eftir að seinni hálfleikur byrjaði. Dunk var þar mættur á markteiginn og skallaði boltann rétt framhjá markinu. Alisson þurfti svo að vera vel vakandi þegar Connolly skaut að marki en Brasilíumaðurinn varði skotið. Oxlade-Chamberlain var næstur á blað eftir góðan undirbúning Andy Robertson, sá fyrrnefndi skaut að marki og boltinn var á leiðinni í markið en Dunk náði að renna sér fyrir og bjarga vel. Á 76. mínútu var svo vendipunktur leiksins þegar há sending kom innfyrir vörnina á Trossard sem var við það að sleppa í gegn. Dejan Lovren fylgdi honum þó vel og Alisson var kominn langt út úr markinu. Trossard lyfti boltanum yfir hann og Alisson stöðvaði boltann með hendinni fyrir utan teiginn. Það þýddi auðvitað beint rautt spjald og aukaspyrnu á hættulegum stað fyrir Brighton. Adrián kom inná fyrir Oxlade-Chamberlain og byrjaði að stilla upp varnarveggnum. Martin Atkinson, dómari leiksins, leiddist eitthvað þófið og sá að Brighton menn voru tilbúnir og flautaði leikinn í gang. Dunk hikaði ekki og skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Adrián var útvið stöngina hinumegin og kom engum vörnum við. Staðan orðin 2-1 og þrátt fyrir mótmæli stóð markið. Atkinson heldur því áfram að hrella okkur stuðningsmenn Liverpool með skrýtnum ákvörðunum svo ekki sé meira sagt.

Eftir þetta vildu heimamenn halda fengnum hlut og tókst það með naumindum. Adrián þurfti að verja vel nokkrum sinnum og í eitt skiptið lét hann hjörtu okkar stuðningsmanna stoppa í smá stund þegar hann hélt ekki boltanum eftir fyrirgjöf en náði honum sem betur fer áður en Brighton maður komst að boltanum. Gestirnir lágu í sókn en eins og áður sagði tókst þeim ekki að bæta við marki og mikilvægur 2-1 sigur niðurstaðan.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Lovren, van Dijk, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain (Adrián, 78. mín.), Salah (Lallana, 69. mín.), Firmino (Origi, 76. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Gomez, Milner, Keita, Shaqiri.

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (18. og 24. mín.).

Rautt spjald: Alisson (76. mín.).

Brighton: Ryan, Montoya (Alzate, 69. mín.), Webster, Dunk, Burn, Pröpper, Stephens, Bissouma (Trossard, 69. mín.), Gross, Connolly (Maupay, 76. mín.), Mooy. Ónotaðir varamenn: Button, Schelotto, Murray, Duffy.

Mark Brighton: Lewis Dunk (79. mín.).


Maður leiksins: Virgil van Dijk er maður leiksins fyrir sitt framlag, tvö mörk frá varnarmanninum sterka voru svo sannarlega kærkomin. Það verður þó að minnast á Trent Alexander-Arnold sem lagði upp bæði mörkin með hreint frábærum fyrirgjöfum.

Jürgen Klopp: ,,Það var óþarfi (að gera leikinn svona spennandi í lokin) auðvitað, því við fengum mörg góð færi. Markvörður þeirra varði nokkrum sinnum mjög vel. Brighton gerðu okkur erfitt fyrir og þeir eru með gott lið. Þeir voru mikið með boltann og við þurftum að leggja mjög hart að okkur. Ég var mjög ánægður með að strákarnir voru tilbúnir að gera það eftir annasama viku."

Fróðleikur:

- Frá byrjun síðasta tímabils hefur enginn leikmaður átt jafn margar stoðsendingar og Trent Alexander-Arnold, 17 talsins !

- Liverpool hafa unnið 14 leiki í röð á Anfield í deildinni. Lengsta sigurganga í sögu félagsins er 21 leikur frá janúar til desember árið 1972.

- Virgil van Dijk hefur skorað flest mörk allra varnarmanna í deildinni frá byrjun síðasta tímabils, mörkin eru orðin sjö talsins.

- Liverpool hafa skorað 40 mörk í deildinni úr föstum leikatriðum frá því í ágúst 2018, meira en öll önnur lið deildarinnar.

- Virgil van Dijk hefur nú skorað þrjú mörk á tímabilinu, öll í deildinni.

- Alisson fær nú eins leiks bann og missir af heimaleiknum og nágrannaslagnum við Everton þann 4. desember.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan