| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Barcelona v Liverpool

Liverpool er ekki bara í harðri baráttu um Englandsmeistaratitilinn. Annað árið í röð er Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og er eina liðið sem var þar líka í fyrra!


Eftir að Liverpool sló Porto úr leik varð ljóst að næsti mótherji Liverpool yrði Barcelona sem ruddi Manchester United vandræðalítið úr vegi í átta liða úrslitum. Barcelona er spænskur meistari síðustu tveggja ára og bikarmeistarar síðustu fjögurra. Evrópubikarinn vannst síðast 2015 og stefnan er á að vinna hann aftur í ár fyrst Real Madrid, sem vann bikarinn síðustu þrjú árin, er úr leik. Reyndar er stefnan sett á Evrópubikarinn á hverju einasta ári


Mannvalið er mikið hjá Barcelona. Luis Suarez, Philippe Coutinho og svo auðvitað Lione Messi sem er besti knattspyrnumaður samtímans! Það er að minnsta kosti mitt mat. Svo eru margir fleiri í liðinu sem geta talist í hæsta gæðaflokki. Barcelona er einfaldlega eitt allra besta lið í heimi!


Liverpool á vissulega möguleika á að vinna Englandsmeistaratitilinn þó svo Manchester City sé með undirtökin í þeirri baráttu. Liðið á að eiga góða möguleika á að komast alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og það annað árið í röð sem yrði mikið afrek. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Liverpool hefur ekki unnið titil frá því á leiktíðinni 2011/12. Síðan hefur liðið tapað þremur úrslitaleikjum og varð naumlega af enska meistaratitlinum leiktíðina 2013/14. Þrátt fyrir hvað liðið er frábært þá vantar titla og það strax!

Bæði Luis og Philippe fóru frá Liverpool til Barcelona til að vinna titla og hafa gert það. Miðað við stöðuna í ensku deildinni þar sem Manchester City sýnir engin veikleikamerki mætti segja að Liverpool eigi meiri möguleika á að vinna Evrópubikarinn en ensku deildina. En til þess að það geti gerst þarf að ryðja Barcelona úr vegi og svo eru sterk lið Ajax og Tottenham Hotspur enn með í keppninni. Þó svo að Barcelona sé með stórkostlegt lið þá telja sparkspekingar veikleika í liðinu. Vörnin er ekki jafn góð og framlínan og þar eiga að leynast veikir punktar. Sókn Liverpool er ein sú besta í heimi og hún gefur Liverpool möguleika! 

Eina enska liðið sem hefur unnið Evrópuleik á móti Barcelona í heimavígi þeirra er Liverpool og það tvisvar! Fyrst  0:1 með marki John Toshack í Evrópukeppni félagsliða á leiktíðinni 1975/76  og svo 1:2 í Meistaradeildinni á sparktíðinni 2006/07 þegar Craig Bellamy og John Arne Riise skoruðu.

Ég spái því að Liverpool endurtaki leikinn frá 1976 og 2007. Framherjar Liverpool, Sadio Mané og Mohamed Salah tryggja 1:2 sigur. Liverpool þarf að fara að vinna titla og allir verða að trúa því að það gerist í vor! Svo er 1. maí rauður dagur :)

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan