| Sf. Gutt

Spáð í spilinLiverpool v Porto

Eftir mikla törn í deildarkeppninni er komið að næstu hindrun á Evrópuvegferð Rauða hersins. Mótherjinn er Porto frá Portúgal og sæti í undanúrslitum er í húfi. 


Á síðustu leiktíð mættust liðin og þá í 16 liða úrslitum. Allir muna eftir burstinu í Porto þegar Liverpool vann 0:5 í fyrri leiknum og gerði út um viðureignina. Seinni leiknum á Anfield Road lauk án marka og Liverpool komst örugglega áfram. Verkefnið í ár verður örugglega mun erfiðara. Porto er ríkjandi meistari í Portúgal og leikmenn liðsins verða staðráðnir í að verða ekki hýddir af Liverpool eins og í fyrra. Liverpool sýndi mikinn styrk í síðustu umferð með því að slá Bayern München út. Á sama tíma hafði Porto betur gegn Roma. Stuðningsmenn Liverpool vildu trúlega frekar verða Englandsmeistarar en Evrópumeistarar í vor ef þeir mættu velja. En sem stendur á Liverpool möguleika á að vinna báða titlana og bæði væri að sjálfsögðu betra! Að vinna elur af sér sjálfstraust og því er ekki ástæða til annars en að vonast til að Evrópuvegferðin verði lengri og endi betur en ævintýraferðin á síðustu leiktíð sem fékk dapurlegan endi í Kiev. Það ætti því bara að vera gott upp á baráttuna um Englandsmeistaratitilinn að vera sem lengst í Meistaradeildinni. Liverpool hefur alla sína bestu menn til taks utan hvað Andrew Robertson er í leikbanni. Ég spái því að Liverpool nái býsna góðu nesti fyrir seinni leikinn í Porto. Andrúmsloftið á Anfield verður rafmagnað eins og jafnan  á Evrópukvöldum og Liverpool vinnur 2:0. Mohamed Salah og Naby Keita skora mörkin. Fjörið heldur áfram og þannig viljum við stuðningsmenn Liverpool hafa það!

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan