| Sf. Gutt

Harry bestur í síðustu umferð Deildarbikarsins!


Fjórða umferð Deildarbikarsins fer fram núna í vikunni. Því miður er Liverpool ekki lengur með í keppninni. Segja má að Liverpool eigi þó enn fulltrúa í Deildarbikarnum og hann er búinn að láta hressilega til sín taka. 

Harry Wilson er núna lánsmaður hjá Derby County og skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu í leik á móti Manchester United á Old Trafford. Leiknum lauk 2:2 en Derby vann 8:7 í vítaspyrnukeppni. Harry skoraði úr sínu víti í vítaspyrnukeppninni. Framganga þessa efnilega leikmanns þótti mögnuð og hann var í kjölfarið valinn besti leikmaðurinn í þriðju umferð keppninnar! 

Víst er að stuðningsmönnum Liverpool fannst gaman að sjá Harry skora á Old Trafford og eins að hann skyldi eiga þátt í slá Manchester United út út keppninni. Harry fannst það heldur ekki ónýtt og sást það vel þegar hann fagnaði markinu sínu!


Aukaspyrnan á Old Trafford er ekki sú eina sem Harry hefur skorað úr á leiktíðinni. Hann skoraði með mjög áþekku skoti beint úr auakaspyrnu í landsleik Wales á Írlandi í síðasta mánuði. Markið var það eina sem skorað var í leiknum.

Harry var í láni hjá Hull City á síðustu leiktíð og stóð sig mjög vel. Hann hefur líka spilað mjög vel hjá Derby. Frank Lampard er framkvæmdastjóri Derby og ekki er ósennilegt að hann geti kennt Harry eitt og annað. Þessi ungi Veilsverji hefur sannarlega hæfileika til að bera og hver veit nema hann eigi eftir að verða mjög góður.    

Harry Wilson og félagar féllu reyndar úr keppni í Deildarbikarnum í  kvöld eftir 3:2 tap fyrir Chelsea í London. Harry var í byrjunarliði Derby.   

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan