| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn Southampton á Anfield og fer hann fram laugardaginn 22. september kl. 14:00 að íslenskum tíma.

Gengi liðsins hefur verið ótrúlega gott það sem af er tímabili. Fimm leikir af fimm hafa unnist í deildinni og í vikunni vannst frábær sigur á PSG í fyrsta leik riðlakeppni Meistaradeildar 3-2.

Þó svo að þetta sé ekki beint kunnugleg staða sem liðið er í núna, verandi taplaust í deild og í öllum leikjum tímabilsins til þessa þá kannast maður engu að síður við andrúmsloftið sem er nú í gangi fyrir næsta leik. Heimaleikur gegn liði sem verið hefur í svolitlum vandræðum það sem af er og ætti því í raun að vinnast nokkuð auðveldlega vilja margir meina. En það er einmitt þarna sem okkar menn hafa yfirleitt misstigið sig og þrumað okkur stuðningsmönnum beint niður á jörðina aftur.

Á móti kemur hinsvegar að maður finnur einhvern öðruvísi takt í því hvernig Jürgen Klopp stýrir liðinu. Honum hefur hingað til yfirleitt tekist að halda sínum leikmönnum á jörðinni og nú þegar mikil samkeppni er um stöður í byrjunarliði eru menn væntanlega enn frekar á tánum. Klopp veit sem er að enginn leikur í úrvalsdeild er léttur og vonandi heldur gott gengi liðsins áfram nú um helgina.

Væntanlega verða einhverjar breytingar gerðar á byrjunarliðinu frá leiknum við PSG. Firmino kemur sennilega aftur inn í stað Sturridge og svo er spurning hvort að þeir Wijnaldum eða Milner fái hvíld á miðjunni. Það er hinsvegar erfitt að skipta þeim út núna enda hafa þeir spilað frábærlega það sem af er. Ég býst við að fyrirliðinn Henderson haldi sæti sínu og mögulega verða engar breytingar gerðar á byrjunarliðinu fyrir þennan leik. Það er alltaf erfitt að segja til um þetta og við sjáum til hvernig liðinu verður stillt upp. Sem fyrr eru þeir Lallana, Lovren og Oxlade-Chamberlain frá vegna meiðsla en sá síðastnefndi sagði þó frá því í vikunni að hann væri byrjaður að sparka aftur í bolta sem er nokkuð stórt skref í endurhæfingu hans. Þeir Divock Origi og Dominic Solanke, sem hafa lítið verið nálægt hópnum á leikdegi til þessa, glíma svo við smávægileg meiðsli eftir leik með U-23 ára liðinu og óvíst hvort þeir komist í hópinn að þessu sinni.

Gestirnir frá suðurstrandarliðinu Southampton eru bara með einn leikmann á meiðslalistanum. Framherjinn Manolo Gabbiadini er meidur en gæti þó mögulega náð þessum leik. Danny Ings má svo ekki spila þar sem hann er á láni frá Liverpool eins og allir vita. Það er vissulega vont fyrir Southampton að missa hann út en hann hefur verið byrjunarliðsmaður undanfarið og skorað nokkur mörk.

Síðasti leikur liðanna á Anfield var þann 18. nóvember í fyrra þegar okkar menn unnu góðan 3-0 sigur með mörkum frá Salah (2) og Coutinho. Virgil van Dijk var í liði gestanna þennan dag en nú stillir hann sér upp gegn sínum gömlu félögum, eitthvað sem hann á sameiginlegt með allmörgum liðsfélögum í Liverpool í dag. Síðasti sigurleikur Southampton á Anfield kom í september árið 2013 þegar 0-1 sigur vannst. Það var enginn annar en Dejan Lovren sem skoraði eina mark leiksins en alls hafa Dýrðlingarnir unnið þrjá leiki á Anfield frá því að úrvalsdeildin var sett á laggirnar, Liverpool hafa unnið 10 leiki og sex hafa endað með jafntefli.

Spáin að þessu sinni er sú að gott gengi heldur áfram og Liverpool vinnur sinn sjötta leik í röð í deildinni, lokatölur verða 3-0. Eigum við ekki að segja að Mohamed Salah, sem hefur verið aðeins mistækur uppá síðkastið, komi sterkur inn og skori tvö mörk eins og á síðasta tímabili á Anfield og Mané skorar eitt mark. Menn þurfa þó að vera með einbeitinguna í lagi og leggja sig alla fram til að ná réttum úrslitum í leiknum.

Fróðleikur:


- Liverpool er í 2. sæti deildarinnar fyrir þessa umferð, með jafnmörg stig og Chelsea sem sitja á toppnum en lakari markatölu.

- Southampton eru í 13. sæti með fimm stig, þeir hafa skorað sex mörk og fengið á sig jafnmörg það sem af er.

- Danny Ings er markahæstur hjá Southampton með þrjú mörk á tímabilinu, næstur er Pierre-Emile Højbjerg sem hefur skorað tvö.

- Sadio Mané er markahæstur hjá Liverpool með fjögur mörk í deildinni, þeir Firmino og Salah hafa svo skorað tvö mörk hver í deildinni til þessa.

- Standi Liverpool uppi sem sigurvegarar í þessum leik verður það í fyrsta sinn í sögu félagsins sem fyrstu sex deildarleikirnir vinnast. Við skulum vona að nýtt félagsmet líti dagsins ljós !


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan