| Heimir Eyvindarson

Danny Ward seldur til Leicester

Í kvöld var gengið frá kaupum Leicester á Danny Ward. Kaupverðið er 12,5 milljónir sterlingspunda. Ward er þar með 10. dýrasti leikmaðurinn í sögu Leicester. 

Í samningnum er klásúla þess efnis að Liverpool fái 20% af söluverði hans, ef Leicester tekur upp á því að selja hann. 

Það er skammt stórra högga á milli í markmannsbransanum. Það er ekki nema rúm vika síðan menn voru að gera því skóna að Danny Ward yrði aðalmarkvörður Liverpool á næsta tímabili, þar sem Karius virðist enn vera í molum eftir Kiev - og Mignolet er eins og hann er. En svo kom Alisson. 

Eftir að kaupin á Alisson gengu í gegn er ljóst að Ward hefði þurft að gera sér bekkjarsetu eða lán að góðu enn eina ferðina og það er ekki vænlegt til árangurs hjá jafn efnilegum markverði.

Þetta hlýtur að þýða að Kasper Schmeichel sé á leið frá Leicester, en hvert hann fer er ekki komið á hreint. 

Danny Ward er 25 ára og hefur verið hjá Liverpool frá því í janúar 2012. Hann lék einungis þrjá alvöru leiki með félaginu, en sat á bekknum nokkrum sinnum. Á meðan hann var í eigu Liverpool var hann lánaður til Morecambe, Aberdeen og Huddersfield. Hann á fjóra landsleiki skráða með landsliði Wales.   

Það verður að viðurkennast að maður hefur ekki séð allt of mikið til Ward, en miðað við frammistöðu hans í þessi örfáu skipti sem hann kom við sögu hjá Liverpool - og í play off leikjunum hjá Huddersfield þá held ég að hann eigi að geta plumað sig mjög vel hjá Leicester. 

Það er alltaf eftirsjá af góðum leikmönnum en það er ekki hægt að segja annað en að þetta sé fín sala fyrir Liverpool. Ég held samt svei mér þá að ég hefði frekar viljað sjá á eftir Karius og Mignolet en Ward. 


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan