| Sf. Gutt

Naumt tap

Liverpool mátti þola naumt 2:1 tap á Old Trafford í dag. Liverpool náði þar með ekki öðru sæti deildarinnar. Ekki í bili að minnsta kosti. 

Eins og venjulega var þessa stórleiks beðið með eftirvæntingu og það var spenna í loftinu þegar flautað var til leiks. Ekkert gerðist fyrir en eftir tæpan stundarfjórðung. David De Gea tók útspark. Romelu Lukaku vann skallaeinvígi við Dejan Lovren. Skalli hans fór út til vinstri á Marcus Rashford sem lék á Trent Alexander Arnold og skoraði með föstu skoti út við fjærstöngina. Slæm mistök hjá vörn Liverpool. Dejan tapaði skallaeinvígi og Trent var illa staðsettur í kjölfarið. 

Liverpool komst nærri því að jafna á 23. mínútu. Virgil Van Dijk reif sig lausan eftir horn frá vinstri en skalli hans úr góðu færi var mislukkaður og fór framhjá. Í stað þess að Liverpool jafnaði juku heimamenn forystu sína. Aftur kom markið upp úr útsparki hjá David. Aftur hafði Romelu betur í skallaeinvígi við Dejan. Boltinn barst inn í vítateiginn og þaðan hrökk hann til Marcus sem skoraði aftur í sama horn. Liverpool 2:0 undir og staðan slæm. Á 38. mínútu slapp Liverpool vel þegar Juan Mata klippti boltann framhjá óvaldaður.

Leikmenn Liverpool komu gríðarlega ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og sóttu linnulaust. Heimamenn lögðust í vörn enda tveimur mörkum yfir. Á upphafskafla hálfleiksins vildu leikmenn Liverpool tvívegis fá víti. Fyrst lagði Ashley Young hendur á Mohamed Salah og svo fór fyrirgjöf Andrew Robertson í hendi Antonio Valencia. Dómarinn lét þetta óátalið en eitt víti hefði átt að koma út úr þessu í minnsta lagi. Hendin hjá Antonio var augljós!

Þar kom að Liverpool minnkaði muninn. Sadio Mané sendi fyrir frá vinstri og Eric Bailly stýrði boltanum í eigið mark á furðulegan hátt með hælnum. Liverpool herti tökin en vörn United var gríðarlega sterk. Antonio átti að vera rekinn af velli fyrir að setja sólann í öxlina á Sadio og undir lokin var ekki annað að sjá en að Marouane Fellaini felldi Senegalann inni í vítateig. Slakur dómari leiksins dæmdi ekkert sem var óskiljanlegt.

Liverpool mátti þola tap sem var gremjulegt. Vissulega gat Liverpool leikið betur og mörkin sem liðið fékk á sig voru klaufaleg. Liverpool átti síðari hálfleikinn en vörn United hélt. Í svona jöfnum leikjum má ekkert út af bera og dómarar verða að dæma betur. Liverpool hefði náð betri úrslitum með betri leik en líka með því að dómarinn hefði dæmt eðlilega!

Maður leiksins: Roberto Firmino. Brasilíumaðurinn reyndi hvað hann gat til að klekkja á vörn Manchester United. Allt kom fyrir ekki en Roberto gaf allt í leikinn. 

Jürgen Klopp:
Ef hitt liðið skorar tvö og við bara eitt þá er niðurstaðan sú. Ég held að enginn hefði fundið mikið að því þó leiknum hefði lokið með jafntefli. 

Fróðleikur

- Þetta var 200. leikur Liverpool og Manchester United. 

- Liverpool hefur unnið 65, Manchester United 80 og jafnteflin eru 55 talsins.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com. 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan