| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Manchester United v Liverpool

Það vantar ekki að stórlið leiða saman hesta sína í Manchester í hádeginu á morgun. Rauði herinn hefur ekki haft betur gegn Rauðu djöflunum í síðustu deildarleikjum en það styttist í sigur. Einfalt mál!

Liðin eru sem stendur að berjast um annað sæti deildarinnar. Manchester United er rétt á undan sem stendur en ef Liverpool vinnur þá fer liðið upp fyrir mótherja sína. Það yrði sannarlega vel þegið ef það gengi eftir. Miðað við hvernig Liverpool hefur verið að spila síðustu vikur þá held ég að nú sé lag að vinna á Old Trafford. Lið Manchester United er auðvitað mjög sterkt og kemur án nokkurs vafa mjög einbeitt til leiks. Sama má segja um Liverpool hefði ég haldið! 


Manchester United pakkaði í vörn á móti Liverpool þegar liðin mættust á Anfield Road í haust en það mun Liverpool ekki gera á morgun. Ég skal hundur heita ef Liverpool heldur ekki áfram á sömu braut með að spila beittan sóknarleik og leika til sigurs. Slík leikaðferð ætti að geta dugað til sigurs á morgun. Vonandi sigrar sóknarknattspyrnan og varnarhugsunarháttur verður undir. Slíkt yrði sérstakt gleðiefni!


Liverpool vann síðast á Old Trafford á leiktíðinni 2013/14 og um leið er það síðasti deildarsigur Liverpol á Manchester United ef rétt er munað. Hver man ekki eftir vítunum tveimur sem Steven Gerrard skoraði úr? Þriðja vítið fór reyndar í stöng en Luis Suarez innsiglaði 0:3 sigur. Það á allt að vera til staðar hjá Liverpool til að vinna. Allir bestu menn liðsins eru heilir, það er mikið sjálfstraust í liðinu eftir gott gengi síðustu vikur og svo mætti halda. Nú er komið að því og Liverpool nær að vinna sigur á Old Trafford á morgun. Ég spái því að Liverpool vinni 1:2 með mörkum Sadio Mané og Roberto Firmino. Það er kominn tími á sigur á Manchester United!

YNWA 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan