| Sf. Gutt

Jólaveisla á öðrum degi jóla!


Liverpool bauð til jólaveislu á öðrum degi jóla á Anfield Road. Svanirnir voru kaffærðir og Liverpool vann stórsigur 5:0 sem bætti stöðu liðsins í toppbaráttunni. 

Jürgen Klopp gerði nokkrar breytingar á liðinu sínu en Simon Mignolet stóð í markinu en einvherjir höfðu gert því skóna að Belginn yrði settur á bekkinn eftir kalufamarkið sem hann fékk á sig á móti Arsenal. Jordan Henderson var ekki orðinn góður eftir að hafa farið meiddur út af gegn Arsenal og var Philippe Coutinho fyrirliði. 

Liverpool tók öll völd á vellinum frá fyrstu mínútu leiksins og það voru aðeins sex mínútur liðnar þegar boltinn lá í marki gestanna. Roberto Firmino vann boltann á miðjum vallarhelmingi Swansea, gaf á Mohamed Salah sem sendi á Philippe Coutinho. Rétt utan vítateigs sveiflaði Brasilíumaðurinn hægri fæti sínum eldsnöggt og áður en auga á festi lá boltinn í netinu að baki Lukasz Fabianski sem hreyfði hvorki legg né lið. Stórglæsilegt skot og markið eftir því!

Liverpool hafði fullkomna stjórn á öllu fram að hálfleik en þó var eins og það vantaði snerpu til að gera út um leikinn. Roberto Firmino fékk einmitt mjög gott færi til að gera það á lokaandartökum fyrri hálfleiks. Mohamed náði boltunum og sendi hann strax á Roberto. Brasilíumaðurinn lék á tvo og kom sér í upplagt færi en skaut svo framhjá. Heldur klaufalegt eftir frábæran undirbúning. Það munaði því aðeins einu marki þegar flautað var til leikhlés. 

Eftir fimm mínútur lék Mohamed sig í gott færi en Lukasz varði frá honum. Tveimur mínutum seinna fór Liverpool langt með að gera út um leikinn þó tveggja marka forysta hafi ekki alltaf dugað liðinu. Philippe sendi hárnákvæma aukaspyrnu frá vinstri fyrir markið. Boltinn fór beinustu leið á Roberto Firmino sem tók boltann á lofti og smellti honum í markið af stuttu færi. Mjög vel gert hjá samlöndunum. 


Á 65. mínutu sendi Andrew Robertson fyrir markið. Varnarmaður skallaði út fyrir vítateiginn. Þar sýndi Trent Alexander-Arold grimmd náði boltanum, rykkti sér inn í vítateiginn og þrumaði boltanum í slá og inn fyrir framan The Kop. Unglingurinn trylltist af fögnuði enda fyrsta mark hans á Anfield og það fyrir framan Kop stúkuna. Magnað augnablik sem unga pilta, sem styðja Liverpool frá barnæsku, dreymir um. Draumur Trent rættist þarna!

Nokkrum andartökum seinna skoraði Liverpool fjórða markið. Mohamed hirti upp slaka sendingu aftur á völlinn, lék inn í vítateiginn og gaf þvert fyrir markið á Roberto sem skoraði auðveldlega. Svona á að refsa fyrir mistök! Átta mínútum fyrir leikslok var jólaveislan fullkomnuð. Trnet sendi fyrir, boltinn hrökk af varnarmanni til Alex Oxlade-Chamberlain sem vippaði boltanum laglega í markið. Simon Mignolet átti síðustu snertingu leiksins þegar hann blakaði boltanum yfir markið eftir marktilraun Tammy Abraham. Þetta var í eina skiptið sem marki Liverpool var ógnað svo orð væri á gerandi allan leikinn. Jólaveisla eins og þær gerast bestar á grænu grasi og stuðningsmenn héldu kátir heim á leið!

Stórsigur sem lagaði stöðu Liverpool í toppbaráttunni og þá ekki síst markatöluna. Liverpool hefur spilað betur og botnliðið var engin fyrirstaða en það sem allra best var að leikmenn Liverpool refsuðu Swansea grimmilega fyrir mistök sín. Svoleiðis gera bestu liðin!

Liverpool: Mignolet, Alexander-Arnold, Matip, Klavan, Robertson (Milner 76. mín.), Can, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain, Salah (Lallana 69. mín.), Coutinho og Firmino (Solanke 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Gomez, Lovren og Mane.

Mörk Liverpool: Philippe Coutinho (6. mín.), Roberto Firmino (52. og 66. mín.), Trent Alexander-Arnold (65. mín) og Alex Oxlade-Chamberlain (83. mín.).

Swansea City: Fabianski, Naughton, Fernandez, Mawson, Olsson, Mesa (Clucas 65. mín.), Fer (Sanches 78. mín.), Carroll, Routledge, Ayew og McBurnie (Abraham 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Nordfeldt, Van der Hoorn, Rangel og Dyer.

Áhorfendur á Anfield Road:
52.850.

Maður leiksins: Roberto Firmino. Það mætti útnefna nokkra en Brasilíumaðurinn á skilið að fá nafnbótina. Hann skoraði tvö mörk og átti stóran þátt í fyrsta markinu. Eins og vant er var hann alltaf að úti um allan völl. Hann leikur mjög mikilvægt hlutverk í liðinu og það skyldi ekki vanmetið. 

Jürgen Klopp: Þetta voru fullkomin úrslit fyrir okkur. Ég held að enginn hafi orðið fyrir meiðslum. Þrjú mikilvæg stig, fimm mörk, markinu haldið hreinu svo þetta er allt eins og best gat verið.


Fróðleikur

- Stærsti deildarsigur Liverpool á keppnistímabilinu. 

- Philippe Coutinho skoraði 12. mark sitt á leiktíðinni.    

- Roberto Firmino er nú kominn með 16 mörk. 

- Trent Alexander-Arnold og Alex Oxlade-Chamberlain skoruðu báðir í þriðja sinn. 

- Liverpool hefur nú skorað 75 mörk á leiktíðinni í öllum  keppnum. 

- Liverpool hafði fyrir leikinn gert jafntefli í þremur síðustu heimaleikjum sínum. 

- Þeir Simon Mignolet og Philippe Coutinho hafa greinilega fylgst vel að frá því þeir komu til Liverpool. Í það minnsta lék þeir báðir í 200. sinn fyrir hönd Liverpool. Philippe hefur skorað 54 mörk í þessum 200 leikjum.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

Hér er viðtal við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leikinn. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan