| Grétar Magnússon

Joe Gomez framlengir

Varnarmaðurinn ungi Joe Gomez hefur framlengt samningi sínum við félagið til ársins 2022.  Nýi samningurinn tekur gildi þann 1. júlí í sumar.

Gomez, sem er 19 ára kom til félagsins sumarið 2015 frá Charlton Athletic og var ekki lengi að stimpla sig inn hjá þáverandi stjóra, Brendan Rodgers, var í byrjunarliðinu í fyrstu 7 leikjum tímabilsins og þótti standa sig ágætlega.  Eins og flestir muna var Rodgers rekinn frá störfum eftir leik við Everton 4. október og í kjölfarið tók við landsleikjahlé þar sem Gomez meiddist illa með U-21 árs landsliði Englendinga.  Í sumar meiddist hann svo aftur og margir veltu því fyrir sér hvort að hann myndi ná sér að fullu.

Hann hefur þó komið sterkur til baka á nýju ári og er búinn að spila 2 leiki í FA bikarnum með liðinu.  Alls hafa spilaðir leikir með Liverpool verið aðeins 9 en vonandi fer þeim fjölgandi á næstunni og það er ljóst að Jurgen Klopp þykir mikið til Gomez koma og hefur mikið álit á honum.

Gomez sagði þetta í tilefni af undirskriftinni:  ,,Þetta var auðveld ákvörðun.  Þetta er frábært félag og þegar það var nefnt við mig að framlengja dvöl minni hér þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um.  Ég er mjög ánægður með að þetta sé búið og nú lít ég fram veginn."

,,Þetta er mjög þýðingarmikið fyrir mig og félagið sýnir mér mikið traust með þessu.  Þess vegna var það svona mikilvægt fyrir mig að gera slíkt hið sama og klára málið fljótt, vegna þess að ég er mjög ánægður hér.  Ég hef notið þess að búa í borginni, spila fyrir félagið og læra af nýjum stjóra þannig að ákvörðunin var tekinn fljótt."

Eins og áður sagði hefur meiðslasaga Gomez hjá félaginu verið nokkuð löng en hann sneri til baka á æfingar í október í fyrra og spilaði nokkra leiki með U-23 ára liði félagsins til að koma sér í form.

Hann horfir þó björtum augum á framtíðina og bætir við:  ,,Mér líður vel, mjög vel.  Ég er farinn að æfa eins og venjulega og hef verið góður í nokkurn tíma núna.  Augljóslega var gott að ná að spila nokkrar mínútur í síðustu tveimur leikjum í FA bikarnum.  Núna snýst þetta um að ég haldi áfram að læra - læra af liðinu.  Ég er með margar góðar fyrirmyndir í kringum mig, Dejan, Joel, Ragnar, Lucas og fleiri.  Þetta er frábært umhverfi fyrir mig og ég reyni bara að læra eitthvað nýtt á hverjum degi af þeim sem og að leggja harðar að mér og setja pressu á aðra leikmenn.  Þetta er alltsaman gott mál og mér líður mjög vel."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan