| Heimir Eyvindarson

Svakalegur sigur á Goodison Park


Liverpool sigraði nágranna sína í Everton í kvöld í gríðarlega hörðum og spennandi leik. Sadio Mané skoraði markið í uppbótartíma. 

Jürgen Klopp gerði enga breytingu á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Middlesborough í vikunni, en bekkurinn var talsvert sterkari þar sem bæði Emre Can og Daniel Sturridge komu inn í varamannahópinn. 

Fyrri hálfleikur bar þess merki að hvorugt liðið ætlaði sér að tapa stigum í kvöld. Mikið miðjumoð og stöðubarátta en ekkert sérstaklega mikið að gerast. Ef eitthvað var þá voru heimamenn í Everton heldur snarpari framan af og þótt þeir sköpuðu sér kannski engin meiriháttar færi þá áttu okkar menn stundum í svolitlum vandræðum fyrstu 25-30 mínúturnar. Sem betur fer stóð liðið það af sér og smátt og smátt færðist jafnvægi í leikinn. 

Fyrstu sóknartilburðir Liverpool komu ekki fyrr en eftir 25-30 mínútur, Wijnaldum komst tvisvar í ágætis skotfæri en skotin voru ansi léleg vægast sagt. Origi átti skot upp í stúku, eftir fína sókn okkar manna og þar með eru afrek Liverpool í sóknarleiknum í fyrri hálfleik eiginlega upptalin. 

Staðan 0-0 í hálfleik og spennustigið dálítið hátt, en skemmtanagildið ekkert sérstakt. 

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik fékk Firmino dauðafæri en skaut í hausinn á Stekelenburg í marki Everton. Heill haugur af Liverpool mönnum hefði getað náð frákastinu, en einhvernveginn gerðist það ekki. Alveg ferlegt að komast ekki yfir þarna. 

Á 58. mínútu gerði Mané sig líklegan eftir góða rispu en inn vildi boltinn ekki. Mun betra yfirbragð á Liverpool liðinu í seinni hálfleik.

Á 69. mínútu hefði Ross Barkley átt að fjúka út af eftir fáránlega tæklingu á Henderson. Hann kom fljúgandi með takkana upp á miðjan ökkla á Hendo, en á einhvern óskiljanlegan hátt mat Mike Dean það svo að tæklingin verðskuldaði bara gult spjald. Vonlaus dómgæsla að mínu viti.

Á 64. mínútu þurfti Stekelenburg að fara útaf eftir samstuð við Baines og inn á í hans stað kom Joel Robles. Hann lét aldeilis til sín taka á 80. mínútu þegar hann varði frábærlega skot frá Firmino. Ótrúleg markvarsla, en Brassinn var vægast sagt óheppinn að komast ekki á blað í kvöld. 


Á 82. mínútu kom Daniel Sturridge inn á fyrir Origi og það var hann sem bjó til markið sem réði úrslitum í kvöld. Í uppbótartíma náði hann að koma ágætu skoti í stöngina á marki Everton og Sadio Mané fylgdi vel á eftir og skoraði. Staðan 0-1 á Goodison og allt ætlaði um koll að keyra meðal stuðningsmanna Liverpool. 


Í blálokin var Firmino enn og aftur óheppinn, en þá var skoti hans bjargað á línu. Eftir rétt um 100 mínútna leik flautaði Mike Dean til leiksloka. Niðurstaðan á Goodison virkilega dramatískur en sætur sigur. Ótrúlega mikilvægt að ná að leggja þetta þétta Everton lið á erfiðum heimavelli. 

Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Klavan, Milner, Henderson, Wijnaldum, Lallana (Sturridge á 82. mín.), Firmino, Mané (Lucas á 97. mín.), Origi (Can á 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Alexander-Arnold, Moreno, Woodburn.

Mark Liverpool: Mané í uppbótartíma.

Gult spjald: Lovren

Everton: Stekelenburg (Robles á 64. mín.), Coleman, Williams, Funes-Mori, Baines, McCarthy (Barry á 46. mín.), Gueye, Barkley,Valencia (Calvert-Lewin á 72.mín.), Lukaku, Lennon. Ónotaðir varamenn: Mirallas, Holgate, Cleverley, Kenny

Gul spjöld: Gueye, Coleman, Barkley

Áhorfendur á Goodison Park: 39.590

Maður leiksins: Ég verð eiginlega að velja Klavan mann leiksins. Hann hefur komið ótrúlega sterkur inn í síðustu leiki, eftir slaka byrjun í haust. Í kvöld hélt hann Lukaku í skefjum, sem er afrek út af fyrir sig, og var bara þrælgóður.

Jürgen Klopp: „Við vorum alls ekki nógu góðir í fyrri hálfleik en það var mjög jákvætt að við náðum að halda okkur inní leiknum þrátt fyrir kraftinn í Everton í upphafi leiksins og vinna okkur smátt og smátt inn í leikinn. Í seinni hálfleik vorum við betri og uppskárum mark eftir mikla og góða baráttu. Alls ekki besti leikur okkar í vetur en gríðarlega mikilvægur sigur í miklum baráttuleik. Ég er mjög ánægður."


Fróðleikur: 

-Þetta var 227. viðureign Liverpool og Everton og 91. sigur Liverpool. 

-Frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð hafa Liverpool og Everton mæst 49 sinnum. Liverpool hefur unnið 21 sinni, 19 sinnum hafa liðin skilið jöfn og Everton hefur sigrað 9 sinnum.  

-Jurgen Klopp er með 100% sigurhlutfall gegn Everton. Hann er að ég held fyrsti stjóri Liverpool sem nær sigri gegn grönnunum í fyrstu tveimur atrennum. 

-Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Goodison síðan árið 2011 þegar Skotarnir Kenny Dalglish og David Moyes stýrðu liðunum. Sá leikur fór 1-2 og mörk Liverpool skoruðu stjörnuframherjarnir Luis Suarez og Andy Carroll.

-Þetta var fyrsta tap Everton í deildinni á Goodison Park síðan í mars.


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan