| Grétar Magnússon

Ánægður með fyrsta leikinn fyrir félagið

Markvörðurinn ungi frá Wales, Danny Ward, spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið í 1-2 sigrinum á Bournemouth á sunnudaginn var og stóð sig mjög vel.

Nokkrir ungir leikmenn fengu tækifæri til að sýna hvað í þeim býr gegn suðurstrandarliðinu en Jurgen Klopp ákvað að gera miklar breytingar á liðinu eftir sigurinn glæsta á Dortmund á fimmtudaginn og þar á meðal var Danny Ward.  Markvörðurinn gekk til liðs við Liverpool árið 2012 frá Wrexham og hefur bætt sinn leik sífellt síðan þá meðal annars með því að fara á láni til annara liða á Bretlandseyjum.

,,Orð fá því ekki að fullu lýst hvað það þýðir fyrir mig að hafa spilað minn fyrsta leik fyrir Liverpool," sagði Ward í viðtali.  ,,Ég komst að því að ég átti að spila á laugardaginn var rétt áður en við ferðuðumst suður og ég hafði því nægan tíma til að átta mig á stöðu mála.  Í raun skiptir ekki máli hvort maður sé í byrjunarliði eða á bekknum, sem markvörður þarf maður alltaf að vera einbeittur og vel undirbúinn."

,,Það kom mér á óvart en ég var ekki taugaóstyrkur.  Þegar upp er staðið fæ ég greitt fyrir það að passa uppá að boltinn endi ekki í markinu hjá okkur.  Þetta er sú sýn sem ég hef á verkefnið.  Þetta er bara knattspyrnuleikur, óháð því fyrir hvern þú spilar.  Augljóslega er sérstakt að spila fyrir Liverpool en starfið er engu að síður það sama."

,,Við áttum verkefni fyrir höndum í þessum leik og það skiptir ekki máli hvaða liðið stjórinn stillir upp, við leystum líka þetta verkefni.  Ég var vonsvikinn yfir því að halda ekki hreinu í leiknum og sérstaklega útaf því að markið kom svo seint í leiknum.  En mér leið vel í leiknum, mér fannst ég vera í góðu standi og er ánægður með strákana því við náðum í mikilvæg þrjú stig."

Ward var kallaður til baka úr láni frá skoska liðinu Aberdeen í janúar þar sem hann stóð sig frábærlega.  Jurgen Klopp taldi sig hafa not fyrir Ward og síðan þá hefur hann meira og minna verið á bekknum og haldið Adam Bogdan alveg útúr leikmannahópnum á leikdegi.  Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Wales gegn Norður-Írlandi í mars en hann telur jafnframt að vera sín í Skotlandi hafi verið lykilatriði í því að hann hafi bætt sig sem leikmaður.

,,Ég sá kannski ekki fyrir mér að spila Úrvalsdeildarleik fyrir Liverpool svo fljótt því ég bjóst við því að spila allt tímabilið með Aberdeen.  En hlutirnir breytast fljótt í fótboltanum.  Að fara á láni og spila reglulega var gríðarlega mikilvægt fyrir mig.  Ég get þakkað Aberdeen kærlega fyrir að hafa haft trú á mér og allt sem þeir gerðu fyrir mig á meðan ég var þar.  Þetta er sérstakt félag og ég óska þeim alls hins besta.  Frá því að ég var kallaður til baka til Liverpool hef ég lagt hart að mér og einbeitt mér að því að hafa Simon Mignolet á tánum."

,,Ég mun halda því áfram og ekki gleyma mér í því að hugsa um að ég sé búinn að ná mínum fyrsta leik fyrir félagið.  Nú mun ég reyna að ná eins mörgum leikjum og ég get."

Þrátt fyrir góða frammistöðu í þessum leik er búist við því að Simon Mignolet verði á ný í byrjunarliðinu þegar Everton mæta í heimsókn á Anfield á miðvikudagskvöldið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan