| Sf. Gutt

Ævintýri á Anfield!!!


Ævintýri á Anfield! Eitt ótrúlegasta ævintýri, af mörgum, í sögu Liverpool F.C. átti sér stað á leikvanginum sem stendur við Anfield Road í Liverpool í kvöld. Þetta ævintýri fer beint í annála þessa magnaða félags! Liverpool lenti tvívegis tveimur mörkum undir á móti Borussia Dortmund en náði að komast áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar með því að tryggja sér 4:3 sigur í viðbótartíma!

Það var magnþrungin stemmning fyrir leikinn á Anfield. Stuðningsmenn beggja liða sungu þjóðsönginn af miklum þunga fyrir leikinn og mörgum fannst eitthvað magnað liggja í loftinu. Eftir sönginn var einnar mínútu þögn til minningar um þá 96 stuðningsmenn Liverpool sem fórust á Hillsborough fyrir 27 árum. Þetta er hefð fyrir þann heimaleik sem næstur er 15. apríl ár hvert.

Jürgen Klopp gerði eina breytingu á liðinu sínu frá leiknum í Þýskalandi. Jordan Henderson meiddist í þeim leik og Roberto Firmino kom inn í liðið í hans stað. Andrúmsloftið var rafmagnað þegar flautað var til leiks. Þýska liðið mætti gríðarlega ákveðið til leiks og hver einasti leikmaður liðsins var á fullu frá fyrstu mínútu. Leikmenn Liverpool vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið og eftir fimm mínútur skoraði Dortmund. Liverpool missti boltann framarlega á vellinum. Þýska liðið æddi fram, Simon Mignolet gerði vel í að verja skot eins þeirra en hann náði ekki að halda boltanum og Armeninn Henrikh Mkhitaryan fylgdi á eftir og skoraði. Fjórum mínútum seinna mátti Simon aftur horfa á eftir boltanum í markið. Marco Reus opnaði vörnina með frábærri sendingu og Patrick Aubameyang smellti boltanum upp í hornið. Glæsilegt mark og nú virtust öll sund lokuð fyrir Liverpool.

Eftir fyrsta stundarfjórðunginn fóru leikmenn Liverpool loksins að ná áttum. Divock Origi komst í færi en varnarmaður komst fyrir. Divock sendi svo fyrir nokkrum andartökum seinna en Alberto Moreno mokaði boltanum upp í stúku úr góðu færi. Á 25. mínútu kom Divock aftur við sögu en skot hans fór rétt framhjá. Dortmund voru líka hættulegir og ógnuðu með hröðum og vel útfærðum sóknum. Ekki voru fleiri mörk skoruð í hálfleiknum og voru stuðningsmenn Liverpool ánægðir með að staðan væri ekki verri þegar leikhléið kom. 

Liverpool þurfti mark og sem betur fer tókst að skora snemma í síðari hálfleik. Eftir aðeins þrjár mínútur lék Emre Can fram og stakk boltanum inn fyrir vörnina á Divock. Belginn ungi hélt yfirvegun sinni og skoraði framhjá markmanni Dortmund sem kom út á móti honum. Nú var staðan mun betri en það stóð aðeins í átta mínútur. Aftur opnaðist vörn Liverpool og Marco slapp inn í vítateiginn vinstra megin þar sem hann skoraði af miklu öryggi í fjærhornið. Þjóðverjarnir trylltust af fögnuði og aftur syrti í álinn hjá Liverpool.

Jürgen Klopp brást við með því að senda þá Daniel Sturridge og Joe Allen inn á þegar 62 mínútur voru búnar. Fjórum mínútum seinna komst Liverpool aftur inn í leikinn. Efrie snöggan samleik við James Milner fékk Philippe Coutinho boltann við vítateiginn og náði að smella honum neðst út í hægra hornið.

Aftur hafði kviknað von á Anfield en það gekk illa að fylgja þessu marki eftir. En á 78. mínútu náðist loksins að jafna leikinn. Philippe tók horn frá vinstri. Spyrnan var ekki góð og boltinn skoppaði fyrir markið en þar náði Mamadou Sakho að stýra boltanum í markið af stuttu færi. Allt gekk af göflunum og nú þurfti Liverpool aðeins eitt mark. Í fyrsta sinn virtust Þjóðverjarnir slegnir út af laginu. 

Emre varð að fara meiddur af velli og Lucas Leiva leysti hann af. Hver mínútan leið af annarri og um leið virtist sem svo að Liverpool kæmist ekki lengra á þessari Evrópuvegferð. Ekki vantaði þó stuðninginn frá áhorfendum sem voru frábærir frá upphafi til enda.

Viðbótartími, sem var fjórar mínútur, hófst og stuðningsmenn Liverpool vonuðust eftir einu færi til viðbótar. Það kom þegar viðbótartíminn var nýhafinn. James sendi aukaspyrnu fram á Daniel sem virtist missa boltann en hann náði valdi á honum og sendi aftur á James sem lék upp að endamörkum hægra megin. Þar náði hann að senda boltann fyrir markið yfir á fjærstöng þar sem Dejan Lovren stökk manna hæst og skallaði í markið fyrir framan Kop stúkuna án þess að leikmenn Dortmund kæmu vörnum við. Allt gekk gersamlega af göflunum á Anfield og hvar sem stuðningsmenn Liverpool sáu til þess sem þarna gerðist! Gersamlega óborganlegt mark hjá Króatanum sem hefur mátt þola mikla gagnrýni á ferli sínum hjá Liverpool. Nú var hann orðin hetja og búinn að skora mark sem verður ódauðlegt í sögu Liverpool!

Fögnuðurinn var ólýsanlegur og hann magnaðist enn þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Liverpool hafði unnið óvinnandi verk ef miðað er við hvernig staðan var í tvígang þegar tvö mörk skildu liðin. Kenny Dalglish og Ian Rush sungu með þegar You´ll Never Walk Alone ómaði í leikslok og jafnvel Roy Hodgson var heillaður af stemmningunni. Einhvers staðar voru Bill Shankly, Bob Paisley, Joe Fagan, þau 96 sem létust á Hillsbrough og fleiri að fylgjast með. Stuðningsmenn Liverpool réðu sér ekki og leikmenn Liverpool fögnuðu meira en gert hefur verið í áraraðir.

En Jürgen Klopp gleymdi ekki sínum fyrrum stuðningsmönnum áður en hann fór af velli. Hann gekk yfir til stuðningsmanna Dortmund og klappaði fyrir þeim og hvatti þá til dáða. Mögnuð stund á einu magnaðasta Evrópukvöldi í sögu Liverpool og þá er mikið sagt! Ótrúlegt, ævintýralegt, lygilegt. En fyrst og síðast ólýsanlegt! Þetta er Anfield - This is Anfield! 


Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can (Leiva 80. mín.), Milner, Lallana (Allen 62. mín.), Firmino (Sturridge 62. mín.), Coutinho og Origi. Ónotaðir varamenn: Ward, Skrtel, Smith og Ojo.

Mörk Liverpool:
Divock Origi (48. mín.), Philippe Coutinho (66. mín.), Mamadou Sakho (78. mín.) og Dejan Lovren (90. mín.).

Borussia Dortmund:
Weidenfeller, Piszczek, Hummels, Sokratis, Schmelzer, Weigl (Gundogan 82. mín.), Castro, Mkhitaryan, Kagawa (Ginter 77. mín.), Reus (Ramos 82. mín.) og Aubameyang. Ónotaðir varamenn: Burki, Sahin, Bender og Pulisic.

Mörk Borussia Dortmund: 
Henrikh Mkhitaryan (5. mín.), Patrick Aubameyang (9. mín.) og Marco Reus (56. mín.).

Gul spjöld: Mats Hummels, Lukasz Piszczek og Marcel Schmelzer.

Áhorfendur á Anfield:
42.984.


Maður leiksins: Dejan Lovren! Það er ekki annað hægt en að verja Króatann!

Jürgen Klopp: Ég veit að þetta er staður þar sem stórfenglegir hlutir hafa gerst í knattspyrnunni. Við byrjuðum ekki á þeirri hefð. Aðrir gerðu það. En við vitum að það stendur upp á okkur að skrifa góðar knattspyrnusögur hérna og sagan sem var skrifuð hér í kvöld var sannarlega skemmtileg. 

Fróðleikur

- Liverpool fór áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar samtals 5:4.

- Divock Origi skoraði níunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Philippe Coutinho skoraði 11. mark sitt á sparktíðinni. 

- Þeir Mamadou Sakho og Dejan Lovren skoruðu báðir í fyrsta sinn á þessu keppnistímabili. 

- Dejan Lovren lék sinn 70. leik með Liverpool. Hann skoraði í annað sinn.

- Mamadou skoraði líka annað mark sitt frá því hann kom til Liverpool. 

- Divock Origi spilaði sinn 30. leik.

- Liverpool hefur aldrei tapað fyrir þýsku liði í Evrópuleik á Anfield. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er myndskeið frá því þegar þeirra 96 var minnst fyrir leikinn. 

Hér er myndskeið frá því þegar áhorfendur sungu You´ll Never Walk Alone fyrir leikinn. 

Hér má sjá myndir af því þegar stuðningsmenn Liverpool og Borussia Dortmund minntust þeirra sem létust á Hillsbrough með myndverkum. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan