| Heimir Eyvindarson

Jafntefli gegn Tottenham


Liverpool fékk Tottenham í heimsókn á Anfield í dag og eftir mjög líflegar 94 mínútur urðu liðin að sætta sig við skiptan hlut.

Jürgen Klopp stillti upp sterku liði, eins og við var að búast. Roberto Firmino fékk ekki grænt ljós hjá læknateyminu í dag en að öðru leyti var liðið líklega það sterkasta sem völ er á þessa dagana.

Tottenham byrjaði leikinn af miklum krafti og var sterkara liðið framan af. Á 9. mínútu átti Christian Eriksen gott skot að marki, en Mignolet varði ágætlega. Boltinn reyndar beint á hann en skotið fast og mikill snúningur á boltanum.

Á 12. mínútu átti Coutinho sæmilegt skot að marki sem franski landsliðsmaðurinn Hugo Lloris í marki Tottenham varði ágætlega, fyrsta skotið af fjölmörgum sem Frakkinn varði í hálfleiknum.

Á 21. mínútu var Son í liði Tottenham nálægt því að skora nokkuð laglegt sjálfsmark, en Lloris varði í horn.

á 36. mínútu fékk Daniel Sturridge besta færi leiksins þegar Coutinho sendi boltann laglega inn fyrir vörn Spurs, en Lloris kom vel út og varði heldur kæruleysislegt skot Sturridge mjög vel. Þarna hefði Sturridge átt að gera betur, þau gerast ekki mikið betri færin.

Tveimur mínútum síðar átti Lallana ágætt skot af vítateigslínunni, en enn varði Frakkinn og nokkrum andartökum síðar missti Sakho af boltanum úti á kanti og Kane komst einn gegn Lovren á vítateignum, en Króatinn las Kane eins og opna bók og blokkeraði skot hans glæsilega. 

Á 40. mínútu munaði bara örfáum milliletrum að Lallana næði að skora með hálf mislukkuðu skoti eftir klafs í teignum en Lloris náði á ótrúlegan hátt að koma örlítið við boltann og koma honum framhjá. Mikill kraftur í Liverpool á þessum tíma og alveg ferlegt að ná ekki að skora.

Undir lok hálfleiksins átti Delle Alli ágætt skot af löngu færi sem Mignolet varði örugglega. Staðan 0-0 í hálfleik í stórskemmtilegum leik.

Seinni hálfleikur byrjaði af álíka krafti og sá fyrri og gestirnir heldur kraftmeiri ef eitthvað var, en það var Liverpool sem skoraði fyrsta markið. Það gerði Coutinho með glæsilegu skoti eftir virkilega góða sendingu frá Daniel Sturridge. Staðan 1-0 og allt ætlaði um koll að keyra á Anfield.

Á 57. mínútu átti Coutinho síðan frábæra sendingu fyrir markið á kollinn á Daniel Sturridge sem skallaði rétt yfir markið. Rétt seinna komst Son í dauðafæri hinum megin en setti boltann hárfínt framhjá.

Á 63. mínútu jafnaði Harry Kane metin fyrir Spurs með frábæru marki eftir góða sendingu frá Eriksen. Kannski ekki mikið sem varnarmenn Liverpool gátu gert, Kane er einfaldlega baneitraður í teignum og afgreiðslan var virkilega góð. Staðan 1-1 á Anfield. 

Tveimur mínútum síðar átti Eriksen flott skot að marki sem Mignolet varði vel og skömmu síðar átti Coutinho hættulega syrpu hinum megin sem hefði auðveldlega getað gefið mark ef heppnin hefði verið með okkar mönnum.

Á 85. mínútu fékk Coutinho gott færi eftir góða sendingu frá Origi, sem kom inná fyrir Sturridge nokkru áður. Skot Coutinho fór rétt framhjá varnarlausum Lloris í marki Tottenham, alveg grátlegt að boltinn skyldi ekki fara inn. Virkilega vel að verki staðið hjá Origi og Coutinho.

Undir lok venjulegs leiktíma átti Dembele fínt gott fyrir utan teig sem Mignolet varði vel og í uppbótartímanum fékk Spurs að minnsta kosti tvær hornspyrnur og sótti án afláts, en sem betur fer stóðust okkar menn álagið. Niðurstaðan á Anfield í dag 1-1 jafntefli í gríðarlega hröðum og líflegum leik. Mikill kraftur í okkar mönnum í dag og baráttan til algjörrar fyrirmyndar þótt töluvert hefði verið um mistök. Enda kannski ekki við öðru að búast þegar tempóið er jafn hátt og í dag.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can, Milner (Ibe á 92. mín.), Henderson, Lallana (Allen á 82. mín.), Coutinho  og Sturridge (Origi á 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward, Skrtel, Smith og Toure.

Mark Liverpool: Coutinho á 51. mín. 

Gul spjöld: Can og Coutinho.

Tottenham: Lloris, Walker, Rose, Alderwereild, Wimmer, Eriksen, Dembele, Dier, Son (Chadli á 66. mín.), Alli (Mason á 88. mín.) og Kane. Ónotaðir varamenn: Vorm, Carroll, Davies, Trippier, Onomah. 

Mark Tottenham: Harry Kane á 63. mín.

Áhorfendur á Anfield Road: 44,602.

Maður leiksins: Philippe Coutinho fær mitt atkvæði í dag. Okkar lang hættulegasti maður og markið sem hann skoraði var algjör klassi.

Jürgen Klopp: „Mér fannst að við hefðum getað gert betur í dag. Það var margt gott í okkar leik, en það var líka margt sem var ekki nógu gott. Það komu kaflar í leiknum þar sem við hættum að pressa og ég veit ekki alveg hvernig stendur á því. Ég var t.d. ekki sáttur við það hvernig við byrjuðum seinni hálfleikinn. Það var eiginlega allt slæmt við þær mínútur nema markið, það var frábært. Við gerðum of mikið af mistökum í dag, en við erum að læra. Hugsið ykkur bara hvað liðið verður gott þegar allir spila eins vel og þeir geta. Sá dagur kemur."

Fróðleikur:  

-Liverpool hefur þrátt fyrir allt gengið nokkuð vel með Tottenham á Anfield undanfarin misseri og það þarf að fara fimm ár aftur í tímann til að fletta upp á síðasta sigri Spurs á Anfield í sögubókunum. Þá sigraði Tottenham 2-0 með mörkum frá Van der Vart og Luka Modric. Fyrir þann leik hafði Tottenham ekki unnið á Anfield síðan 1993.

-Emre Can fékk í dag sitt 10. gula spjald í deildinni í vetur. Það þýðir að hann fer í tveggja leikja bann og missir af leikjunum gegn Stoke og Bournemouth.

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

-Hér má sjá viðtal við Klopp af sömu síðu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan