| Sf. Gutt

Niðurtalningin er hafin - 1. kapítuli

Á sunnudaginn kemur mætir Liverpool Manchester City í úrslitaleik Deildarbikarins á Wembley í London, höfuðborg Englands. Það hefur gengið á ýmsu á þessari sparktíð hjá Liverpool. En nú er tækifæri til að bæta við afrekaskrá félagsins og auka sjálfstraust og stemmningu innan vallar sem utan. Það er því mikil spenna í loftinu í Liverpool og hjá stuðningsmönnum liðsins okkar hvar sem þeir eru til sjós og lands. 

Til að magna spennuna, hefst í dag, niðurtalning fyrir úrslitaleikinn á liverpool.is. Í niðurtalningunni verður margt til fróðleiks um keppnina og árangur Liverpool í henni svo eitthvað sé nefnt. 

+ Deildarbikarinn fór af stað leiktíðina 1960-61. Þáverandi ritari enska knattspyrnusambandsins Alan Hardaker var hugmyndasmiðurinn að keppninni. 

+ Þetta er eina keppnin sem öll 92 deildarliðin í ensku atvinnumannadeildunum fjórum hafa eingöngu aðgang að. Utandeildarlið hafa ekki þátttökurétt eins og í F.A. bikarnum. 

+ Sigurvegarinn í Deildarbikarnum vinnur sér inn sæti í Evrópudeildinni. 

+ Úrslitaleikurinn á sunnudaginn verður sá fimmtugasti og fimmti í röðinni. 

+ Eftirtalin lið hafa unnið Deildarbikarinn frá upphafi keppninnar.
 
8 sinnum: Liverpool! 

5 sinnum: Aston Villa og Chelsea. 

4 sinnum: Manchester United, Nottingham Forest og Tottenham Hotspur. 

3 sinnum: Leicester City og Manchester City. 

2 sinnum: Arsenal, Birmingham City, Manchester City, Norwich City og Wolverhampton Wanderes. 

1 sinni: Blackburn Rovers, Leeds United, Luton Town, Middlesborough, Oxford United, Q.P.R, Sheffield Wednesday, Stoke City, Swansea City, Swindon Town og W.B.A. 

+ Fyrsti leikur Liverpool í keppninni var 19. október 1960. Liverpool gerði þá 1:1 jafntefli við Luton Town á Anfield Road. Tom Leishman skoraði fyrsta mark Liverpool í keppninni. Liverpool vann seinni leikinn 5:2 í Luton. Kevin Lewis 2, Roger Hunt 2 og Dave Hickson skoruðu mörkin. 

+ Liverpool keppti ekki í Deildarbikarnum aftur fyrr en leiktíðina 1967/68. Þá var farið að leika til úrslita á Wembley og varð það til þess að meiri áhugi skapaðist fyrir keppninni. Áður hafði verið leikið til úrslita með því að leika tvo leiki heima og að heiman. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan