| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn nýliðum Watford á Vicarage Road. Watford hafa staðið sig vel á tímabilinu og eru með stigi meira en Liverpool í deildinni. Leikurinn er sunnudaginn 20. desember kl. 13:30.

Það er frekar langt síðan okkar menn náðu að vinna knattspyrnuleik en það gerðist síðast 2. desember í Deildarbikarnum gegn Southampton. Síðan þá hafa verið spilaðir þrír leikir, tveir endað með jafntefli og einn tapast. Ef liðið ætlar sér ekki að halda áfram þessu miðjumoði í deildinni verður leikurinn við Watford hreinlega að vinnast. Það er skrýtið að segja það en maður er ágætlega sáttur með að leikurinn sé ekki á Anfield því liðið virðist einhvernveginn spila betur á útivelli. Þó svo að síðasti leikur á útivelli í deildinni hafi tapast gegn Newcastle þá er stigasöfnunin mun betri en á Anfield einhverra hluta vegna. En heimavallarvandamálið þarf auðvitað að laga og líklega er Klopp að vinna í því máli.

Sem fyrr eru heilmikil meiðslavandræði hjá leikmönnum félagsins. Nýjustu fréttir eru þær að James Milner verður ekki með á sunnudaginn vegna meiðsla á kálfa. Dejan Lovren meiddist svo eins og kunnugt er í síðasta leik gegn WBA og verður ekki með næstu vikurnar skv. fréttum. Það er þó huggun harmi gegn að Mamadou Sakho er þá ákkúrat klár í að fylla skarð Lovren í hjarta varnarinnar og ljóst að hann tekur sæti sitt við hlið Skrtel. Daniel Sturridge er svo auðvitað meiddur en vonandi nær hann að spila einhverjar mínútur í jólatörninni. Að lokum má svo nefna að Jordan Rossiter er meiddur og óvíst hvenær hann getur spilað á ný. Heimamenn í Watford eru aðeins með þrjá leikmenn meidda, Valon Behrami, Sebastian Prödl og Joel Ekstrand. Þeir Behrami og Prödl eru meira að segja líklegir til að verða klárir í slaginn á sunnudaginn þannig að ekki eru meiðslavandræði á þeim bænum.

Nokkur ár eru síðan þessi lið mættust í Úrvalsdeildinni. Síðasti leikur liðanna var í janúar árið 2007 á Vicarage Road er okkar menn unnu 0-3 sigur, þar skoruðu þeir Craig Bellamy (1) og Peter Crouch (2) mörkin. Þá um vorið féllu Watford svo úr deildinni. Sé litið til síðustu sex leikja liðanna á heimavelli Watford í deildinni má sjá að Liverpool hafa iðulega náð góðum úrslitum, aðeins einn leikur hefur tapast, 4 unnist og einn endað með jafntefli.

Eins og áður sagði eru Watford búnir að standa sig vel í deildinni það sem af er og er Odion Ighalo þeirra markahæsti maður með 10 mörk á tímabilinu. Þeir hafa unnið síðustu þrjá leiki sína og eru á góðu skriði, hafa skorað 18 mörk, fengið á sig 16. Stjóri þeirra Quique Sanchez Flores sem var ráðinn til liðsins síðasta sumar hefur sýnt að hann er góður stjóri og náð miklu útúr liðinu sem ekki var spáð góðu gengi í byrjun tímabils. Það má því búast við erfiðum leik en það er nú einu sinni þannig að enginn leikur er auðveldur í þessari ágætu deild.

En Liverpool má varla við því að tapa mikið fleiri stigum í næstu leikjum og sigur er lífsnauðsynlegur í leiknum. Spáin að þessu sinni er á þann veginn að okkar menn ná að krækja í þrjú stig með 1-2 sigri. Við Liverpoolmenn höldum því glaðir inní jólahátíðina að þessu sinni.

Fróðleikur:

- Síðasti sigurleikur Liverpool í deildinni var gegn Swansea 29. nóvember síðastliðinn.

- Philippe Coutinho og Christian Benteke eru markahæstir á tímabilinu með 5 mörk hvor.

- Næstir koma þeir Divock Origi og Daniel Sturridge með 4 mörk hvor.

- Fyrir leikinn sitja okkar menn í 9. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 16 leiki.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan