| Sf. Gutt

Ætlaði að láta Alberto hafa markið!

Divock Origi skoraði þrennu fyrir Liverpool þegar liðið tók Southampton í gegn í Deildarbikarnum. Hann sagðist þó hafa ætlað að láta Alberto Moreno fá fyrsta markið sitt.

Alberto átti glæsilegt skot að marki Southampton undir lok fyrri hálfleiks sem hafnaði í markinu. Divock stóð í skotlínunni og boltinn rétt strauk hann á leiðinni í markið. Divock sagði eftir leikinn að hann hefði reiknað með að Alberto fengi markið og hann hefði alveg verið tilbúinn að samþykkja það.

Belginn var þó ánægður með að fá þrjú mörk skráð á sig. ,,Ég vissi alveg að ég hefði snert boltann og eftir leikinn var staðfest að ég ætti markið. Ég er auðvitað ánægður sjálfur en líka fyrir hönd liðsins sem lagði hart að sér. Ég hef lagt geysilega mikið á mig til að komast hingað og það gleður mig mikið að ég skuli hafa sýnt hvað ég get."

Divock hafði ekki sýnt mikið þar til kom að leiknum í gærkvöldi en það er greinilegt að Belginn getur eitt og annað. Hann er ungur að árum og það verður gaman að sjá hvort mörkin þrjú koma honum í gang! 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan