| Heimir Eyvindarson

Opinn fyrir því að nota tvo framherja

Jurgen Klopp er þekktur fyrir að nota yfirleitt aðeins einn framherja í liðum sínum. Nokkuð sem forveri hans í starfi var iðulega harkalega gagnrýndur fyrir, þegar hann greip til þess.

Fótboltaspekingar spöruðu yfirleitt ekki gýfuryrðin á spjallborðum internetsins þegar Brendan Rodgers stillti aðeins upp einum manni í fremstu víglínu. Hörð orð voru látin falla í garð stjórans þegar leikkerfið gekk ekki upp, en þess ber reyndar að geta að þrátt fyrir moldviðrið gekk oft ágætlega að hafa einn frammi. 

Jurgen Klopp hefur stýrt Liverpool í tveimur leikjum og hingað til hefur hann stillt upp með aðeins einn framherja, rétt eins og hann gerði lengst af hjá Borussia Dortmund. Á síðustu mínútunum í leiknum gegn Rubin Kazan á fimmtudagskvöld voru þó komnir tveir menn í fremstu víglínu, þeir Christian Benteke og Roberto Firmino. Á blaðamannafundi í gær var Klopp spurður að því hvort hann sæi fyrir sér að gera meira af því að nota tvo framherja.

,,Það er að sjálfsögðu möguleiki. Ég veit ekki hvort við gerum það á sunnudaginn, en það er einn af möguleikunum sem við þurfum að skoða til framtíðar. Þetta fer allt eftir því hvaða leikmenn eru til staðar og hvernig er hægt að ná því besta út úr liðinu."
Spurður að því hvort hann sæi fyrir sér að Daniel Sturridge og Christian Benteke gætu spilað saman frammi svaraði Klopp því til að vitanlega gætu þeir það.

,,Allir góðir leikmenn geta spilað saman. En spurningin er alltaf hvernig þeir nýtast liðinu sem heild. Við getum ekki leyft okkur að vera með 2-3 menn frammi sem standa bara þar og bíða eftir að fá boltann í lappirnar. Það er kannski hægt að leyfa sér það ef maður er með besta framherja í heimi og besta lið í heimi, þar sem pressan og spilið hjá öllum hinum er fullkomin blanda. En þannig er ekki nútíma fótbolti. Meira að segja Ronaldo verður að taka þátt í varnarvinnunni."

,,Varnarvinnan byrjar fremst á vellinum. Ég er ekkert að fara fram á að þeir hlaupi allan tímann fram og til baka, alveg niður að eigin vítateig, en framherjarnir verða að skapa andstæðingunum vandræði efst á vellinum. Þannig getum við stoppað þeirra aðgerðir í fæðingu. Ef framherjarnir eru góðir í því þá gera þeir liðsfélögunum lífið léttara. Ef þeir síðan skora 5-6 mörk í leik þá má alveg leyfa þeim að slaka aðeins á í varnarvinnunni", bætti Klopp við og brosti.

,,Raunar er ég ekkert að velta fyrir mér hvort Sturridge og Benteke geta spilað saman. Daniel er ennþá meiddur og það er hæpið að hann verði með á sunnudaginn og Christian er nýstiginn upp úr meiðslum. Þegar báðir verða komnir á fulla ferð þá er hægt að fara að velta því fyrir sér að láta þá spila saman frammi, en við eigum aðra framherja og skoðum alla kosti."

7 af síðustu 8 leikjum Liverpool hafa endað með jafntefli, þar af tveir fyrstu leikirnir undir stjórn Klopp. Stuðningsmennirnir bíða með óþreyju eftir fyrsta sigrinum undir stjórn Þjóðverjans. Klopp biður um þolinmæði.

,,Á mínu fyrsta tímabili með Dortmund gerði liðið 15 jafntefli. Það er enginn heimsendir að gera jafntefli, það má líka líta á jafntefli sem hálfan sigur. Það er í það minnsta ekki tap. Við erum að sliípa liðið saman, læra á mannskapinn og innleiða nýja hluti. Það tekur allt tíma. Ég er mjög ánægður með margt, en það er líka margt sem við þurfum að bæta."

,,Eins og ég sagði eftir Rubin Kazan leikinn þá var margt gott í okkar leik, en menn tóku stundum rangar ákvarðanir. Við þurfum að róa okkur aðeins niður og reyna að hitta á bestu ákvörðunina hverju sinni. Það getur skipt sköpum. Við þurfum líka að skipuleggja sóknarleikinn betur; hverjir taka hvaða hlaup, hver fer á nærstöng og hver á fjær o.s.frv. Við erum að vinna í þessu öllu saman." 





 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan