| Heimir Eyvindarson

Þurfum ekki að hlaupa jafnmikið í öllum leikjum

Jürgen Klopp óttast ekki að leikmenn Liverpool skorti úthald til að spila eins og hann vill. Hann segir vangaveltur sparkspekinga þar um byggðar á misskilningi.

Mikið hefur verið rætt um gegenpressing spilastíl Jürgen Klopp að undanförnu og í fyrsta leik liðsins undir hans stjórn mátti strax sjá handbragð Þjóðverjans á liðinu. Okkar menn hlupu 10 kílómetrum meira en þeir hafa gert að meðaltali það sem af er leiktíðar og tóku einnig umtalsvert fleiri spretti.

Margir sparkspekingar hafa velt því fyrir sér hvort leikmenn Liverpool hafi úthald í að spila af svo miklum krafti leik eftir leik. Á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Rubin Kazan í Evrópudeildinni var Klopp spurður út í þetta.

„Það er mikill misskilningur í gangi varðandi þennan spilastíl. Ég hef margoft verið spurður út í þetta, hjá Mainz og Dortmund og núna hjá Liverpool. Þetta snýst ekki um að hlaupa eins og brjálæðingur í 90 mínútur í hverjum einasta leik. Meðan við erum með boltann er engin ástæða til þess að vera sífellt að taka spretti, en við þurfum að hafa plan ef við missum boltann. Þá þurfum við að pressa til að ná honum aftur."

„Það er enginn að tala um að þetta verði svona alltaf. Leikir eru misjafnir og þróast misjafnlega. Leikurinn gegn Rubin Kazan verður örugglega allt öðruvísi en leikurinn gegn Tottenham. En það breytir því ekki að við þurfum að ná tökum á þessari taktík, til að geta gripið til hennar ef þörf er á. Ég vil að menn leggi sig alla fram í hverjum einasta leik, en við erum að sjálfsögðu ekki að fara að gera út af við okkar eigin leikmenn."

„Við þurfum ekki að hlaupa 150 kílómetra í hverjum einasta leik, en við verðum að vera tilbúnir til þess. Ég fer fram á það. Það er aðalatriðið. Í leiknum gegn Tottenham tóku menn nokkur óþarfa hlaup, en með tímanum og meiri samæfingu náum við betri tökum á þessu. Tökum hlaupin á réttum augnabikum og gerum meira úr þeim."


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan