| Sf. Gutt

Síðasti dagur Brendan hjá Liverpool


Svona gekk síðasti dagur Brendan Rodgers í starfi framkvæmdastjóra Liverpool fyrir sig. Hann byrjaði á því að undirbúa liðið sitt fyrir grannaslag á móti Everton á Goodison Park. Liðið spilaði af meiri krafti en í síðustu leikjum og komst yfir þegar Danny Ings skoraði. Þetta var síðasta markið sem var skorað á stjóratíð hans. Romelo Lukaku jafnaði litlu síðar og leiknum lauk með jafntefli.



Eftir leikinn sat Brendan fyrir svörum á blaðamannafundi og fátt benti til þess að hann væri að ljúka störfum. Eftir blaðamannafundinn fór Brendan með liði sínu til Melwood þar sem gengið var frá eftir leikinn. Þegar hann var staddur þar hringdi Mike Gordon, forseti FSG, í hann og tilkynnti honum að ákveðið hefði verið að leysa hann undan samningi. Brendan og Ian Ayre, forstjóri Liverpool, ræddu svo saman. Brendan var skiljanlega miður sín en allt mun hafa farið fram í bróðerni. Brendan er nú kominn í frí til Spánar með sambýliskonu sinni og dóttur hennar. 


Óljóst er hvenær ákvörðun var tekin um að víkja Brendan úr starfi en búið var að ákveða að tilkynna honum um starfslok eftir leikinn á móti Everton hver svo sem úrslitin yrðu í þeim leik. Landsleikhlé fór í hönd og átti að nota það til að ganga frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra. Nú stefnir í að Jürgen Klopp verði arftaki Brendan og verður líklega tilkynnt um að hann verði næsti framkvæmdastjóri Liverpool á morgun eða föstudaginn.


Brendan Rodgers mun hafa haft flesta leikmenn sína með sér þar til yfir lauk en stærstur hluti stuðningsmanna Liverpool hafði misst trú á honum. Eftir að hann missti tiltrú stuðningsmannanna, og margir sneru baki við honum eftir síðustu leikina í vor, fór að halla undan fæti. Framkvæmdastjóri Liverpool verður að hafa The Kop með sér. Roy Hodgson og nú Brendan Rodgers vita hvernig það er. 

Hér má horfa á síðasta viðtalið sem tekið var við Brendan Rodgers.



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan