| Grétar Magnússon

Slæmur dagur á Leikvangi Ljóssins

Leikmenn Liverpool sóttu ekki gull í greipar Sunderland manna á laugardaginn var.  Heimamenn á Leikvangi Ljóssins fóru með sigur af hólmi 1-0 í ansi bragðdaufum leik.

Kenny Dalglish gerði tvær breytingar á liðinu frá því í leiknum við Arsenal en þeir Sebastian Coates og Craig Bellamy komu inn í stað Jamie Carragher og Stewart Downing.  Steven Gerrard sat á bekknum en hann var ekki orðinn alveg 100% klár í leikinn að mati þjálfaraliðsins.  Glen Johnson var svo áfram fjarverandi vegna meiðsla.

Fyrri hálfleikur verður seint í minnum hafður.  Eina skot sem hitti rammann var laflaus skalli frá Dirk Kuyt sem Mignolet í marki Sunderland greip auðveldlega.  Liðin reyndu hvað þau gátu til að spila boltanum en völlurinn var frekar erfiður yfirferðar auk þess sem þónokkur vindur var þennan dag.  Heimamenn voru þó ívið sterkari heilt yfir en náðu þó ekki skoti á markið.

Síðari hálfleikur var ekki ólíkur þeim fyrri en eina mark leiksins leit dagsins ljós eftir 11 mínútna leik í hálfleiknum.  Fraizer Richardson náði skoti að marki fyrir utan vítateig.  Boltinn hafnaði í stönginni, fór þaðan í hnakkann á Pepe Reina, aftur í stöngina og þar kom Nicklas Bentdner aðvífandi og setti boltann í markið.  Þarna má nú segja að örlögin hafi verið að gera gott grín í leikmönnum Liverpool en eins og allir vita hafa ófá skotin á þessu tímabili hafnað í stöngum og slám án þess þó að nokkur slík heppni hafi fylgt í kjölfarið.

Kenny Dalglish setti þá Andy Carroll og Steven Gerrard inná um miðjan síðari hálfleikinn en án árangurs, liðið virkaði andlaust og aldrei líklegt til þess að koma boltanum í markið.

Gestirnir settu einhverja pressu á heimamenn eftir því sem leið á leikinn en án árangurs.  Dómari leiksins flautað svo til leiksloka eftir fjórar mínútur af uppbótartíma og þar við sat.

Sunderland:  Mignolet, Bardsley, O'Shea, Turner, Bridge, Larsson, Gardner, Colback, McClean, Bentdner (Wickham, 84. mín.), Campbell (Vaughan, 75. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Gordon, Kyrgiakos, Meyler, Kilgallon og Elmohamady.

Gult spjald:  McClean.

Mark Sunderland:  Nicklas Bentdner (56. mín.).

Liverpool:  Reina, Kelly, Skrtel, Coates, Jose Enrique, Spearing, Henderson (Downing, 80. mín.), Adam (Carroll, 69. mín.), Kuyt, Bellamy (Carroll, 69. mín.), Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Doni, Carragher, Flanagan, og Maxi.

Gult spjald:  Skrtel.

Dómari leiksins:  Anthony Taylor.

Áhorfendur á Stadium of Light:  41.661.

Maður leiksins:  Það er nánast ómögulegt að velja mann leiksins eftir svona frammistöðu hjá liðinu. Kannski sýndi Craig Bellamy helst lit á meðan hann var inni í vellinum.

Kenny Dalglish:  ,,Ég held að við höfum náð að mæta því sem Sunderland höfðu uppá að bjóða.  Þeir hafa staðið sig vel að undanförnu en ég held að það hafi ekki verið mikill munur á milli liðanna í leiknum fyrir utan þá heppni sem réði svo úrslitum."

,,Það gekk ekkert upp hjá neinum.  Þetta var í raun ekki góður knattspyrnuleikur.  Það var í raun heppni sem réði því hvort þetta var jafntefli eða sigur öðru hvoru megin og heppninn féll Sunderland megin."

Fróðleikur:

- Þetta var þriðji tapleikur liðsins í röð í deildinni.

- Liðið hefur ekki tapað þrem leikjum í röð í deildinni síðan árið 2003 !

- Liverpool hefur aðeins unnið einn sigur í deildinni í síðustu sex leikjum.

- Frá áramótum hefur liðið aðeins náð í fimm stig í deildinni.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan