| Sf. Gutt

Fernando talar um svikin loforð!

Fernando Torres segir frá því í viðtali við spænska sjónvarpsstöð að hann hafi yfirgefið Liverpool vegna svikinna loforða eigenda félagsins!

,,Stuðningsmenn Liverpool vita ekki sannleikann á bak við þá ákvörðun mína að semja við Chelsea. Stuðningsmennirnir vita ekki einu sinni helminginn af því sem gerðist. Þeir vita ekki hvernig þeir sem stjórna Liverpool eru í raun og veru. Þeir hafa allt aðra mynd af þeim en þá sem rétt er."

,,Þeir lofuðu ýmsu en stóðu svo ekki við gefin loforð og ég fór vegna þess að ég áttaði mig á því að ég hefði ekki tíma til að taka þátt í verkefni sem tæki mörg ár."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fernando Torres hefur tæpt á því að stuðningsmenn Liverpool viti ekki hinar sönnu ástæður fyrir því af hverju hann yfirgaf félagið. Í raun skiptir slíkt harla litlu máli núna. Fernando bað um sölu á sínum tíma og það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað hann á við um svikin loforð eigenda Liverpool sem voru einungis búnir að stjórna félaginu í rúma þrjá mánuði þegar Fernando ákvað að fara!

Það er annars að frétta af Fernando Torres að honum gengur sem fyrr bölvanlega að skora fyrir Chelsea og mun aðeins hafa skorað fimm mörk fyrir liðið á árinu sem senn kveður. Hann lék gegn Liverpool í Deildarbikarleiknum undir lok síðasta mánaðar og komst hvorki lönd né strönd gegn sínum gömlu félögum. Óhætt er að segja að El Nino sé vart svipur hjá sjón miðað við þann magnaða leikmann sem skoraði 81 mark fyrir Liverpool!

Sögusagnir hafa verið um að Fernando Torres sé jafnvel til sölu og einhverjum fjölmiðlamönnum datt í hug að orða hann við endurkomu til Liverpool. Framkvæmdastjóri Chelsea tók þó af öll tvímæli, um daginn, og sagði að Fernando væri alls ekki falur.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan