| Heimir Eyvindarson

Við gefumst ekki upp.

Dirk Kuyt segir að tapið gegn Tottenham í gær hafi vissulega verið vonbrigði. Hann segir þó að liðið hafi ekki gefið upp vonina um Evrópusæti.

Tap Liverpool gegn Tottenham í gær þýðir að Lundúnaliðið er einu stigi á undan okkar mönnum fyrir lokaumferðina sem fram fer um næstu helgi. Liverpool verður því að treysta á að Tottenham misstígi sig í lokaleiknum til að eiga möguleika á Evrópudeildarsæti.

,,Það var vitanlega mjög svekkjandi að tapa leiknum gegn Tottenham. Við ætluðum okkur að sigra en okkur tókst ekki að ná upp nægilega góðum leik og því fór sem fór", segir Kuyt í viðtali við Liverpoolfc.tv.

,,Því miður vinnast ekki allir leikir. Við áttum alls ekki nógu góðan leik og náðum ekki upp stemningunni sem hefur einkennt okkar leik síðustu vikurnar. Nú verðum við bara að vona að Tottenham tapi stigi eða stigum í síðasta leiknum."

,,Það er auðvitað engin óskastaða að þurfa að treysta á ófarir annarra, en við ætlum okkur allavega að vinna okkar leik. Meira getum við ekki gert. Kannski kemur það okkur í Evrópukeppni næsta vetur."

Kuyt hefur verið sjóðheitur uppi við markið að undanförnu, en hann spilaði á kantinum í leiknum gegn Tottenham í gær þar sem Dalglish byrjaði með Carroll og Suarez frammi. Kuyt segir engu máli skipta hvar honum sé stillt upp.

,,Það skiptir mig engu hvar stjórinn segir mér að spila svo lengi sem ég get gert eitthvað gagn. Auðvitað vill maður alltaf skora eða leggja upp mörk, en aðalatriðið er að liðinu gangi vel", segir Hollendingurinn harðduglegi að endingu.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan