| Ólafur Haukur Tómasson

Liverpool hafnar tilboði í Fernando!

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá stuðningsmönnum Liverpool að félagið hefur verið að vinna hörðum höndum við að fá nýja leikmenn til félagsins og hefur lagt fram tilboð til Ajax og Blackpool í þá Luis Suarez og Charlie Adam en ekki verið ágengt.

Í gærkvöldi bárust heldur óvæntar fréttir sem ekki tengjast leikmannakaupum Liverpool heldur lögðu Englandsmeistararnir í Chelsea fram tilboð í Fernando Torres.

Liverpool er hins vegar ekki á þeim buxunum að láta einn sinna bestu leikmanna fara frá félaginu og hvað þá þegar hann virðist vera farinn að finna galdrana í skónum sínum aftur.

Tilboð Chelsea er talið vera í kringum 40 milljónir punda en þetta staðfesti talsmaður Liverpool í gærkvöldi. ,,Chelsea hefur lagt fram tilboð í Fernando en því hefur verið hafnað. Leikmaðurinn er ekki til sölu."

Síðan Kenny Dalglish tók við stjórnartaumunum hjá Liverpool hefur Fernando Torres, sem hafði látið lítið fyrir sér fara undir stjórn Roy Hodgson, fundið nýjan kraft og skorað þrjú mörk í fimm leikjum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan