| Sf. Gutt

Jose hvetur til dáða!

Flestir telja að Jose Reina sé búinn að vera besti leikmaður Liverpool á þessu keppnistímabili. Hann er búinn að standa sig frábærlega en vonandi reynir ekki mikið á hann í kvöld. Jose hvetur félaga sína til að komast áfram í Evrópudeildinni í kvöld með því að leggja Lille að velli á Anfield Road.

"Við erum 1:0 undir og við þurfum að rífa okkur upp. Við verðum að spila eins og í þeim leikjum sem okkur hefur gengið vel í. Leikurinn á mánudaginn var dæmi um svoleiðis leik. Vonandi náum við að halda hreinu og snúa blaðinu við. Ég vona að ég hafi ekkert að gera en ég efast um að svo verði. Þeir hafa skipulagt lið með fljóta menn í sókninni. Þetta verður erfitt en við höfum oft átt erfið verkefni framundan sem við höfum haft okkur fram úr."

Sumir telja að Evrópudeildin sé ómerkileg keppni í samanburði við Meistaradeildina og það sé ekki þess virði að vinna þá keppni. Jose Reina er alls ekki sammála þessari skoðun.

"Þetta er eini bikarinn sem við getum unnið á þessu keppnistímabili og þess vegna er þetta mjög mikilvæg keppni. Titil er titill og það er alltaf gott að vinna til verðlauna. Við vitum vel að við höfum ekki staðið okkur vel á þessu keppnistímabili. En það er mikilvægt fyrir félagið og leikmennina að eiga möguleika á að vinna titil."

Á þessum orðum Jose Reina má vel merkja að leikmenn Liverpool ætla sér að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ryðja Lille úr vegi í kvöld. Það verður boðið upp á Evrópukvöld á Anfield og Jose veit að stuðningsmenn Liverpool geta haft mikið að segja um úrslit leiksins.

"Ég vona og bið um að allir á Anfield styðji við bakið á okkur með því að skapa góða stemmningu því við þurfum á stuðningi áhorfenda að halda. Ég bið um þetta því ég veit að stuðningurinn skiptir miklu máli. Við biðjum alla stuðningsmenn okkar að styðja liðið sem aldrei fyrr og það strax og leikurinn hefst."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan