| Sf. Gutt

Við erum enn með í baráttunni!

Jamie Carragher segir að sigur Liverpool gegn Aston Villa hafi verið geigvænlega mikilvægur. Sigurinn þýði að Liverpool sé enn með í baráttunni um fjögur efstu sætin.
 
"Þetta voru gríðarlega mikilvæg úrslit og við erum nú miklu nær Aston Villa. Ef þeir hefðu unnið okkur þá hefðu þeir verið mörgum stigum á undan okkur. Þetta sýnir að einn leikur getur skipt miklu. Við vissum alveg hvað myndi gerast ef við hefðum tapað. Fólk hefði þá sagt að við værum núna langt á eftir og ættum ekki möguleika á að ná einu af fjórum efstu sætunum. Núna eigum við þó möguleika á því."
 
Jamie er, eins og allir vita, mikill félagsmaður. Liverpool er honum allt og hann hefur tekið slakt gengi liðsns mjög nærri sér. 

"Ég hef nú ekki skoðað stigatöfluna nokkuð lengi svo ég er ekki viss hverju munar í stigum. Það hefur ekkert upp á sig að skoða töfluna þegar illa gengur. En ef við getum líka unnið næsta leik gegn Tottenham þá erum við komnir í slaginn fyrir alvöru. Það er búið að ganga upp og niður á þessu keppnistímabili en ég vona að við getum núna náð góðri rispu."

"Við erum lengi búnir að vera með í toppbaráttunni og því fylgir að ýmsir vonast eftir því að það fari að ganga illa og önnur lið vilja komast upp fyrir okkur. Þess vegna var þessi sigur á Villa Park ekki bara þrjú stig í safnið. Sigurinn var líka yfirlýsing frá okkur til allara um að við erum enn með í baráttunni í þetta sæti."

Jamie Carragher hefur verið að sækja í sig veðrið í síðustu leikjum eftir að átt misjafna leiki framan af keppnistímabilinu. Hann þurfti að standa af sér hríðarveður og harða mótherja á Villa Park í gærkvöldi. Þetta gerði kappinn með sóma, var magnaður og átti frábæran leik í hjarta varnar Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan