| Grétar Magnússon

Mikilvægur sigur á Villa Park

Gríðarlega mikilvægur sigur vannst á Aston Villa í síðasta leik ársins.  Loksins má segja að heppnin hafi verið með leikmönnum Liverpool en Fernando Torres skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir að hafa fengið boltann innfyrir vörnina frá Gabriel Agbonlahor sóknarmanni Villa !

Rafa Benítez gerði eina breytingu á liðinu sem vann Úlfana á annan dag jóla, eins og við var að búast kom Dirk Kuyt inní byrjunarliðið á kostnað Fabio Aurelio sem settist á bekkinn.

Þegar flautað var til leiks var mikil snjókoma í Birminghamborg og ljóst að völlurinn væri nokkuð blautur og erfiður yfirferðar.  Heimamenn byrjuðu af krafti, sóttu stíft frá fyrstu mínútu og uppskáru hornspyrnu strax á 2. mínútu.  Leikmenn Liverpool komust varla framyfir miðju fyrstu mínúturnar en eftir því sem á leið á hálfleikinn batnaði leikur þeirra og má segja að jafnræði hafi verið með liðunum fyrstu 45 mínúturnar.

Richard Dunne fékk ágætt skallafæri á 14. mínútu en Reina varði vel.  Stuttu síðar átti Lucas góða sendingu fram völlinn á Fernando Torres sem tók boltann niður, úti við vítateiginn hægra megin.  Hann sendi boltann á Steven Gerrard og fyrirliðinn var ekkert að hika og skaut á markið háu skoti.  Brad Friedel kastaði sér afturábak og sló boltann yfir markið, glæsilegt skot og ekki síðri markvarsla þarna á ferðinni.  Uppúr hornspyrnunni náði svo Benayoun skoti að marki en skotið fór beint í fangið á Friedel.

James Milner átti svo skot að marki fyrir utan teig en Reina átti ekki í vandræðum með að halda boltanum.  Steven Gerrard átti svo skot eftir vel útfærða aukaspyrnu en varnarmenn Villa komust fyrir skotið.  Dirk Kuyt hefði svo jafnvel getað fengið vítaspyrnu þegar hann var felldur inní teig af Richard Dunne en Kuyt sneri baki í markið og virtist ekki vera með fullt vald á boltanum þegar hann var felldur.  Dómari leiksins, Lee Probert, sem upphaflega var skráður sem fjórði dómari leiksins, dæmdi ekki neitt að þessu sinni.

Áfram héldu leikar og bæði lið sköpuðu sér færi, besta færi fyrri hálfleiks fékk Stewart Downing þegar hann fékk boltann einn og óvaldaður á fjærstönginni eftir hornspyrnu en Reina gerði mjög vel í að verja boltann sem fór aftur fyrir markið.  Gestirnir önduðu léttar og Downing vissi að hann hefði átt að gera betur þarna.

Í síðari hálfleik voru heimamenn öflugri og eftir því sem leið á leikinn gerðu þeir sig líklegri til að skora mark.  Á 63. mínútu átti Alberto Aquilani skot úr aukaspyrnu yfir markið.  Gabriel Agbonlahor fékk svo boltann innfyrir vörn Liverpool á 70. mínútu, hann hristi af sér Jamie Carragher, skeiðaði í átt að marki og náði skoti sem Reina gerði enn og aftur vel í að verja.  Villa menn fengu hornspyrnu og John Carew náði skalla að marki frá markteig sem smaug rétt framhjá stönginni.  Þar skall hurð nærri hælum.

Áfram sóttu heimamenn og hefðu átt að fá vítaspyrnu þegar Insua reyndi að skalla boltann frá marki en gerði ekki betur en svo að boltinn fór í höndina á honum sjálfum.  Dómari leiksins virtist sjá atvikið en hann dæmdi ekki neitt.

Benítez gerði sína fyrstu skiptingu þegar 13 mínútur voru til leiksloka en þá kom Ryan Babel inná fyrir Alberto Aquilani sem hafði staðið sig vel í sínum öðrum leik í byrjunarliði í deildinni.  Babel fór á vinstri kantinn, Gerrard aftur á miðjuna og Benayoun í svæðið fyrir aftan Torres.

Á 81. mínútu hefði Babel svo átt að gera betur er hann náði ekki skalla að marki eftir sendingu frá Insua af vinstri kanti, boltinn skoppaði svo rétt framhjá Dirk Kuyt í kjölfarið.  Allt virtist því stefna í 0-0 jafntefli í fjörugum leik.

Mínútu fyrir lok venjulegs leiktíma meiddist svo Glen Johnson á hné og virtust meiðslin nokkuð alvarleg, inná kom Martin Skrtel og hann fór beint í hægri bakvörðinn.

Á 93. mínútu kom svo hið gríðarlega mikilvæga sigurmark.  Gestirnir sóttu upp hægri kantinn þar sem Stephen Warnock stal boltanum af Yossi Benayoun, hann sendi svo á Richard Dunne sem rann í blautu grasinu og Dirk Kuyt vann boltann.  Hann sendi inná miðjuna til Benayoun sem aftur missti boltann of langt frá sér en þar kom Gabriel Agbonlahor aðvífandi og tæklaði boltann sem barst innfyrir vörn Villa.  Fernando Torres þakkaði pent fyrir sig, lék aðeins nær marki og sendi boltann neðst í fjærhornið framhjá Friedel í markinu.  Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Liverpool því mikilvægur sigur var nánast í höfn.  Aurelio kom svo inná fyrir Benayoun og stuttu síðar flautaði Probert til leiksloka.

Frábær sigur í baráttuleik og vissulega þurfti smá heppni til en hana hefur oftar en ekki stórlega vantað í leikjum liðsins á tímabilinu til þessa.

Aston Villa:  Friedel, Dunne, Cuellar, Warnock, Young, Petrov, Reo-Coker (Albrighton 72. mín.), Downing (Sidwell 80. mín.), Milner, Carew, Agbonlahor.  Ónotaðir varamenn:  Guzan, Collins, Beye, Delph og Delfouneso.

Gult spjald:  Richard Dunne.

Liverpool:  Reina, Johnson (Skrtel 89. mín.), Agger, Carragher, Insua, Lucas, Aquilani (Babel 78. mín.), Benayoun (Aurelio 90. mín.), Kuyt, Gerrard, Torres.  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Kyrgiakos, Spearing og Ngog.

Mark Liverpool:  Fernando Torres (90+3 mín.).

Gult spjald:  Lucas Leiva.

Áhorfendur á Villa Park:  42.788.

Maður leiksins:  Jamie Carragher.  Carragher virðist óðum vera að komast í sitt rétta form en hann og Daniel Agger hafa nú haldið markinu hreinu í síðustu tveim leikjum.  Carra var gríðarlega duglegur í leiknum, stjórnaði vörninni eins og herforingi og hreinsaði hættulega bolta frá marki.

Rafael Benítez:  ,,Við vissum að við þurftum að vinna til að minnka bilið á milli liðanna.  Liðið lagði hart að sér og maður sá samheldnina í liðinu.  Ég er mjög ánægður fyrir hönd Fernando, fyrir hönd liðsins og félagsins alls.  Eftir þennan leik er allt auðveldara því allir eru ánægðir."Fróðleikur:

- Fernando Torres skoraði sitt 50. deildarmark fyrir félagið.  Hann hefur spilað 72 deildarleiki.

- Torres er þar með orðinn fljótasti leikmaðurinn í sögu félagsins til að skora 50 deildarmörk.

- Liverpool hafa ekki tapað á Villa Park síðan árið 1998, liðið hefur unnið 6 leiki og gert 6 jafntefli síðan þá.

- Þetta var 12. mark Torres á leiktíðinni, öll hafa þau komið í Úrvalsdeildinni.  Hann er í 5. sæti yfir markahæstu menn deildarinnar en Didier Drogba og Jermain Defoe hafa skorað tveimur mörkum meira.

- Í fyrsta sinn síðan 26. september náði liðið að vinna tvo leiki í röð.  Uppskeran hefur verið góð í þessari jólatörn, 6 stig af 6 mögulegum.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan