| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Oftast bölva stuðningsmenn Liverpool landsleikjahléum en nú bar svo við að slíku hléi var fagnað. Ástæðan var sú að í hléinu, sem nú er lokið, fengu margir lemstraðir leikmenn Rauða herins færi á að láta sár sín gróa og safna vopnum sínum. Ekki var vanþörf á því síðustu bardagar hafa farið illa með Rauðliða. En nú er komið að næsta bardaga og fregnir herma að einhverjir af stríðsmönnum Rauða hersins hafi náð að skríða saman.

Graeme Souness, fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool, sagði eitt sinn að það skipti engu máli hversu góðir framkvæmdastjórar menn væru. Hlutirnir myndu einfaldlega ekki ganga vel nema heppnin væri líka í liði með manni. Vissulega er mikið til í þessu og heppnin hefur sannarlega ekki verið með Liverpool á þessu keppnistímabili. Meiðslalistinn hefur verið lengri en gestalistinn og mistök dómara og aðstoðarmanna þeirra hafa oft komið á versta tíma. En menn verða að vinna sér inn heppni og það hafa leikmenn Liverpool ekki verið nógu duglegir við að gera. Á morgun kemur lið frá Manchester í heimsókn. Um daginn kom lið frá sömu borg í heimsókn. Sá leikur vannst vegna þess að allir leikmenn Liverpool lögðu sig alla fram og unnu sér inn þá heppni sem þurfti til að vinna. Nú verður að gera slíkt hið sama!!!


Fróðleiksmolar...

- Þetta er 18. leikur Liverpool á þessu keppnistímabili.

- Enginn leikmaður Liverpool hefur spilað alla leikina.

- Alls hafa 29 leikmenn spilað með liðinu það sem af er leiktíðar.

- Liverpool er í sjöunda sæti deildarinnar.
 
- Manchester City er sæti ofar og með stigi meira.

- Átta leikmenn hafa skorað fyrir Liverpool á leiktíðinni. 

- Fernando Torres hefur skorað flest mörk Liverpool á keppnistímabilinu eða tíu talsins.

Spá Mark Lawrenson

Liverpool v Manchester City

Góðu fréttirnar hjá Liverpool eru þær að allt útlit er á að Steven Gerrard sé orðinn leikfær en ég er ekki viss um að Fernando Torres geti tekið þátt í þessum leik. Fjórir leikmenn Manchester City voru í byrjunarliði enska landsliðsins í síðustu viku og þeir hafa því ekki fengið hvíld. Þetta gæti skipt máli.

Ég held að Manchester City sé nú með nógu góða leikmenn sem geti veitt Liverpool keppni. Þetta gæti hentað heimamönnum vel því mörg lið koma til Anfield og pakka í vörn. Þetta gæti á hinn bóginn verið opinn leikur og það hentar Liverpool vel.

Úrskurður:  Liverpool v Manchester City 1:0.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan