| Grétar Magnússon

Agger ánægður með að vera kominn til baka

Daniel Agger brosti breitt eftir leikinn gegn Tranmere um helgina.  Agger hefur verið lengi frá vegna meiðsla og má segja að síðasta tímabil hafi verið hrein martröð fyrir hann þar sem hann spilaði ekki neitt að ráði frá því í september.

Agger spilaði í 75 mínútur gegn Tranmere og kenndi sér ekki meins eftir leikinn.  Rafa Benítez hefur áður sagt að fjarvera Aggers á síðasta tímabili hafi spilað stóran þátt í því að ekki tókst að gera alvarlega atlögu að titlinum þar sem að of mikið álag hafi verið á þeim Jamie Carragher og Sami Hyypia.  Koma Martin Skrtel í janúar breytti miklu og frammistaða liðsins eftir áramótin var nánast eins og best verður kosið.

Agger viðurkennir að hann þurfi nú að sanna sig fyrir stjóranum á ný til þess að eiga möguleika á sæti í byrjunarliðinu.

Hann sagði:  ,,Mér finnst ég vera að byrja uppá nýtt.  Það má segja að ég hafi misst af miklum fótbolta eða þá að það megi segja að það sé mikið eftir.  Ég spilaði ekkert og þannig er það bara.  Ég er einbeittur fyrir komandi tímabil og auðvitað hef ég verið að æfa í allt sumar og takmark mitt var að halda mér í góðu formi þannig að ég yrði klár í fyrsta leik tímabilsins." 

,,Samkeppnin um stöður verður hörð.  Það er við því að búast hjá félagi eins og Liverpool.  Ég mun berjast fyrir mínu sæti og hinir leikmennirnir munu gera það sama."

Agger segir að síðustu 10 mánuðir hafi verið þeir erfiðustu á ferli sínum.  ,,Þetta hefur verið löng bið hjá mér og mest pirrandi tímabil á mínum ferli. Ég reyni nú að horfa fram á veginn í staðinn fyrir að líta til baka og sjá hversu leiðinlegt þetta var.  Ég einbeiti mér að nýju tímabili núna."

,,Ég var leiður, en maður verður að einbeita sér að því að koma til baka eins fljótt og hægt er, halda áfram að vinna og það er það mikilvægasta, maður á ekki að vera leiður yfir því hvað gerðist heldur horfa björtum augum á framtíðina.  Allir hjálpuðu mér, en ég þekki sjálfan mig best og ég hef mjög sterkan vilja sem fleytir mér áfram."

,,Það sem gerðist er svo löng saga að ég held að enginn hafi tíma til að heyra hana alla.  Það sem er mikilvægt er að núna finn ég ekki til og er sáttur."

Endurkoma Aggers gleður Rafa Benítez mjög mikið og sagði hann eftir leikinn:  ,,Ég held að Agger hafi staðið sig ágætlega.  Það sem við vildum sjá var hvort að hann gæti spilað án þess að finna til og hann átti ekki í neinum vandamálum sem er mjög gott fyrir liðið.  Þetta er svona leikur sem er gott að nota til að sjá hvort að leikmennirnir séu í formi.  Við sáum einnig frábært mark og góðar sóknir þannig að þetta var jákvæður dagur fyrir okkur."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan