| Sf. Gutt

Sjöundi sigur Liverpool í röð!

Liverpool vann fimmta deildarsigur sinn í röð og þann sjöunda í öllum keppnum þegar liðið lagði Reading að velli 2:1 á Anfield Road. Liverpool lék ekki vel en stigin þrjú voru voru fyrir öllu.

Nýbakaði faðirinn Xabi Alonso var í byrjunarliði Liverpool þrátt fyrir sögusagnir í fjölmiðlum þess efnis að hann væri fallinn í ónáð hjá Rafael Benítez eftir að hafa valið að vera við fæðingu frumburðar síns fremur en að fara til Mílanó. Talandi um sögusagnir! Það var þó engu líkara en leikmenn Liverpool væru enn í Mílanó þegar leikurinn hófst því þeir voru ekki vel einbeitir í upphafi leiksins. Á 5. mínútu sváfu leikmenn Liverpool á verðinum og Reading komst yfir. Reading fékk á aukaspyrnu úti á vinstra kanti. Hún var reyndar ekki rétt dæmd því Alvaro Arbeloa bjargaði í horn en dómarinn taldi hann hafa brotið á leikmanni þegar hann renndi sér á boltann. Hvað um það. Boltinn var sendur út fyrir teiginn og þar kom Tékkinn Marek Matejovsky og þrumaði boltanum viðstöðulaust í þverslá og inn. Stórglæsilegt mark og það fyrsta sem Marek skorar fyrir Reading. Fjórum mínútum síðar var Xabi Alonso ekki fjarri því að koma boltanum í markið. Hann sendi háa sendingu fyrir frá hægri en boltinn smaug framhjá vinklinum fjær. Á 13. mínútu sendi Steven frábæra stungusendingu á Fernando Torres en Marcus Hahnemann, markvörður Reading, bjargaði með góðu úthlaupi. Gestirnir voru líka ógnandi og áttu nokkrar hættulegar sóknir en vörn Liverpool, sem var ekki sannfærandi til að byrja með, slapp. Á 19. mínútu náði Liverpool að jafna og markið kom sannarlega úr óvæntri átt. Ryan Babel renndi boltanum inn á miðjuna á Javier Mascherano. Argentínumaðurinn fékk boltann á miðjum vallarhelmingnum. Hann lék svo framhjá einum leikmanni Reading og hamraði boltann án frekari umhugsunar í markið af rúmlega 20 metra færi. Marcus kom engum vörnum við í markinu enda skotið firnafast. Glæsilegt mark og líkt og Marek þá opnaði Javier þarna markareikning sinn og markið var sannarlega ekki af verri endanum! Liverpool náði nú undirtökunum í leiknum og réði gangi mála fram að leikhléi. Eftir hálftíma lék Ryan Babel, sem var mjög ógnandi í fyrri hálfleik, á tvo varnarmenn og inn á teig þaðan sem hann skaut föstu skoti sem Marcus varði vel. Rétt á eftir skoraði Ryan en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Landi hans Dirk Kuyt hefði átt að koma Liverpool á 33. mínútu en hann skaut yfir úr góðu færi í teignum. Á lokamínútu hálfleiksins náði Xabi boltanum rétt utan vítateigs og átti gott langskot sem fór hárfínt framhjá.  

Gestirnir hófu leikinn vel en Liverpool fékk óskabyrjun í síðari hálfleik því eftir að eins þrjár mínútur lá boltinn í marki Reading. Liverpool fékk aukaspyrnu vinstra megin úti við hliðarlínu eftir að brotið var á Fernando Torres. Steven Gerrard sendi góða sendingu fyrir markið. Boltinn fór beint á höfuðið á Fernando sem skallaði boltann í jörðina og þaðan skaust hann í markið! Varnarmenn Reading gleymdu að hafa gætur á Fernando og Spánverjinn nýtti sér það til fulls. Enn eitt markið hjá "Stráknum" og þetta var 20. deildarmark hans á leiktíðinni. Ryan hefði átt að innsigla sigurinn á 62. mínútu en hann skaut yfir eftir að hafa komist inn á teig. Á 73. mínútu átti Fabio Aurelio fast langskot. Marcus varði en hélt ekki boltanum sem barst út í teig. Fernado náði frákastinu en skalli hans fór framhjá. Þegar leið að leikslokum fóru leikmenn Reading að færa sig upp á skaftið enda aðeins eins marks munur. Á lokamínútunum skall tvívegis hurð nærri hælum við mark Liverpool. Varamaðurinn Dave Kitson fékk þá boltann utan við hægra markteigshorið og skaut að marki. Steven Gerrard henti sér fyrir boltann. Boltinn fór í aðra hendina á honum sem Steven bar fyrir andlit sitt og hélt fast að sér. Leikmenn Reading heimtuðu vítaspyrnu og víst hefði mátt dæma hana en dómarinn vildi ekki heyra á það minnst. Rétt á fékk Reading aukaspyrnu á vallarhelmingi Liverpool. Rafael skipti Sami Hyypia inn á til að styrkja vörnina á áður en hún var tekin. Boltinn var sendur inn á teig. Jose varði skalla en missti boltann frá sér. Hann náði honum þó aftur og kastaði fram á völlinn. Xabi Alsono fékk boltann og skaut að óvörðu marki Reading, frá eigin vallarhelmingi, en boltinn fór framhjá. Rétt á eftir flautaði dómarinn til leiksloka og leikmenn Liverpool fögnuðu sjöunda sigri sínum í röð!

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Alonso, Mascherano, Kuyt (Benayoun 80. mín.), Gerrard (Hyypia 90. mín.), Babel (Riise 83. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Crouch.

Mörk Liverpool: Javier Mascherano (19. mín.) og Fernando Torres (48. mín.).

Reading: Hahnemann, Rosenior, Bikey, Ingimarsson, Shorey, Oster (Kebe 72. mín.), Harper, Matejovsky (Cisse 74. mín.), Hunt, Doyle og Long (Kitson 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Federici og Sonko.

Mark Reading: Marek Matejovsky (5. mín.).

Gul spjöld: Shane Long, Ívar Ingimarsson, Marek Matejovsky, Andre Bikey og Kalifa Cisse.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.524.

Maður leiksins: Javier Mascherano. "Skrímslið" átti stórleik og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann var á þönum úti um allan völlinn. Hann spilaði boltanum vel og átti varla misheppnaða sendingu. Hann vann svo fullt af tæklingum. Ekki má gleyma markinu frábæra sem hann skoraði. Býsna gott dagsverk hjá Argentínumanninum!

Álit Rafael Benítez: Það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að ná þremur stigum í dag. Við vorum svolítið óstyrkir á síðustu mínútunum en ég held að við höfum verðskuldað sigurinn. Við áttum í vandræðum undir lokið þegar þeir áttu nokkur föst leikatriði en við hefðum átt að skora fleiri en tvö mörk miðað við færin sem við fengum. Það er erfitt að leika gegn þeim því lið þeirra er vel skipulagt. Við vorum gjarnir á að missa boltann en inni á milli spiluðum við virkilega vel.





 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan