| Grétar Magnússon

Engar afsakanir hjá Crouch

Peter Crouch segist ekki geta afsakað tæklinguna sem olli því að hann fékk rautt spjald gegn Chelsea í Deildarbikarnum.  En á hinn bóginn ávítar hann John Obi Mikel fyrir að gera sér upp alvarleg meiðsli.

Leikurinn tapaðist 2-0 en aðal umræðuefnið eftir leikinn var rauða spjaldið sem Crouch fékk aðeins mínútu eftir að Chelsea komst í 1-0.  Crouch segir að hægt hefði verið að komast hjá því að gefa rautt spjald ef dómarinn hefði flautað á Mikel rétt áður en Crouch braut af sér.

Hann sagði:  ,,Mikel kom að mér með takkana á lofti og það var mér ofarlega í huga.  Svo fannst mér vera brotið á mér aftur og eftir það missti ég stjórn á mér.  Ég get ekki afsakað þessa tæklingu en dómarinn hefði getað komið í veg fyrir þetta ef hann hefði flautað aðeins fyrr."

,,Það var mikið að gerast og ég held að pirringurinn hafi náð tökum á mér.  Maður sættir sig við að allir dómar ganga manni ekki í hag þannig að maður getur ekki áfellst dómarana."

Frammistaða dómarans í leiknum í gær var nokkuð til umræðu hjá Rafa Benítez vegna þess að hann virtist gefa Chelsea allar vafaaukaspyrnur en Crouch segir að það sem hafi farið mest í taugarnar á honum hafi verið viðbrögð Mikel við tæklingunni.

,,Ég hugsa að Frank Lampard eða John Terry myndu ekki láta eins og Mikel gerði ef ég hefði tæklað þá svona.  Myndi Carragher láta svona ef hann yrði tæklaður eins ?  Ég held að það sé öruggt að segja að hann myndi ekki gera það."

,,Erlendir leikmenn hafa komið með ýmsa góða hluti til Englands en svona vill maður ekki sjá.  Ég kom ekki mikið við hann en hann féll niður eins og hann hefði verið skotinn.  Þetta er pirrandi vegna þess að mér fannst við spila ágætlega sem lið og auðvitað var vitað að þetta yrði erfitt eftir að ég var rekinn útaf."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan