Rauði herinn heldur áfram eftir stórsigur!
Liverpool komst í kvöld áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar eftir að hafa burstað Marseille 4:0 í Frakklandi. Það segir sína sögu um afrekið að enskt lið hefur aldrei áður unnið sigur á heimavelli Marseille!
Ótrúlegur endasprettur liðsins í riðlinum kom liðinu, mörgum á óvart, áfram í keppninni! Porto vann riðilinn og Liverpool fylgir með eftir að hafa haft aðeins eitt stig þegar keppnin í riðlinum var hálfnuð! Sannarlega magnað afrek.
Liverpool gat ekki fengið betri byrjun því strax á 4. mínútu fékk liðið vítaspyrnu. Dirk Kuyt sendi langa sendingu fram á Steven Gerrard sem komst einn inn á vítateiginn eftir mikinn sprett. Þar var hann felldur af Gael Givet og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Steven tók spyrnuna sjálfur. Steve Mandanda, markvörður Marseille, henti sér til vinstri og varði spyrnuna en Steven var vel vakandi og skilaði frákastinu í markið. Sannkölluð óskabyrjun. Markið var ekki bara mikilvægt heldur líka sögulegt því þetta var 23. Evrópumark Steven Gerrard sem er nýtt félagsmet! Á 11. mínútu fór Liverpool langt með að gera út um leikinn. Fernando Torres tók við langri sendingu fram völlinn og sendi boltann út á vinstri kant á Harry Kewell. Ástralinn gaf boltann aftur á Fernando sem tók magnaða rispu inn í vítateiginn. Hann lék á þrjá varnarmenn Marseille og skoraði svo sem nákvæmu skoti neðst í hornið fjær. Alveg frábærlega gert hjá Fernando! Leikurinn róaðist nú en undir lok hálfleiksins hefði Liverpool hefði hæglega getað bætt við mörkum. Steven rétt framhjá úr aukaspyrnu þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Harry Kewell átti svo fast skot, rétt utan markteigs, sem fór rétt yfir. Fernando náði svo að koma sér í færi eftir góðan einleik en hann lyfti boltanum rétt yfir.
Djibril Cissé var skipt inn á í hálfleik fyrir hinn fyrrum leikmann Liverpool Bolo Zenden. Hafi heimamenn gert sér einhverjar vonir með að bæta úr skák í síðari hálfleik þá slokknuðu þær á 48. mínútu. Sending kom inn á vítateig Marseille. Ekki tókst betur til en svo hjá markverði franska liðsins en að hann sparkaði boltanum út á vinstri kant beint á Harry Kewell. Ástralinn var snöggur að átta sig og stakk boltanum strax inn fyrir vörn Marseille. Þar kom Dirk Kuyt, náði boltanum og lék inn í vítateig. Hollendingurinn sýndi mikla yfirvegun og sendi boltann af miklu öryggi yfir markvörðinn og í markið. Nú var sigurinn svo gott sem í höfn og um leið áframhald í Meistaradeildinni. Leikmenn Liverpool lék af mikilli yfirvegun og áttu aldrei í neinum vandræðum með að hrinda máttlitlum sóknum heimamanna. Eina færi þeirra kom þegar langt var liðið á leikinn þegar Djibril Cissé stökk upp með Jamie Carragher. Boltinn fór í Jamie og rétt framhjá stönginni. Liverpool innsiglaði svo einn magnaðasta útisigur liðsins í Evrópusögu þess á 90. mínútu. Tveir varamenn Liverpool unnu að því marki. Fabio Aurelio sendi langa sendingu fram völlinn á Ryan Babel sem stakk vörn Marseille af. Hollenski strákurinn lék inn á vítateiginn þar sem hann sneri langlega á markvörð Marseille áður en hann renndi boltanum í autt markið! Stórsigur var innsiglaður. Hver einasti leikmaður Liverpool lék mjög vel og það skilaði sér í sigri sem fer í annála félagsins!
Frábær sigur og Liverpool komst áfram í Meistaradeildinni! Líklega voru margir búnir að afskrifa Liverpool eftir að liðið tapaði 2:1 fyrir Besiktas í Tyrklandi. Liðið varð að vinna þrjá síðustu leiki sína til að eiga einhverja möguleika á að komast áfram. Þetta gerði Liverpool og skoraði sextán mörk í kaupbæti! Þetta dugði til að koma Liverpool áfram. Frábært afrek sama hvernig á það er litið!
Marseille: Mandanda, Bonnart, Rodriguez, Givet (Faty 45. mín.), Taiwo, Cheyrou (Nasri 34. mín.), Ziani, Zenden (Cissé 46. mín.), Cana, Valbuena og Niang. Ónotaðir varamenn: Mate, Oruma, Zubar og M´Bami.
Gult spjald: Lorik Cana.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Hyypia, Riise, Kewell (Aurelio 67. mín.), Mascherano, Gerrard, Benayoun, Kuyt (Lucas 86. mín.) og Torres (Babel 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje, Finnan, Crouch og Hobbs.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (4. mín.), Fernando Torres (11. mín.), Dirk Kuyt (48. mín.) og Ryan Babel (90. mín.).
Gul spjöld: Jamie Carragher og Fabio Aurelio.
Áhorfendur á Stade Velodrome: 53.000.
Maður leiksins: Fernando Torres. Spánverjinn var frábær í leiknum og hann skoraði annað mark Liverpool með frábærum tilþrifum. Fernando gafst aldrei upp þótt varnarmenn Marseille spörkuðu hann niður hvað eftir annað og hélt áfram að herja á vörnina þar til honum var skipt af leikvelli.
Álit Rafael Benítez: Ég er virkilega stoltur af leikmönnunum og stuðningsmönnunum. Þetta var alveg mögnuð framganga hjá öllum sem tengjast Liverpool. Leikmennirnir höfðu rétta hugarfarið. Þeir komu einbeittir til leiks og það var lykilatriði. Við náðum að skora snemma og eftir það stjórnuðum við um það bil öllu.
Hér er lokastaðan í riðlinum
Porto 6. 3 2 1 8:7. 11.
Liverpool 6. 3 1 2 18:5. 10.
Marseille . 6. 2 1 3 6 :9. 7.
Besiktas 6. 2 0 4 4:15. 6.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
-
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Sf. Gutt
Darwin í banni með Úrúgvæ -
| Sf. Gutt
Vil vinna allt! -
| Sf. Gutt
Craig Bellamy tekur við Wales -
| Sf. Gutt
Mikill fjöldi landsliðsmanna -
| Sf. Gutt
Af mikilvægi andlegrar heilsu -
| Sf. Gutt
Til hamingju! -
| Sf. Gutt
Alisson gæti verið frá í rúman mánuð!