Xerdan Shaqiri

Fæðingardagur:
10. október 1991
Fæðingarstaður:
Gjilan, SFR Júgóslavíu
Fyrri félög:
Basel, Bayern Munchen, Inter Milan, Stoke City
Kaupverð:
£ 13000000
Byrjaði / keyptur:
13. júlí 2018

Svissneski miðjumaðurinn Xerdan Shaqiri kom til félagsins frá Stoke City sumarið 2018.

Shaqiri var í þrjú ár hjá Stoke, spilaði þar 84 leiki, skoraði 15 mörk og lagði upp önnur 15.  Þegar Stoke féll úr deildinni vorið 2018 var ljóst að hann yrði ekki lengur hjá félaginu og Liverpool gengu frá kaupunum á honum.

Hann hóf ferilinn í heimalandinu með Basel og fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu tímabilið 2009-10 aðeins 17 ára að aldri.  Þá þegar var ljóst að hann byggi yfir miklum hæfileikum og ætti eftir að verða einn af bestu leikmönnum Sviss í gegnum tíðina.  Fyrsta tímabil sitt spilaði hann 31 leik og skoraði fjögur deildarmörk þegar liðið tryggði sér titilinn.  Hann skoraði svo í úrslitaleik bikarkeppninnar í 6-0 sigri á Lausanne.  Næstu tvö tímabil vannst titillinn í Sviss og einn bikartitill bættist einnig í safnið.  Áður en Shaqiri hafði náð því að verða tvítugur hafði hann unnið fimm titla.

Stærri lið í Evrópu fór að sýna honum áhuga og það fór svo að Bayern Munchen fengu hann til liðs við sig í febrúar árið 2012 og sumarið eftir gekk hann formlega til liðs við félagið.  Hans fyrsta tímabil með liðinu var eftirminnilegt því liðið vann deildina, þýska bikarinn sem og Meistaradeild Evrópu eftir sigur á Jürgen Klopp og hans mönnum í Dortmund.  Eftir þetta fór að halla undir fæti hjá Shaqiri og hann spilaði ekki mikið með liðinu næstu 18 mánuði, en titlarnir héldu áfram að detta inn með sigri í deild og bikar, sem og UEFA Super Cup og FIFA Club World Cup.

Í janúar 2015 var hann seldur til Inter Milan og þar átti hann einnig nokkuð erfitt uppdráttar, um sumarið festi svo Stoke City kaup á honum og kom það mörgum á óvart.  Hann spilaði vel hjá Stoke þau þrjú tímabil sem hann var þar en hans besta tímabil var þó tímabilið sem liðið féll úr deildinni.  Hann missti aðeins af tveim leikjum og skoraði 8 mörk en það dugði ekki til því Stoke féll eins og áður sagði.

Shaqiri var auðvitað með Sviss á HM í sumar og skoraði hann sigurmarkið gegn Serbíu í riðlakeppninni sem tryggði Sviss sæti í 16-liða úrslitum.  Þar féllu Shaqiri og félagar úr leik gegn Svíþjóð.  En skömmu eftir HM í Rússlandi var tilkynnt að Liverpool hefði fest kaup á honum, á undirbúningstímabilinu spilaði hann vel og skoraði hann stórglæsilegt mark með hjólhestaspyrnu í leik gegn Manchester United í Bandaríkjunum sem vannst 4-1.

Tölfræðin fyrir Xerdan Shaqiri

Tímabil Deild Bikar Deildarbikar Evrópa Annað Alls
2018/2019 24 - 6 1 - 0 1 - 0 4 - 0 0 - 0 30 - 6
2019/2020 7 - 1 0 - 0 0 - 0 1 - 0 3 - 0 11 - 1
2020/2021 14 - 0 2 - 0 1 - 1 5 - 0 0 - 0 22 - 1
Samtals 45 - 7 3 - 0 2 - 1 10 - 0 3 - 0 63 - 8

Fréttir, greinar og annað um Xerdan Shaqiri

Fréttir

Í nærmynd

Skoða önnur tímabil