Patrik Berger


Patrik tók ekki hlutskipti sínu þegjandi og hljóðalaust og bankaði á dyr skrifstofu Roy Evans: "Hann vildi vita út af hverju hann var ekki í liðinu", sagði Evans. "Hann var ekki ánægður með að vera einungis á bekknum og leitaði skýringa. Fyrstu orðin sem útlendingur lærir eru yfirleitt blótsyrði og hann hefur kallað mig einu eða tveimur nöfnum. Það væri undarlegt ef hann væri sáttur við núverandi hlutskipti sitt en hann verður að sýna þolinmæði. Hann er mjög hæfileikaríkur strákur og þegar hann verður búinn að finna fjölina sína verður erfitt að bola honum út úr byrjunarliðinu. En Patrik leið hins vegar vel í Liverpoolborg: "Það er alltaf erfitt að flytja á nýjar slóðir en fólkið hérna í Liverpool hefur lagt sig fram um að auðvelda mér lífið. Aðdáendurnir hafa verið frábærir. Þeir kalla nafn mitt á Anfield og stoppa mig úti á götu til að óska mér velfarnaðar. Þegar ég spilaði með Dortmund studdu áhangendurnir að sjálfsögðu vel við bakið á okkur en aðdáendur Liverpool eru mun blóðheitari."
Aðspurður um vonbrigði sín að vera ekki fastamaður í liðinu í þá leit Berger þannig á málið: "Ég byrjaði tímabilið mjög vel og skoraði nokkur mörk en ég vissi að það yrði alltaf erfitt að halda þannig áfram. Ég hef því miður ekki verið nógu duglegur að skora að undanförnu. Ég er engin markamaskína eins og Robbie Fowler. En það eru 20 toppleikmenn hjá þessum klúbb og það er ómögulegt fyrir alla leikmenn að byrja inná í öllum leikjum tímabilsins. Auðvitað vil ég taka þátt í hverjum einasta leik en þá ákvörðun tekur Roy Evans og maður verður að taka henni. Ég ber mikla virðingu fyrir Evans og ákvörðunum hans. Allir leikmenn þurfa að glíma við ákveðið tímabil er þeir komast ekki í liðið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að standa í því og eflaust ekki það síðasta. Ég er sannfærður um að ég eigi eftir að standa mig vel hjá Liverpool og ég mun sanna það í framtíðinni."
Næstu leiktíð var hann ekki í náðinni en fékk í upphafi tækifæri á að festa sig í sessi er hann valinn í byrjunarliðið gegn Aston Villa 22. september. Aðeins tveimur vikum síðar skoraði hann glæsilega þrennu í 4:2 sigri á Chelsea á Anfield og í næsta leik skoraði hann í 0:2 útisigri gegn W.B.A. í deildarbikarnum. En þá meiddist kappinn og fór að halla undan fæti. Er hann byrjaði að leika aftur gerði hann slæm mistök sem leiddu til sigurmarks Barnsley á Anfield og hann var tekinn úr liðinu. Þetta var örvæntingarfullur tími fyrir Berger sérstaklega vegna þess að Tékkland tilheyrði ekki Evrópusambandinu og þurfti hann því að leika í 75% leikja Liverpool á tímabilinu til þess að fá atvinnuleyfið framlengt: "Ef ég leik ekki í 75% af leikjum Liverpool, þá þarf ég að pakka niður. Mig langar að vera áfram í Englandi. Við eigum fallegan völl og bestu aðdáendur í heimi."
Ástandið átti ekki eftir að skána. Eftir áramót var hann aðeins einu sinni í byrjunarliðinu, í síðari leik Liverpool og Middlesbrough í undanúrslitum deildarbikarsins á Riverside. Liverpool lenti snemma 2:0 undir og tapaði samanlagt 3:2 og missti af ferð á Wembley. Patrik þótti slakur í leiknum eins og flestir félagar hans og bekkurinn hlutskipti hans senn sem áður. Mörk Berger gegn Chelsea reyndust þegar uppi var staðið einu mörkin hans á tímabilinu í deildinni. Berger var ekki skemmt og neitaði að sitja á bekknum í leik liðsins gegn Bolton í marsmánuði. Berger fékk leyfi frá Evans til þess að fara til heimkynna sinna í Prag til þess að hugleiða framtíð sína.