Patrik Berger



Leikmaður septembermánaðarBerger kom til Liverpool 1. ágúst en gat ekki spilað strax vegna meiðsla í kálfa. Undir lok ágústmánaðar lék hann sinn fyrsta leik fyrir varaliðið gegn Nottingham Forest á Anfield. Tæplega tíu þúsund áhorfendur urðu vitni að því þegar boltinn small í netinu eftir skot Berger af 20 metra færi á 64. mínútu leiksins. Aðdáendur Liverpool biðu í eftirvæntingu eftir að sjá Berger þreyja frumraun sína með aðalliðinu. Liverpool átti næst leik við Coventry og var Berger á bekknum ásamt Jamie Redknapp, John Scales og Neil Ruddock sem voru allir að jafna sig eftir meiðsli. Berger kom ekki inná en beið rólegur eftir sínu tækifæri: "Ég vil auðvitað fyrir alla muni leika með liðinu en þegar þú ert í stórum leikmannahópi með fjölda klassaleikmanna þá er erfitt að komast í liðið. Ég bjóst ekki við því að komast í byrjunarliðið en þótti leitt að ég skyldi ekki koma inná en ég er ekki svekktur því að liðið er ósigrað og leiddi leikinn gegn Coventry." Patrik lék loks sinn fyrsta leik 7. september þegar hann kom inná sem varamaður undir lok 2:1 sigurs Liverpool á Southampton á Anfield. En næstu fjórir leikir hans voru ævintýri. Hann kom inná sem varamaður fyrir Stan Collymore í hálfleik gegn Leicester á Filbert Street og skoraði tvisvar með bylmingsskotum í 0:3 sigri. Stuðningsmenn Liverpool höfðu varla séð önnur eins þrumuskot frá dögum Jimmy Case og Graeme Souness. Fagnaðarlæti kappans og leikgleði komu honum strax í dýrlingatölu og Heilagur Patrekur var skapaður. Leikmaður septembermánaðarÍ næsta leik lék Patrik með Tékkum og skoraði tvisvar í öruggum sigri Tékka á Möltu. Laugardaginn eftir var Patrik í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool þegar Chelsea kom í heimsókn á Anfield Road. Berger var stillt upp frammi eins og allajafna í stjórnartíð Evans. Liverpool vann stórsigur 5:1 og Tékkinn skoraði tvö mörk. Næsti leikur var heimaleikur í Evrópukeppni bikarhafa gegn finnska liðinu MyPa 47. Liverpool vann 3:1 og Patrik skoraði glæsimark. Hann var valinn leikmaður mánaðarins í úrvalsdeildinni fyrsta mánuð sinn hjá Liverpool sem var óvenju glæsilegur árangur. Glenn Hoddle nýráðinn landsliðsþjálfari Englendinga var einn nefndarmanna: "Hann hefur sett sterkan svip á lið sitt þrátt fyrir að vera umkringdur stjörnuleikmönnum og segir það mikið um hæfileika hans." John Barnes var spenntur fyrir framtíð Berger: "Segjum sem svo að við séum ánægðir að hafa hann í okkar liði. Örvfættir leikmenn eru oft einstakir og hann lítur svo sannarlega út fyrir að vera einstakur. Hann hittir boltann svo vel. Þegar hann skaut að marki Leicester þá vissi ég um leið og hann reiddi vinstri fótinn til höggs að boltinn myndi enda í markinu. Hann er heimsklassaleikmaður en það er of snemmt að segja til um hvort hann verði einn af goðsögnum Liverpool en hann hefur alla burði til þess."

Berger fagnar glæsilegri þrennu gegn Chelsea Berger var nú orðinn einn vinsælasti leikmaður Liverpool eftir þessa mögnuðu byrjun en ef til vill var byrjunin of góð. Patrik missti fljótlega sæti sitt í liðinu vegna meiðsla og gengi hans þegar hann fékk aftur tækifæri var óstöðugt. Hann hafði þó skorað níu mörk í lok leiktíðar.

Patrik tók ekki hlutskipti sínu þegjandi og hljóðalaust og bankaði á dyr skrifstofu Roy Evans: "Hann vildi vita út af hverju hann var ekki í liðinu", sagði Evans. "Hann var ekki ánægður með að vera einungis á bekknum og leitaði skýringa. Fyrstu orðin sem útlendingur lærir eru yfirleitt blótsyrði og hann hefur kallað mig einu eða tveimur nöfnum. Það væri undarlegt ef hann væri sáttur við núverandi hlutskipti sitt en hann verður að sýna þolinmæði. Hann er mjög hæfileikaríkur strákur og þegar hann verður búinn að finna fjölina sína verður erfitt að bola honum út úr byrjunarliðinu. En Patrik leið hins vegar vel í Liverpoolborg: "Það er alltaf erfitt að flytja á nýjar slóðir en fólkið hérna í Liverpool hefur lagt sig fram um að auðvelda mér lífið. Aðdáendurnir hafa verið frábærir. Þeir kalla nafn mitt á Anfield og stoppa mig úti á götu til að óska mér velfarnaðar. Þegar ég spilaði með Dortmund studdu áhangendurnir að sjálfsögðu vel við bakið á okkur en aðdáendur Liverpool eru mun blóðheitari."

Aðspurður um vonbrigði sín að vera ekki fastamaður í liðinu í þá leit Berger þannig á málið: "Ég byrjaði tímabilið mjög vel og skoraði nokkur mörk en ég vissi að það yrði alltaf erfitt að halda þannig áfram. Ég hef því miður ekki verið nógu duglegur að skora að undanförnu. Ég er engin markamaskína eins og Robbie Fowler. En það eru 20 toppleikmenn hjá þessum klúbb og það er ómögulegt fyrir alla leikmenn að byrja inná í öllum leikjum tímabilsins. Auðvitað vil ég taka þátt í hverjum einasta leik en þá ákvörðun tekur Roy Evans og maður verður að taka henni. Ég ber mikla virðingu fyrir Evans og ákvörðunum hans. Allir leikmenn þurfa að glíma við ákveðið tímabil er þeir komast ekki í liðið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að standa í því og eflaust ekki það síðasta. Ég er sannfærður um að ég eigi eftir að standa mig vel hjá Liverpool og ég mun sanna það í framtíðinni."

Næstu leiktíð var hann ekki í náðinni en fékk í upphafi tækifæri á að festa sig í sessi er hann valinn í byrjunarliðið gegn Aston Villa 22. september. Aðeins tveimur vikum síðar skoraði hann glæsilega þrennu í 4:2 sigri á Chelsea á Anfield og í næsta leik skoraði hann í 0:2 útisigri gegn W.B.A. í deildarbikarnum. En þá meiddist kappinn og fór að halla undan fæti. Er hann byrjaði að leika aftur gerði hann slæm mistök sem leiddu til sigurmarks Barnsley á Anfield og hann var tekinn úr liðinu. Þetta var örvæntingarfullur tími fyrir Berger sérstaklega vegna þess að Tékkland tilheyrði ekki Evrópusambandinu og þurfti hann því að leika í 75% leikja Liverpool á tímabilinu til þess að fá atvinnuleyfið framlengt: "Ef ég leik ekki í 75% af leikjum Liverpool, þá þarf ég að pakka niður. Mig langar að vera áfram í Englandi. Við eigum fallegan völl og bestu aðdáendur í heimi."
Ástandið átti ekki eftir að skána. Eftir áramót var hann aðeins einu sinni í byrjunarliðinu, í síðari leik Liverpool og Middlesbrough í undanúrslitum deildarbikarsins á Riverside. Liverpool lenti snemma 2:0 undir og tapaði samanlagt 3:2 og missti af ferð á Wembley. Patrik þótti slakur í leiknum eins og flestir félagar hans og bekkurinn hlutskipti hans senn sem áður. Mörk Berger gegn Chelsea reyndust þegar uppi var staðið einu mörkin hans á tímabilinu í deildinni. Berger var ekki skemmt og neitaði að sitja á bekknum í leik liðsins gegn Bolton í marsmánuði. Berger fékk leyfi frá Evans til þess að fara til heimkynna sinna í Prag til þess að hugleiða framtíð sína.

TIL BAKA