Patrik Berger

Berger ólst upp í mikilli íþróttafjölskyldu. Faðir hans Ferdinand, var knattspyrnumaður en náði ekki langt í boltanum en föðurbróðir Patrik, Jan, var hetja í heimalandinu og var tvisvar valinn leikmaður ársins í Tékkóslóvakíu. Patrik var á mála hjá virtasta knattspyrnuliðinu þar í landi, Sparta Prag, þar til hann varð 17 ára. Berger varð Evrópumeistari með u-16 ára liði Tékkóslóvakíu er þeir unnu Júgóslavíu 3-2 í úrslitaleik Evrópukeppni u-16 ára landsliða í Austur-Þýskalandi árið 1990. Tékkóslóvakía var 0-2 undir en tveim mínútum fyrir leikslok kom þriðja mark Tékkóslóvakíu og sigurmark leiksins. Berger rifjar upp upphaf ferilsins: "Erkifjendur þeirra Slavia gripu tækifærið og buðu mér atvinnumannasamning. Ég lék með Slavia í fjögur ár. Við lentum þrisvar sinnum í öðru sæti í deildinni og í hvert einasta skipti var Sparta fyrir ofan okkur." Lið Sparta var sterkt og státaði meðal annars af Vladimir Smicer, Jan Suchoparek og Karel Poborsky.
Uppáhaldsmarkið sitt á ferlinum hingað til skoraði hann í deildarleik gegn Hradeckralove: "Ég hef skorað nokkur glæsimörk á ferli mínum með Liverpool en þetta mark var flottara en önnur vegna þess að þegar skotið flaug í markið kom það mér meira að segja á óvart. Við fengum aukaspyrnu af um 35 metra færi hægra megin. Ég ákvað að láta vaða og skaut með vinstri fæti í fjærhornið. Skotið var svo nákvæmt að boltinn festist í skeytunum! Ég efast um að mér myndi takast það aftur þó að ég myndi reyna hundrað sinnum."

"Ég gekk til liðs við Dortmund árið 1995. Umboðsmaður minn býr í Þýskalandi og hafði víðtæk sambönd þar og þess vegna fór ég til Þýskalands. Ég hefði getað farið til Kaiserslautern en þjálfari Dortmund Ottmar Hitzfeld, sem er nú hjá Bayern Munchen, vildi að ég myndi leika fyrir aftan framherjana í liði hans. Hann hyggðist byggja sterkt lið sem gæti veitt Baeyrn samkeppni og standa sig vel í Evrópukeppnunum." Berger vann þýska meistaratitillinn eina tímabil Berger en hann var einungis tólfti maður í liðinu. Dortmund náði loks markmiði sínu er það lagði Juventus af velli í úrslitum meistaradeildarinnar árið 1997 en þá var Berger á bak og burt. Tveimur mánuðum eftir komu Berger til Dortmund vildi Hitzfeld láta hann spila varnartengilið og eins og Berger orðaði það "sem er alls ekki mín staða." Berger lét umboðsmann sinn vita að hann undi ekki við þetta lengur og væri á förum frá félaginu.

Berger fór á kostum í undankeppni Evrópukeppni landsliða sem var í Englandi 1996 og var markahæstur Tékklendinga með 6 mörk í 8 leikjum. Meiðsli komu í veg fyrir að hlutverk hans yrði stærra í úrslitakeppninni. Honum var yfirleitt skipt útaf eða kom inná í hálfleik. En Berger lék einn heilan leik og það var í mikilvægasta leiknum. Úrslitaleikurinn gegn Þjóðverjum var spennandi og Berger náði forystunni fyrir Tékka á 59. mínútu er hann þrumaði í markið úr vítaspyrnu en það dugði ekki til gegn Þjóðverjunum sem fóru með sigur af hólmi með gullmarki Oliver Bierhoff: "Þegar ég skoraði úr vítaspyrnunni sem kom okkur yfir í úrslitaleiknum á Wembley áttum við góða möguleika á sigri. En jafnvel þó að við töpuðum 2-1 vorum við allir stoltir af árangri okkar. Silfurmedalíurnar voru sem gull í okkar augum. Daginn fyrir úrslitaleikinn sagði umboðsmaðurinn minn mér frá áhuga Liverpool. Mér líkaði dvölin í Englandi og þegar umboðsmaðurinn minn sagði að hann og Liverpool höfðu komist að samkomulagi um kaupin á mér og Liverpool og Dortmund ættu bara eftir að semja um kaupverðið þá gerði ég upp huga minn á staðnum að ég myndi skrifa undir samninginn."

"Það hefur verið draumur minn frá barnæsku að leika með Liverpool. Þegar ég var tveggja eða þriggja ára fór vinur pabba til Liverpool og sá Liverpool leika gegn Q.P.R. Þegar hann kom heim úr ferðinni gaf hann mér leikskrána, aðgöngumiðann og Liverpool trefil. Ég á miðann ennþá. Ég hef alltaf fylgst með úrslitum leikja með Liverpool og þegar ég var í Þýskalandi sá ég liðið oft í sjónvarpinu. Kenny Dalglish var uppáhaldsleikmaður minn á yngri árum. Hann hafði frábæra tækni og skoraði falleg mörk."

TIL BAKA