Robbie Fowler

Árið 2001 byrjaði ekki vel hjá fyrirliðanum. Liverpool Football Club sendi frá sér fréttatilkynningu 2. janúar vegna meiðsla sem Fowler hlaut fyrir utan Wonder bar í miðbæ Liverpool um miðja nótt: "Robbie Fowler varð fórnarlamb algjörlega tilefnislausrar árásar í gærkvöldi. Þó að hann hafi ekki meiðst alvarlega þá er Robbie augljóslega í miklu uppnámi. Málið er nú í höndum lögreglunnar og Liverpool stendur fullkomlega að baki Robbie." Sögur fóru á kreik að hann væri kominn útaf sporinu aftur en málið horfði aðeins öðruvísi við þegar fréttist að Robbie hafði verið með eiginkonunni og vinafólki sínu í mesta sakleysi þegar árásin átti sér stað. Meiðsli í andliti komu í veg fyrir þátttöku hans í næstu leikjum. "Síðastliðnar tvær vikur hafa ekki verið þær auðveldustu á ferli mínum en sá stuðningur sem ég hef fengið frá aðdáendum Liverpool hefur verið einstakur. Það var frábært að heyra þá kyrja nafn mitt á Aston Villa leiknum jafnvel þó að ég væri ekki einu sinni í hópnum. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir sýna mér stuðning sinn í verki þegar ég hef verið utan eldlínunnar. Ég get varla lýst með orðum hversu mikla vellíðan þetta veitir mér. Stuðningur þeirra hvetur mig áfram til dáða og kemur í veg fyrir að maður verði niðurdreginn. Ég spjara mig ágætlega og sætti mig við ákvarðanir framkvæmdastjórans þegar hann velur í liðið þó að ég sé ekki eins mikið inn í plönum hans eins og ég vildi vera. En nú er það undir mér komið að leggja aðeins harðar að mér og vera jákvæður. Vonandi verður viðhorf mitt til þess að framkvæmdastjórinn álíti að ég eigi skilið sæti í liðinu."

Einn besti leikur Fowler á tímabilinu var skammt undan. 3. febrúar mætti West Ham til Anfield og Fowler var í banastuði. Liverpool hafði Keegan, Dalglish og Barnes sem gátu bæði lagt upp mörk og skorað þau og oftar en ekki gerðu gæfumuninn um hvort að Liverpool stæði upp sem sigurvegari eða ekki. Liverpool hefur aldrei fagnað meistaratitli með Robbie Fowler innanborðs en hingað til hafði hann verið frekar þekktur fyrir að skora mörk en að skapa þau fyrir aðra. Fowler virtist nú orðinn betri alhliða leikmaður og ef svo heldur fram sem horfir þá gæti hann orðið sá lykilmaður sem Liverpool þarf til að hampa meistaratitli eða titlum næstu árin í ensku úrvalsdeildinni. Houllier var ánægður með framlag Fowler gegn West Ham og sá að það er komið að tímamótum á ferli hans: "Robbie er að hefja nýjan feril og að sjálfsögðu er ég stoltur af árangri hans. Þegar leikmaður á í erfiðleikum og efast um getu sína þá þarf hann á hjálp framkvæmdastjóra síns að halda. Framfarir hans síðustu tvo mánuði hafa verið ótrúlegar. Ég hika ekki við að fullyrða að Robbie hefur ekki leikið svo vel í langan tíma. Hann er að nálgast sitt besta form. Hann kláraði færin sín vel, hreyfingar hans voru góðar og sendingar hans nákvæmar. Ferill hans er kominn á skrið á ný." Fowler skoraði þrjú mörk reyndar gegn West Ham en dómarinn taldi að boltinn hafi farið yfir endalínuna áður en Smicer gaf á Fowler og hann skoraði sitt þriðja mark. Robbie var hógvær að venju en leyfði sér þó aðeins að láta glitta í húmorinn margfræga: "Vladimir sagði að þriðja markið hefði átt að gilda því að boltinn hafði aldrei farið útaf. Ég hefði skorað þrennu en ég á þegar svo mikið af boltum sem ég hef fengið þegar ég hef skorað þrennur. Pabbi minn yrði ekki ánægður með að fá fleiri bolta því að þeir taka svo mikið pláss. Menn hafa velt vöngum yfir því að undanförnu hvort að ég komist aftur í mitt besta form. Allavega finnst mér að ég sé að nálgast mitt gamla form."

Liverpool bar sigurorð af Crystal Palace í undanúrslitum deildarbikarsins en mörgum fannst miður að úrslitaleikir á Wembley tilheyrðu sögunni í bili. Úrslitaleikir um F.A. bikarinn, Deildarbikarinn og leikir um Góðgerðaskjöldin verða næstu þrjú árin leiknir á Árþúsundavellinum í Cardiff. Á meðan verður nýr Wembleyleikvangur reistur á grunni þess gamla. En Robbie var efst í huga að Liverpool var við þröskuld þess að vinna stórtitil: "Okkur er alveg sama hvar úrslitaleikurinn fer fram. Hann mætti fara fram á túnbletti úti í sveit eða almenningsgarði okkar vegna. Úrslitaleikur er úrslitaleikur sama hvar hann fer fram. Það eina sem kemst að hjá okkur er að vinna Deildarbikarinn og tækifærið til þess verður á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff sunnudaginn 25. febrúar."

Gerard Houllier hældi fyrirliðanum sínum, Robbie Fowler, á hvert reipi eftir frammistöðu hans í úrslitaleiknum  gegn Birmingham. Þessi magnaði framherji sannaði enn og aftur að hann var búinn að ná sér fullkomlega af meiðslunum með því að skora stórkostlegt mark í fyrri hálfleik og Houllier var ekki lengi að koma fram og hrósa kappanum, sem viðurkennir að hann hafi verið á tímabili orðinn svartsýnn á feril sinn hjá liðinu fyrir nokkrum mánuðum: "Ég veit hvað Robbie þurfti að ganga í gegnum á síðasta tímabili, vegna þess að í hvert skipti sem ég hitti hann, þá var hann í sjúkraþjálfun. Það getur verið mjög erfitt andlega fyrir alla leikmenn, hvaða nafni sem þeir heita. En hann hefur lagt gríðarlega hart að sér og nú er hann kominn í gott form og frammistaða hans á vellinum er mikið betri. Hann var kjörinn maður leiksins í dag og það segir allt sem segja þarf, hann var stórkostlegur". Robbie hafði boðið aðalfyrirliða Liverpool Jamie Redknapp að taka við bikarnum en Jamie taldi það ekki við hæfi: "Það var vinsamlegt af Robbie að hvetja mig til að taka við bikarnum en mér fannst rétt að hann ætti að lyfta honum. Hann var frábær í leiknum, skoraði stórkostlegt mark og átti það skilið. Ef ég hefði misst úr einungis 2-3 leiki eins og Danny Murphy þá hefði verið viðeigandi að ég hefði tekið við bikarnum en ég hef ekki leikið neitt á þessu tímabili... En reynið bara að stöðva mig þegar næsti bikar fer á loft."

Athyglisverð lesning var á heimasíðu Fowler nokkrum dögum síðar um samskipti hans og Houllier: "Það hefur verið greint ítarlega frá því að önnur félög höfðu áhuga á mér en Gerard Houllier var sá fyrsti sem sagði mér að ég væri ekki að fara neitt. Þetta var það sem ég vildi heyra. Það gefur manni svo mikið sjálfstraust og hvatningu að heyra að stjórinn vill ennþá hafa mann og hefur ennþá trú á manni. Hann hefur verið frábær við mig. Sumir vilja alltaf afskrifa mann þegar hlutirnir ganga ekki eins og þeir eiga að gera, en ég viðurkenni það fyrstur manna þegar ég leik ekki vel. Ég hef lagt mjög hart að mér við æfingar síðustu 2-3 mánuðina og ég held að það sé að borga sig núna því ég tel að mér hafi ekki gengið svo illa í síðustu leikjum. Reyndar var það stjórinn sem sagði mér að ég þyrfti að æfa meira. Við tveir höfum hist nokkrum sinnum þar sem hann hefur sest niður með mér og sagt hvað ég eigi að gera. Ég er ekki heimskur; ég hlusta á fólk sama hverju þið trúið og ég hef hlustað á stjórann." Var svo einhver að segja einhvern tímann að Houllier vildi losna við Fowler?

Annar toppur á tímabilinu var þegar Man Utd var örugglega af velli á Anfield 2:0 31. mars. Fowler skoraði seinna mark Liverpool með góðu skoti eftir að hafa leikið snilldarlega á Gary Neville. Stemmningin í herbúðum Liverpool var gríðarleg og allir vegir færir. Vinsældir Fowler meðal aðdáenda Liverpool höfðu síður en svo dalað í gegnum árin og var það auðkennt á stórkostlegri afmæliskveðju í staðarblaðinu The Kop: "9. apríl 1975: Það var þrútið loft yfir Merseyside þennan dag. En allt í einu braut bjartur og fagur ljósgeisli sér leið í gegnum skýjaþykknið og lýsti niður á Toxteth úthverfi Liverpoolborgar. Vegfarendur litu í átt að ljósinu í forundran. Aðeins nokkrir útvaldir sáu geislabaug fylgja ljósgeislanum og setjast yfir höfði nýfædds sveinbarns..... Til hamingju með afmælið Robbie!" Fowler hafði haldið upp á afmælið sitt deginum áður með frábærri aukaspyrnu gegn Wycombe í undanúrslitum FA-bikarsins. Vallarvörðurinn dróst meira að segja inn í ærslafull fagnaðarlæti Fowler!

Fowler lauk tímabilinu með stæl. Hann varð að sætta sig við að vera á varamannabekknum í úrslitaleiknum gegn Alaves í Evrópukeppni félagsliða 16. maí rétt eins og gegn Arsenal í úrslitum FA-bikarsins fjórum dögum áður. Staðan var 3-3 þegar Fowler kom inná í Dortmund á 64. mínútu og níu mínútum síðar leitaði Fowler færis, lék á tvo varnarmenn og búmm! 4-3!!!! Það var skammt stórra högga á milli og síðasti deildarleikurinn gegn Charlton var eftir. Meistaradeildarsæti var í húfi. Liverpool átti í erfiðleikum í fyrri hálfleik en í þeim síðari gaf Fowler tóninn er hann klippti boltann glæsilega í netið og bætti síðan við þriðja marki Liverpool á á 71. mínútu. Robbie Fowler var kominn aftur í sitt gamla form!

Tímabil Leikir Mörk
1993-94  34 18
1994-95  57 31
1995-96  53 36
1996-97  44 31
1997-98  28 13
1998-99  35 18
1999-00 14 3
2000-01  48 17
2001-02  17 4
Samtals  330 171

TIL BAKA