Robbie Fowler

Fowler skrifaði undir atvinnumannasamning á 17 ára afmælisdegi sínum: "Kenny Dalglish var framkvæmdastjóri þegar ég skrifaði undir hjá Liverpool. Þegar ég var að æfa þar sem skólastrákur skutlaði Kenny mér stundum heim af æfingum. Ég gat ekki beðið eftir því að fara í skólann daginn eftir og segja frá því. Steve Heighway var yfir þjálfun unglinganna rétt eins og í dag og var mjög góður við mig og hjálpaði mér heilmikið. Hann settist oft niður með mér og ræddi hlutina og gaf mér mikið af hollráðum sem hafa síðan komið í góðar þarfir."

Fowler fékk smjörþefinn af aðalliðinu í lok leiktíðar 1992-93 þegar hann sat á bekknum gegn Bolton í bikarnum og í lokaleik tímabilsins þegar Liverpool valtaði yfir Tottenham 6-2. Hann sló svo í gegn á alþjóðavettvangi um sumarið með enska U-18 ára landsliðinu er þeir urðu Evrópumeistarar. Robbie byrjaði keppnina á bekknum en stóð uppi á endanum sem markahæsti maður mótsins með 5 mörk í 4 leikjum. Um haustið var röðin komin að stráknum að láta að sér kveða í ðalliði Liverpool og það gerði hann svo sannarlega.

Fowler lék fyrsta leik sinn með aðalliði Liverpool í 3-1 sigri á Fulham í Coca Cola Cup 22. september. Hann skoraði að sjálfsögðu í leiknum og gerði sér svo lítið fyrir og skoraði fimm mörk og jafnframt öll mörk liðsins í 5-0 sigri í seinni leik liðanna tveimur vikum síðar. Fyrsti deildarleikur Robbie var í treyju nr. 11 og andstæðingarnir voru Chelsea. Liverpool var í 13. sæti deildarinnar og hafði tapað 3 deildarleikjum í röð. En nærvera Robbie í byrjunarliðinu kom ekki í veg fyrir fjórða tapið í röð. Hann lék í 0-0 jafntefli gegn Arsenal og skoraði sitt fyrsta deildarmark í næsta leik gegn Oldham í 2-1 sigri. Fowler skoraði fyrstu þrennuna sína fyrir Liverpool gegn Southampton í aðeins sínum fimmta deildarleik. Alls skoraði Robbie 13 mörk í 15 fyrstu leikjum sínum fyrir Liverpool og fyrir þá sem þekktu ekki til hans þegar þá var greinilegt að hér var enginn venjulegur drengur á ferðinni. Fowler var valinn í fyrsta skipti í u-21 árs landsliðið fyrir leik gegn San Marínó í nóvember og það tók hann einungis þrjár mínútur að skora sitt fyrsta mark fyrir u-21 árs lið Englands.
Ökklinn á Robbie brotnaði í bikarleik gegn Bristol City og var hann frá keppni frá miðjum janúar til byrjun mars. Hann skoraði einungis 3 mörk í þeim 11 leikjum sem eftir voru af tímabilinu er hann steig upp úr meiðslunum en þetta var engu að síður góður árangur hjá þessum pilti á sínu fyrsta ári í úrvalsdeild. Árangur hans var nánast einstæður. Fowler lauk tímabilinu með jafnmörg mörk og goðsögnin Ian Rush með 18 mörk en hafa ber í huga að Fowler lék færri leiki.

TIL BAKA