Robbie Fowler

Robbie var búinn að aflita hárið og mætti því með ljósan koll til leiks í upphafi tímabils. Hann var einnig búinn að fá nýjan samherja í framlínunni, Stan Collymore. En í tveim fyrstu leikjunum á tímabilinu 1995/96 stillti Evans upp Rush og Collymore saman í framlínunni og langmarkahæsti leikmaður Liverpool á síðustu leiktíð varð að sætta sig við að koma inná sem varamaður í báðum leikjunum. Collymore var síðan frá í 2 leiki vegna meiðsla og Robbie fékk sitt sæti að nýju, þakkaði kærlega fyrir sig með 11 mörkum í 11 leikjum og sleppti sæti sínu ekki sem eftir var leiktíðar.
Desembermánuður var eftirminnilegur fyrir Fowler er öflugustu liðin á Englandi fengu ærlega að finna fyrir því. Peter Schmeichel mátti hirða boltann tvisvar úr netinu hjá sér í 2-0 sigri Liverpool og í næsta deildarleik var röðin komin af David Seaman að sjá Robbie Fowler skora aðra þrennu hjá sér annað tímabilið í röð. Mark Bosnich var búinn að fá nóg af Fowler sem skoraði 2 mörk á 3 mínútum gegn honum í byrjun marsmánaðar en hann var ekki búinn að sjá það síðasta frá stráknum snjalla er tvö mörk sigldu framhjá honum í undanúrslitum F.A. bikarsins í lok mars og annað 3-0 tap gegn Liverpool staðreynd. Seinna mark Fowler var sérlega glæsilegt. Skot utan frá hægra vítateigshorni efst í markhornið fjær, stöng og inn.
Leikurinn sem gleymist aldrei hjá öllum púllurum var leikinn 3. apríl 1996. Andstæðingarnir voru Newcastle og tvö mörk frá Fowler og sigurmark Collymore sem breytti stöðunni í 4-3 rétt áður en flautað var til leiksloka var sem töfrum líkast. Framundan var úrslitaleikur gegn Man Utd í FA Cup en leikurinn olli vonbrigðum og Fowler mátti sætta sig við 0-1 tap en leikurinn var enn athyglisverðari fyrir þær sakir að þetta var lokaleikur goðsagnar í treyju Liverpool. Ian Rush hafði reynst Fowler góður kennari undanfarin ár og stutt hann með ráðum og dáðum frá því að Fowler kom á sjónarsviðið.
Enn einu glæsilegu tímabili var lokið hjá Fowler. Hann var aftur valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar og aðeins annar leikmaðurinn í sögu deildarkeppninnar í Englandi sem hlýtur þann heiður tvö ár í röð. Hann hafði slegið met sitt frá tímabilinu á undan og alls skoraði hann 36 mörk. Þeir sem höfðu mest fengið að kenna á honum lágu ekki á áliti sínu á snillingnum:
Alex Ferguson: "Hann er mjög snöggur og þú verður að hafa svo góðar gætur á honum því að ef þú blikkar augunum á röngu augnabliki, þá mun hann skora."

Mark Bosnich: "Hann hittir yfirleitt markið í 10 skipti af hverjum 10 og í 9 af 10 tilvikum skýtur hann í markhornið. Það er nánast ómögulegt að ráða við hann."

Arsene Wenger: "Fowler mun alltaf skora mörk og skiptir engu máli hver andstæðingurinn er. Hann er leikmaður í heimsklassa."

Roy Evans var hæstánægður með piltinn: "Hann er með hæfileika frá náttúrunnar hendi til að skora mörk. Hann er hrokafullur og gráðugur sem eru góðir eiginleikar framherja." Fowler lék loksins sinn fyrsta landsleik er hann kom inná gegn Búlgaríu 27. mars 1996. Hann lék svo í fyrsta skipti í byrjunarliðinu gegn Króatíu 24. apríl og hafði ærna ástæðu til að vera bjartsýnn á að vera valinn í landsliðshóp Terry Venables sem tók þátt í Evrópukeppni landsliða á Englandi í júní. Fowler fékk ósk sína uppfyllta en Shearer og Sheringham náðu vel saman í framlínunni og Fowler varð að láta nægja sér aukahlutverk í keppninni. Hann kom loks inná í þriðja leik liðsins og jafnframt einum besta landsleik Englendinga í sögunni er þeir unnu Hollendinga 4-1. Sheringham sem hafði skorað tvö mörk í leiknum var tekinn útaf á 75. mínútu fyrir Fowler. Hann kom inná í átta liða úrslitum gegn Spáni er tíu mínútur voru eftir af framlengingu en leiknum lauk með sigri Englendinga í vítaspyrnukeppni. Fowler varð síðan þola að horfa upp á Þjóðverja slá út Englendinga í vítaspyrnukeppni. Besta tímabili Fowlers var lokið og kappinn kominn í langþráð sumarfrí.

TIL BAKA