Robbie Fowler

Robbie hristi af sér slenið og kom öllum á óvart er hann steig upp úr meiðslunum þrem mánuðum áður en reiknað var með. 15. september kom hann inná gegn Kosice frá Slóvakíu í Evrópukeppninni og var ekki búinn að vera inná nema í 17 sekúndur þegar hann átti stungusendingu á Owen sem skoraði. Mark Leather sjúkraþjálfari Liverpool var við hlið Robbie Fowler síðan hann kraup við hlið Fowler á Goodison Park, keyrði hann á sjúkrahúsið og sat yfir honum á meðan 4 tíma uppskurður á hnénu fór fram. Síðan liðu 253 dagar þangað til hann kom inná gegn Kosice. Leather var hreykinn af stráknum: "Hann var til fyrirmyndar og hann þurfti litla hvatningu við endurhæfinguna. Hann lagði hart að sér frá fyrsta degi og hefur sýnt meiri þroska en hægt var að ætlast til af svo ungum manni. Sjúkraþjálfarinn getur einungis hvatt leikmanninn til þess að fylgja því endurhæfingarprógrammi sem hann leggur fyrir hann. Það var svo í höndum Robbie að sýna þann aga og þroska til þess að fylgja prógramminu dag eftir dag. Þessi meiðsli voru kannski til þess að koma honum á rétta braut að nýju, ég hef aldrei séð hann svo grannan. Hann hefur lagt svo mikið á sig að hann hefur ábyggilega aldrei verið í eins góðu formi. 

Knattspyrnumenn lifa stundum hratt og þegar þeir meiðast, neyðast þeir til þess að hægja á sér og gefst því það tóm til þess að endurmeta líferni sitt. Þeir átta sig á að það sem þeir tóku fyrir vísan hlut, getur horfið á einu augnabliki. Þeir elska fótbolta og þegar þeir snúa aftur, þá er oft meira hungur til staðar hjá þeim og það á svo sannarlega við Robbie. Fowler mun nú fylgja eigin prógrammi ásamt því að ég fylgist með honum til þess að bæta alhliða snerpu. Hann mun, ef allt fer eftir áætlun, vera kominn í toppform í byrjun desember. Ég verð feginn þegar hann verður búinn að ná fullri snerpu, því að þá losna ég loksins við hann!"

Fowler skoraði tvö mörk í næsta leik gegn Charlton og tíu dögum síðar önnur tvö í seinni leiknum gegn Kosice. Fowler skoraði ekki í næstu þremur leikjum og var hvíldur enda vantaði talsvert upp á snerpuna. 10. nóvember var Evans búinn að vera og Gerard Houllier einn við stjórn með Phil Thompson sér við hlið. Fyrsti leikurinn undir þeirra stjórn var gegn Leeds á Anfield. Fowler skoraði eina mark Liverpool úr vítapyrnu um miðjan síðari hálfleik en Leedsarar gerðu út um leikinn með þremur mörkum á sjö mínútna kafla undir lok leiksins. Einn besti leikur Liverpool á tímabilinu fylgdi í kjölfarið gegn Aston Villa 21. nóvember. Snilldartaktar Fowler og glæsileg þrenna snillingsins glöddu augað. Hann skoraði hins vegar ekki í næstu 7 leikjum. Hann missti úr leikinn gegn Newcastle en Riedle reyndist vel í hans stað og skoraði tvö  mörk í 4-2 sigri. Fowler kom inná fyrir Riedle í næsta leik gegn Port Vale í 3. umferð FA Cup og skoraði á lokamínútunni. Tveimur vikum síðar 16. janúar skoraði Fowler aðra þrennu í 7-1 sigri á Southampton.

26. janúar skrifaði Fowler undir fimm ára samning sem var um 10 milljón punda virði. "Það hafa verið miklar vangaveltur í gangi um hvort að ég myndi skrifa undir ekki eða ekki. Það hefur aldrei verið vafamál í mínum huga vegna þess að ég er mjög hamingjusamur hérna og hefur aldrei hvarflað að mér að yfirgefa félagið. Gerard hefur verið frábær. Ég er sannfærður um að hann getur gert mig að betri leikmanni. Mér líkar vel við hann og hef alltaf stutt hann og hann hefur alltaf stutt mig sem er mjög mikilvægt. 1998 var erfitt ár fyrir mig og ég lít á undirskrift þessa samnings sem ákveðin tímamót. Við eigum bjarta framtíð fyrir höndum með núverandi mannskap. Við erum á uppleið og þess verður ekki langt að bíða að titlar bætist í safnið á Anfield. Gerard er enn að leita að leikmönnum til að styrkja hópinn. Nú verðum við að reyna að vinna eins marga leiki og mögulegt er og reyna allavega að komast í Meistaradeildina."

Houllier var í sjöunda himni: "Mér líkar mjög vel við Robbie bæði sem persónu og leikmann. Hann er einn af virtustu framherjum í heimi og það hefur mjög mikla þýðingu fyrir Liverpool Football Club að tryggja sér hæfileika hans í framtíðinni. Ég er mjög ánægður með þá tryggð sem hann sýnir liðinu sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum í kjölfar Bosman-málsins. Undirskrift hans er gríðarlega mikilvæg vegna þess að hann og Michael geta orðið besta framherjapar í heimi. Þeir eru tiltölulega nýbyrjaðir að leika saman og eru báðir ungir og eiga eftir að verða enn betri."

Nú tóku við 4 leikir án þess að Fowler kæmist á blað. En 27. febrúar varð allt vitlaust. Hann var kallaður til viðræðna hjá enska knattspyrnusambandinu fyrir að stríða Graeme Le Saux í leik gegn Chelsea með því að snúa afturendanum í hann og dilla honum og gefa sögusögnum að Le Saux væri samkynhneigður byr undir báða vængi. Fowler fékk að launum vænt högg í hnakkann er Le Saux kom aftan að honum. Fowler átti yfir höfði sér sekt og jafnvel leikbann en þá gerði hann snöggtum allt illt verra. Liverpool sigraði Everton 3-2 eftir fimm ára ströggl gegn erkifjendunum. Gamli Evertonaðdáandinn Fowler átti tvö markanna og var að sjálfsögðu himinlifandi og lagði áherslu á fögnuð sinn með því að leggjast á fjóra fætur og þykjast sniffa hliðarlínuna eins og kókaín til þess að svara fyrir þær ásakanir sem hann hafði þurft að þola árum saman frá aðdáendum Everton. Refsing hans var ansi forvitnileg. Hann var dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að vera barinn af Le Saux en Le Saux var dæmdur í eins leiks bann fyrir að berja Fowler aftan frá í hnakkann. Enska knattspyrnusambandið virðist afsaka gjörðir Le Saux vegna þess að Le Saux var ögrað, það er sem sagt sjálfsagt að ráðast á einhvern sé ýtt við manni. Formaður enska knattspyrnusambandsins David Davies, sagði að "Le Saux hafði brugðist við vegna langvarandi fyllyrðinga sem væru ekki á rökum reistar um að hann væri samkynhneigður." Það var enn forvitnilegra að herra Davies sagði að viðbrögð Fowler eftir fyrra mark sitt gegn Everton "megi rekja til langvarandi fullyrðinga sem væru ekki á rökum reistar að hann væri eiturlyfjasjúklingur." Fowler átti sér sem sagt engar málsbætur þrátt fyrir að honum að hafi verið ögrað sl. tvö ár af aðdáendum Everton, kallaður kókaínfíkill "smackhead" á götum úti. Það má ekki heldur gleyma því að Fowler brást mjög snöggt við eftir leik og baðst innilega afsökunar á gjörðum sínum: "Ég hagaði mér heimskulega og bið aðdáendur Everton afsökunar sem og aðdáendur Liverpool." Fowler fékk 32.000 punda sekt og sex leikja bann sem þýddi að enn öðru tímabili var lokið alltof fljótt fyrir Fowler.

Sögusagnir um meinta eiturlyfjaneyslu hans höfðu sett sitt mark á hann og hann íhugaði á tímabili alvarlega að biðja um sölu frá Liverpool: "Ég hugsaði með mér, ég þarf ekki að ganga í gegnum þetta. Ég gæti haft það betra einhvers staðar annars staðar. En ég settist niður með framkvæmdastjóranum og hann hreinsaði allar efasemdir úr hausnum á mér. Ég er orðinn 24 ára gamall núna og er ekkert smábarn lengur. Ég er nýorðinn faðir og orðinn varafyrirliði. Ég verð að sýna það og sanna að ég er orðinn ábyrgur einstaklingur."

TIL BAKA