Naby Keita

Fæðingardagur:
10. febrúar 1995
Fæðingarstaður:
Conakry, Gínea
Fyrri félög:
FC Istres, RB Salzburg, RB Leipzig
Kaupverð:
£ 48000000
Byrjaði / keyptur:
27. ágúst 2017
Upplýsingar á LFChistory.net
Skoða

Naby Keita er fæddur og uppalinn í Koleya, úthverfi höfuðborgar Gíneu sem heitir Conakry.  Borgin er á vesturströnd landsins við Atlantshafið.  Keita hóf knattspyrnuferilinn ungur að árum hjá Horoya AC sem er sigursælasta félags landsins ásamt nágrannaliðinu Hafia FC.

Áður en Keita náði að spila leik með aðalliði félagsins var ljóst að hæfileikar hans væru miklir og því fór hann til Frakklands eins og margir landar hans hafa gert í gegnum tíðina.  16 ára að aldri fór hann á reynslu til Lorient og Le Mans en þar fékk hann ekki samning eftir reynslutíma.  Það fór svo að lið í annari deild, Istres, gerði samning við hann.  Suðurstrandarliðið tók ákveðna áhættu með Keita en það borgaði sig strax í fyrsta leik þegar hann skoraði í 4-2 sigri á Nimes.

Fyrsta tímabil Keita í Frakklandi endaði með því að Istres féllu úr 2. deild en frammistaða hins unga Keita hafði vakið athygli fyrrum stjóra Liverpool, Gerard Houllier.  Frakkinn var þá yfirmaður hjá Red Bull og lagði það til að Salzburg, sem er í eigu orkudrykkjarframleiðandans, fengi Keita til liðs við sig.

Tímabilið 2014-15 var Keita orðinn landsliðsmaður Gíneu og það tímabil stimplaði hann sig inn sem einn efnilegasti leikmaður Evrópu.  Hann skoraði tuttugu mörk í 81 leik fyrir RB Salzburg þegar liðið vann austurríska meistaratilinn tvö ár í röð og bikarkeppnina einnig.  Hjá Salzburg eignaðist hann líka ágætan vin en Sadio Mané og Keita voru saman hjá félaginu í nokkra mánuði.

Keita ber Mané söguna vel:  ,,Fyrst um sinn var ég ekki í byrjunarliðinu og það var pirrandi. Mér líkaði það ekki og það gerði mér erfiðara að venjast öllu í nýju landi.  En Sadio sagði við mig:  ,,Litli bróðir, vertu rólegur.  Þú færð tækifæri og þegar það kemur, þá nýtir þú það til fulls."

Eftir tvö frábær tímabil í Austurríki eins og áður sagði var kominn tími fyrir Keita til að stíga næsta skref og það lá nokkuð beint við að færa sig um set til systurfélagsins RB Leipzig í Þýskalandi.  Á sínu fyrsta tímabili þar skoraði hann átta mörk í 31 leik og dugði það til þess að Jürgen Klopp vildi ólmur fá hann til liðs við Liverpool.  Eftir miklar vangaveltur sumarið 2017, þar sem um tíma leit út fyrir að Keita væri ekki á förum, festi Liverpool kaup á Keita en í kaupunum var kveðið á um að hann myndi spila eitt tímabil til viðbótar með Leipzig.  Hann gekk því formlega til liðs við Liverpool sumarið 2018.

Tölfræðin fyrir Naby Keita

Tímabil Deild Bikar Deildarbikar Evrópa Annað Alls
2018/2019 25 - 2 1 - 0 1 - 0 6 - 1 0 - 0 33 - 3
2019/2020 18 - 2 0 - 0 2 - 0 4 - 1 3 - 1 27 - 4
2020/2021 10 - 0 0 - 0 1 - 0 4 - 0 1 - 0 16 - 0
2021/2022 23 - 3 4 - 0 3 - 0 10 - 1 0 - 0 40 - 4
2022/2023 8 - 0 3 - 0 1 - 0 0 - 0 1 - 0 13 - 0
Samtals 84 - 7 8 - 0 8 - 0 24 - 3 5 - 1 129 - 11

Fréttir, greinar og annað um Naby Keita

Fréttir

Í nærmynd

Skoða önnur tímabil