Ian Rush

AB: Hvað var besta tímabilið hjá þér, myndirðu segja að besta tímabilið þitt hafi verið tímabilið 83/84?
Já, hvað varðar fjölda marka, [AB: en í heildina?] Það keppnistímabil sem ég naut mín best var 85/86 þegar við unnum tvennuna. Sem einstaklingur var það kannski 83/84 þegar ég skoraði 49 mörk en sem liðsheild var það 85/86 þegar við unnum tvennuna. Við lékum til úrslita gegn Everton í fyrsta Merseyside-slagnum í úrslitum bikarkeppninnar. Við vorum að tapa 0-1 í hálfleik en unnum 3-1 og ég skoraði tvö mörk og við unnum tvennuna. Allt small saman í þeim leik en Everton var næstbesta liðið í deildinni á þessum tíma.

Ssteinn: Við þurftum á þér að halda nú gegn Everton (leikurinn endaði með markalausu jafntefli tveim vikum áður) …
Já, ég hefði kannski átt að snúa aftur bara í þessum leik gegn Everton [hlátur].

Ssteinn: Everton var án efa uppáhaldsandstæðingurinn þinn?
Þegar ég lék gegn þeim þá vissi ég að ég myndi skora! [enn meiri hlátur].

AB: Margir aðdáendur Liverpool eru sammála mér að þessi bikarúrslitaleikur gegn Everton er þeirra uppáhaldsleikur. Þegar þú smelltir boltanum í myndavélina í markhorninu…
Já, það var minnisstætt þegar ég hitti myndavélina en liðið virtist bara smella saman. Þetta var fyrsti nágrannaslagur okkar gegn Everton í bikarúrslitum. Allt var frábært við þennan leik. Við lékum sem liðsheild en liðið okkar var ekki skipað neinum Englendingum nema Steve McMahon sem var varamaður en annars var ekki einn einasti Englendingur í liðinu. Það voru írskir, skoskir, ástralskir og danskir leikmenn en enginn Englendingur.

AB: Þegar þú ákvaðst að fara til Ítalíu og lékst þitt kveðjutímabil, fannstu þá aldrei neinn fjandskap í þinn garð frá aðdáendum liðsins…
Nei, þeir virtu mig því að síðasta tímabilið mitt lék ég alla leikina og skoraði 32 mörk. Ég var ákveðinn að hætta með látum hjá Liverpool en ég hefði auðveldlega getað haldið mig tilbaka og forðast að meiðast. En það kom mér aldrei til hugar því að Liverpool er gott félag. Þetta gaf liðinu heilt ár til þess að leita að einhverjum til þess að koma í minn stað. Það er mikilvægt fyrir leikmenn þegar þeir yfirgefa félög sín að skilja við það í góðu og mér tókst það gagnvart Liverpool.

AB: Ég sá svipinn á þér þegar þú varst meðal áhorfenda á leik QPR og Liverpool á Anfield þegar QPR var efst og Liverpool vann 4-0. Ég sá að þú sast þarna og hristir hausinn…
Já, John Barnes var æðandi upp kantinn á þessu tímabili og gaf fyrir og liðið var að skora fleiri mörk en áður. Þegar ég var hjá Juventus lék ég sem framherji með miklar varnarskyldur. Fótboltinn sem þeir léku hæfði mér ekki en þegar ég sá Liverpool spila, óðu framherjarnir í færum og þú hugsaðir með þér, þarna vil ég vera.

AB: Platini var nýfarinn …
Já, Platini var nýfarinn. Ef hann hefði verið enn hjá félaginu þá hefði þetta verið auðveldara fyrir mig. Er ég hitti Platini sagði hann mér að ég hefði komið á röngum tíma til Juventus. Ég hefði átt að vera hérna fyrir 2-3 árum síðan. Liðið væri að ganga í gegnum breytingarskeið og myndi eiga í erfiðleikum. Hann yfirgaf félagið vegna þess að áhorfendurnir höfðu snúist gegn honum og hann þurfti þess ekki með. Ég vissi að ef hann hélt það, þá yrði þetta erfitt tímabil. En þegar ég kom aftur til Liverpool var ég betri alhliða leikmaður. Ég þroskaðist á Ítalíu. Ég hafði kynnst meginlandsknattspyrnunni.

AB: Margir voru þeirrar skoðunar að þú hefðir verið betri leikmaður áður en þú fórst. Þú þurftir einnig að glíma við veikindi...
Ég skoraði fleiri mörk áður en ég fór til Juventus en ég var orðinn betri alhliða leikmaður. Ég lék betur utan vítateigs eins og ég hafði lært hjá Juventus. Raunar var ég orðinn mikið betri alhliða leikmaður. Ég þurfti að glíma við veikindi í 6-7 mánuði og þegar ég kom aftur til Liverpool var ég engan veginn í sama formi og ég var áður en ég fór þaðan. Það var ekki fyrr en undir lok tímabilsins þegar hinir leikmennirnir voru orðnir þreyttir að ég komst í svipað form og þeir. Ég var á aukaæfingum og þær þreytttu mig ennþá meira. Þegar á völlinn var komið átti ég í erfiðleikum og það tók mig um hálft ár að komast yfir það.

Ssteinn: Gerard Houllier tekur þig jafnan til fyrirmyndar þegar hann predikar fyrir framherjunum að berjast hvar sem er á vellinum…
Þannig á það vera. Þegar þú ert frammi og án boltans þá ertu orðinn fremsti varnarmaður. Ég tala við Sammy Lee talsvert og hann svarar þegar hann er spurður: hver var besti varnarmaðurinn hjá Liverpool… Hansen eða Lawrenson?, nei, …. Ian Rush. Oft þegar framherjar eru búnir að skjóta á markið þá missa þeir einbeitinguna. Þeir góðu taka sér stöðu aftur og reyna að koma í veg fyrir að andstæðingurinn fari framhjá þeim. Um leið og þeir eru búnir að komast upp á lagið að skora mörk þá tek ég strákana á næsta þrep og kenni þeim að verjast. En þeir kveða við: "en ég þarf ekki að verjast." En þú þarft að læra verjast sem framherji og þú verður að gera hlutina auðveldari fyrir miðjumennina, miðjumennirnir gera hlutina auðveldari fyrir varnarmennina og varnarmennirnir auðvelda hlutverk markvarðarins.

Ssteinn Varnarleikurinn hefur verið helsti höfuðverkur liðsins síðastliðin tímabil…
Liðið hefur fengið mörg mörk á sig ef undan er skilið þetta ár. Gerard Houllier hefur staðið sig mjög vel. Hann hefur þétt vörnina. Hann er með nýjan markvörð og vörn sem hleypir ekki of mörgum mörkum í netið og með Robbie Fowler og Michael Owen frammi þá mun liðið skora mörk. Houllier hefur lagað þennan helsta veikleika liðsins.

AB: Þú minnist á Robbie Fowler… .. sumir Liverpoolaðdáendur á Íslandi fara í taugarnar á mér þessa dagana vegna þess að þeir segja að hann sé kominn af besta skeiði. Hann er búinn að vera meiddur og átt í erfiðleikum. Hefur þú einhver skilaboð til þessara aðdáenda?
Hann er nú ungur enn. Hann er búinn að eiga erfitt með að rífa sig upp úr meiðslunum. Ég talaði við hann í síðustu viku og hann er búinn að leggja þvílíkt á sig til þess að komast í form. Hann mun leika með Englandi á EM 2000 og mun standa sig vel. Ef Fowler leikur í 80% leikjanna á næsta tímabili þá leikur enginn vafi á að hann muni skora allavega 30 mörk.

Ssteinn: Oft tala menn um að Robbie Fowler sé besti leikmaðurinn í deildinni í að klára færin sín….
Michael Owen er sá fljótasti í deildinni en ef Fowler er kominn í gott færi þá býstu við að hann klári færin sín í 9 skipti af hverjum 10.

AB: Ég vil spyrja þig um samvinnu þínu og Kenny Dalglish á vellinum þar sem virðist að einhvers konar hugsanaflutningur hafi átt sér stað…
Góðir leikmenn eru fljótir að læra. Þegar ég lék fyrst með Kenny Dalglish stóð ég stundum kyrr og grunaði ekki að hann myndi senda boltann á viss svæði. Er hann var búinn að koma boltanum á þessi svæði í 2-3 skipti, hugsaði ég með mér, andskotinn (shit !), ég ætti kannski að fara að hlaupa í þessi svæði því að hann er fær um að koma boltanum hvert sem honum líkar. Ég er þokkalega fljótur og við áttuðum okkur á styrkleika hvors annars… við töluðumst ekki mikið utan vallar envið vissum styrkleika hvors annars og áttum því vel saman. Hann leit ekki einu sinni upp til þess að sjá hvar ég væri og sendi boltann á viss svæði og ég vissi að boltinn myndi koma þarna og var mættur til að taka við boltanum. Varnarmennirnir gátu ekki séð við okkur.

AB: Grunaði einhvern að afsögn Dalglish væri í vændum. Kom þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti eða…
Afsögn hans sem framkvæmdastjóra kom mjög á óvart. Við vorum á góðu róli í deildinni og drógumst á móti Everton í bikarnum. Engann grunaði neitt og þetta var mikið áfall fyrir alla og við vorum að jafna okkur á þessu afganginn af tímabilinu.

AB: Veist þú um ástæðu afsagnar hans?
Ég veit það ekki … það veit enginn nema Kenny.

TIL BAKA