Ian Rush

Ian Rush fæddist 20. október 1961 í þorpinu St. Asaph í norður-Wales. Hann var einn af fimm bræðrum og fimm systrum. Ian var snemma magnaður í þeirri list að skora mörk og setti nokkur met með þeim skólaliðum er hann lék með. Ian studdi Everton í æsku og þegar hann skrifaði undir hjá Liverpool var það í fyrsta skipti sem hann steig fæti á Anfield. Hann lék 34 leiki og skoraði 14 mörk fyrir Chester áður en hann var seldur til Liverpool fyrir 300.000 pund í apríl 1980 sem var metupphæð fyrir táning á þeim tíma. Geoff Twentyman útsendari Liverpool hafði tékkað á honum nokkrum sinnum og svo loks Bob Paisley sjálfur áður en þeir létu til skarar skríða.

Ian lék fyrst með aðalliðinu í desember 1980 gegn Ipswich á útivelli í 1:1 jafntefli í forföllum Kenny Dalglish sem var meiddur. Næsti leikur hans var í aukaúrslitaleik deildarbikarsins gegn West Ham 1. apríl 1981. Ian fékk þá sæti í byrjunarliðinu vegna mikilla meiðsla. Hann stóð sig mjög vel í leiknum og átti m.a. skot í þverslá. Dalglish og Hansen tryggðu Liverpool deildarbikarinn í fyrsta skipti eftir 2:1 sigur. Hann hafði því hlotið verðlaunapening í sínum öðrum leik fyrir félagið. Til vors lék Ian nokkra leiki og stóð sig vel. Þegar leiktíðinni lauk hafði hann spilað níu leiki en ekki skorað eitt einasta mark. Ian var í leikmannahópi Liverpool fyrir úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða í París gegn Real. En allir fastamennirnir voru heilir og hann tók ekki þátt í 1:0 sigri Liverpool.

Í upphafi næsta tímabils 1981-82 var Ian óánægður og vildi yfirgefa Liverpool. Hann lék með varaliðinu og gekk ekkert sérstaklega vel að skora. Að auki líkaði honum ekkert sérstaklega vel hjá félaginu. Ian var feiminn og kunni illa stríðni þeirri sem hann varð oft fyrir af eldri leikmönnum liðsins. Hann þoldi ekki Kenny Dalglish sem var sérlega meinlegur með skoska húmorinn. En þrátt fyrir feimni herti Ian sig upp og ræddi málin við Bob Paisley. Hann sagðist vilja fá tækifæri með aðalliðinu eða að öðrum kosti vildi hann leika með öðru félagi. Bob sagði honum að hann væri sóknarmaður og hefði verið keyptur til að skora mörk en staðreyndin væri sú að hann hefði enn ekki skorað fyrir aðalliðið. Ian brást reiður við og fannst að sér vegið. En Bob lét ekki æsa sig upp og gaf Ian það ráð að vera markagráðugri og skjóta meira á markið. Hann þyrfti ekki að vera svona óeigingjarn. Ian tók ráðum meistarans fálega og yfirgaf skrifstofu Bob með þeim orðum að hann skyldi sýna honum að hann gæti skorað mörk. Bob sagði síðar: "Það lék talsverður vafi á hvort að það þetta hefðu verið gáfuleg kaup. Honum virtist lífsins ómögulegt að skora mark og sjálfstraust hans var ekki upp á marga fiska. En þegar hann byrjaði að skora gat hann ekki hætt. Hann skoraði fyrstu mörkin sín ávallt með hægri, svo byrjaði hann að skora eitt og eitt með vinstri. Það var svo alveg sama með hvorum fætinum hann spyrnti, boltinn endaði í netinu og brátt gleymdum við hvor fóturinn við álitum að væri sá sterkari. Hann tók svo til að skalla boltann í netið með svo mikilli ákefð að engu líkara en að hann væri að koma af stað tískubylgju."

Fyrsta mark sitt skoraði Ian 30. september 1981 á Anfield gegn Oulu Palloseura frá Finnlandi í Evrópukeppni Meistaraliða. Hann kom inná sem varamaður og skoraði af stuttu færi. En nú kom stóra tækifærið. David Johnson meiddist og Ian var settur í liðið. Ian skoraði tvö mörk gegn Exeter í deildarbikarnum, tvö mörk í næsta leik gegn Leeds í deildinni og hann linnti ekki látum fyrr en 30 mörk voru komin á blað. Englandsmeistaratitillinn og deildarbikarinn unnust. Ian skoraði sitt fyrsta mark á Wembley í deildarbikarúrslitunum í 3:1 sigri á Tottenham. Ronnie Whelan skoraði tvisvar í leiknum en hann og Ian komu inn í liðið á svipuðum tíma um haustið og gáfu liðinu nýtt blóð. Menn trúðu ekki að hann myndi halda uppteknum hætti en hann varð bara betri og betri og var valinn efnilegasti leikmaður tímabilsins 1982-83. Beittasta vopn Liverpool á þessum tíma var samvinna Rush og Dalglish sem var með hreinum ólíkindum og þeir vissu nákvæmlega hvað hvor þeirra gerði næst. Ian var ætíð fljótur að hlaupa og hugsa. Hann var svo árvökull að hann var löngu kominn af stað áður en andstæðingurinn áttaði sig á því. Þessi eiginleiki nýttist til fullnustu þegar hann hafði snilling eins og Kenny Dalglish í sama liði. "Ég hljóp bara af stað því að ég vissi að boltinn væri á leiðinni til mín." Af mörgum góðum leikjum þessa leiktíð stóð líklega leikur Everton og Liverpool á Goodison Park á haustdögum upp úr. Liverpool rótburstaði nágranna sína 5-0 og Ian skoraði fjögur mörk. Öll mörkin skoraði hann eftir að hafa stungið vörn Everton af og skorað framhjá Neville Southall. Neville átti á næstu árum oft eftir að sækja boltann í markið eftir að Ian hafði skilað honum þangað. Kenny Dalglish skoraði fimmta markið. Liverpool vann sömu tvennuna og á leiktíðinni á undan: meistaratitilinn og deildarbikarinn eftir 2:1 sigur á Manchester United.

TIL BAKA