Ian Rush

Ian stóð sig vel hjá Leeds en skoraði ekki nema þrjú mörk fyrir félagið. Hann var farinn að missa hraðann og að auki var hann stundum látinn leika úti á kanti eða á miðjunni. Sumarið 1997 gekk Ian til liðs við vin sinn Kenny Dalglish sem var orðinn stjóri hjá Newcastle. Að auki kom John Barnes líka til liðsins sem var hálfgerð Liverpool nýlenda. Ian barðist eins og ljón í leikjum og gaf félögum sínum góð ráð innan vallar sem utan. Hann skoraði tvö mörk fyrir Newcastle og voru þau bæði söguleg. Fyrra markið var í 2:0 sigri á Hull í deildarbikarnum og var það 48. mark hans í keppninni. Hann jafnaði þar með markamet keppninnar sem hann deilir nú með Geoff Hurst en tókst því miður ekki að slá það. Í janúar skoraði Ian síðasta mark sitt á ferlinum. Markið var gegn Everton á Goodison Park í F.A. bikarnum. Markið var það eina í leiknum og enn og aftur fengu þeir bláu að kenna á sínum gamla stuðningsmanni. Um vorið lék hann nokkra leiki sem lánsmaður hjá Sheffield United án þess að skora. Newcastle komst í bikarúrslitaleikinn en Ian sat á bekknum í sparifötunum í þetta skipti og sá Arsenal tryggja sér tvennuna með 2:0 sigri. Leiktíðin 1998-99 var sú síðasta. Ian var ráðinn spilandi þjálfari til Wrexham. Hann lék af og til mest í forföllum en skoraði ekki. En Ian Rush gat hætt sáttur er hann hafði skorað nóg af mörkum og fleiri en flestir aðrir.

Ian lék 73 landsleiki fyrir Wales og skoraði 28 mörk sem að sjálfsögðu er landsmet. Hans mestu vonbrigði á ferlinum voru ef til vill að hann náði aldrei að leika með Wales á stórmóti. Næst því var Wales líklega í undankeppni HM 1986. Wales varð að leggja Skota á heimavelli til að komast áfram en Skotar náðu 1:1 jafntefli og komust til Mexíkó.

Það er erfitt að telja upp kosti Ian Rush því listinn yrði langur. Í stuttu máli var hann einfaldlega besti sóknarmaður á sínum tíma og fáir geta fundið aðra betri markaskorara í sögunni. Mörkin segja sína sögu. Hann sló öll met sem hægt var að slá hjá Liverpool nema samanlögð mörk í deildinni sem Roger Hunt á enn. Ian á fjölda meta á landsmælikvarða og svo mætti lengi telja. En Ian var miklu meira en stórkostlegur sóknarmaður. Hann var leiðtogi og gaf sig alltaf fullkomlega í hvern einasta leik fyrir liðið sitt. Hann var í raun fremsti varnarmaður í leikjum því hann var út um allan völl að trufla varnarmenn þá er hann átti í höggi við. Ian var góð fyrirmynd innan vallar sem utan og var sífellt að gefa ungum leikmönnum góð ráð. Látum goðið Kenny Dalglish eiga lokaorðin um félaga sinn: "Ian var frábær markaskorari og sá besti sem ég lék með. Hann var líklega líka besti markaskorari sem ég hef augum litið."

TIL BAKA