Bob Paisley

Af og til upphefst umræða um hver sé besti framkvæmdastjóri í sögu breskrar knattspyrnu. Gjarnan eru þessir nefndir til sögunnar: Bob Paisley, Bill Shankly, Kenny Dalglish, Matt Busby, Alex Ferguson, Jock Stein og Herbert Chapman. Fleiri mætti nefna og listinn er langur. Fyrir nokkrum árum birtist þessi grein sem hér fer á eftir í staðarblaðinu Liverpool Echo. Hún kom svo síðar í Rauða hernum. Í greininni ber Skotinn Tommy Docherty þá Bob Paisley og Alex Ferguson saman. Tommy, sem var framkvæmdastjóri hjá nokkrum liðum svo sem Manchester United og Derby County, þekkti þessa menn báða og er því vel fær um að fjalla um þá. Greinin er hér birt í tilefni dánardægurs Bob Paisley

“Alex hefur unnið frábær afrek með Manchester United. Hann hefur með árangri sínum skipað sér í flokk með bestu framkvæmdastjórum sögunnar. Á því leikur ekki vafi. Velgengnistími Bob tilheyrði allt öðru tímaskeiði. Það hefur mikið breyst frá þeim tíma. Það er að mörgu leyti erfiðara að vera knattspyrnustjóri nú á dögum. Sérstaklega með tilliti til þess að knattspyrnumenn eru stórstjörnur með himinhá laun og að auki þarf að fást við umboðsmenn þeirra. Ef litið er til þessa eru afrek Alex enn meiri. Án þess að draga úr afrekum þeim er Bob vann þá átti Alex líka glæstan feril sem framkvæmdastjóri Aberdeen í Skotlandi. Með því liði rauf hann einokun Celtic og Rangers og að auki stýrði hann Aberdeen til sigurs í Evrópukeppni bikarhafa. Bob og Alex voru ólíkir menn en samt náðu þeir frábærum árangri hvor með sínum aðferðum. Bob var hæglátur og hlédrægur en leikmenn hans báru ómælda virðingu fyrir honum. Alex er meira áberandi út á við. En ef ég ætti að segja til um hvor væri betri framkvæmdastjóri þá mundi ég segja Bob Paisley.

Ég tel Bob vera besta framkvæmdastjóra sögunnar. Á þeim tíma sem hann stjórnaði Liverpool vann hann ótrúlega marga titla. Bob stýrði Liverpool í einungis níu ár og á þeim tíma vann félagið þrettán stórtitla. Hafa ber í huga að Bob eyddi litlum upphæðum til þess að kaupa leikmenn. Gleymið ekki að Bob vann fjóra Evróputitla. Þrisvar sinnum vann hann Evrópukeppni meistaraliða og Evrópukeppni félagsliða einu sinni. Evrópukeppni félagsliða var ekki síður erfið keppni. Þegar Bob var við stjórn Liverpool máttu aðeins landsmeistarar taka þátt í Evrópukeppni meistaraliða sem nú kallast Meistaradeildin. Manchester United vann þessa keppni í fyrra en í raun hefðu þeir ekki átt að vera í keppninni því þeir voru ekki landsmeistarar. Mér finnst fáránlegt að nefna þessa keppni Meistaradeild. Til dæmis komst Chelsea í átta liða úrslit keppninnar í vor þrátt fyrir að hafa verið í þriðja sæti í Úrvalsdeildinni sparktíðina áður. Fyrirkomulag keppninnar var miklu erfiðara fyrr á árum. Samanlagt tap í einni umferð þýddi að liðið þitt var úr leik.

Bob hafði heldur ekki úr þeim miklu fjármunum að spila eins og Alex hefur haft. Hann gat ekki eytt stórfé til þess að kaupa fræga leikmenn alls staðar frá. Þess í stað uppgötvaði Bob unga og efnilega leikmenn, keypti þá fyrir lítið og gerði þá að stórstjörnum. Sem dæmi um slíka leikmenn má nefna Alan Hansen, Ian Rush og Graeme Souness. Alex hefur svo sem líka keypt ódýra leikmenn sem hafa reynst vel eins og Peter Schmeichel og Dennis Irwin. En flestir þeir leikmenn sem hann hefur keypt kostuðu stórfé. Ef allt er skoðað tel ég Bob vera besta framkvæmdastjóra knattspyrnusögunnar. Bæði Bob og Alex teljast snillingar í sínu fagi. En Bob Paisley var sá besti.”

TIL BAKA