Bob Paisley

Árið 1954 hófst nýr kafli í lífi Bob Paisley. Don Welsh framkvæmdastjóri Liverpool bauð Bob þjálfarastarf og því starfi hélt hann þrátt fyrir að Don væri rekinn árið 1956. Eftirmanni hans Phil Taylor tókst ekki frekar en Don Welsh að koma liðinu upp í 1. deild og 14. desember 1959 tók Bill Shankly við stjórnartaumunum. Sterkasti leikur Shankly í upphafi var að halda þjálfurunum sem fyrir voru á Anfield. Paisley varð brátt hægri hönd Shankly. 12. júlí 1974 var sem sprengju hefði verið varpað á Liverpool. Shankly sagði af sér og Bob var falið starfið. Margir héldu að það væri aðeins til bráðabirgða þar til "stórt nafn" yrði fundið. En Shankly lagði til við stjórn Liverpool að Paisley væri besti kosturinn: "Ég vissi að ef utankomandi aðili yrði fenginn myndi það koma óróa á mannskapinn. Það hefði verið eins og að henda mink inn í hæsnakofa", sagði Shankly síðar. Öllum var í fersku minni er Sir Matt Busby hætti með Man Utd, þá fékk eftirmaður hans, Wilf McGuiness að fjúka og síðar eftirmaður hans sömuleiðis og liðið féll í 2. deild. Paisley stóð auglitis til auglitis við erfiðasta starf í Englandi.

Liverpool hafði unnið titillinn þrisvar á sl. 10 árum en aðeins einu sinni á sl. 8 árum. Shankly hafði lyft liðinu úr 2. deild 12 árum áður og byggt grunninn fyrir Paisley til að byggja á en það var auðveldara sagt en gert að taka við af goðsögn eins og Shankly. Bob hafði sínar efasemdir en eftir að forráðarmenn félagsins höfðu lagt hart að honum lét hann til leiðast: "Ég hafði ekki áhuga á starfinu. Ég reyndi að fá hann til að halda áfram… en Bill sagði að hann væri búinn að fá nóg og sér yrði ekki haggað."

Tímabilið hófst ágætlega og liðið hélt sér ávallt meðal efstu liða. Paisley byrjaði að kaupa sína eigin menn. Phil Neal var keyptur í nóvember ’74 sem og Joey Jones og Terry McDermott. Liverpool endaði að lokum í 2. sæti, tveim stigum á eftir QPR. Paisley átti enn erfiðar með að slíta sig frá skugganum af Bill Shankly vegna þess að Shankly vandi enn komur sínar á Melwood-æfingasvæðið. Að sögn Kevin Keegan  heilsuðu leikmennirnir honum, "hæ, stjóri" en við Paisley sögðu þeir aðeins "hæ Bob". En Keegan bætir ennfremur við að "um leið og við kynntumst Bob náðum við frábæru sambandi við hann og sjálfstraust leikmanna jókst til muna." Það kom síðan áþreifanlega í ljós hvílíkur snillingur Bob Paisley var. Á sinn rólega og yfirvegaða hátt kom hann skilaboðum til leikmanna sinna. En hann gat líka sagt mönnum til syndanna og þá mundu menn eftir því. Hann keypti marga frábæra leikmenn til liðsins sbr. Hansen, Lawrenson, Grobbelaar, Neal, McDermott, Nicol, Rush, Dalglish, Souness og svo mætti lengi telja. Paisley hafði sérstakt lag á að ná því besta út úr öllum leikmönnum. Hann virtist einnig átta sig fljótt á því hvenær ákveðnir leikmenn væru farnir að gefa sig og hver væri best fallinn til þess að koma í þeirra stað. Þannig hélt hann liðinu sterku ár eftir ár. Yfirburðaþekking hans á leikkerfum, leikmönnum sínum jafnt sem andstæðingum og öllu því sem sneri að knattspyrnu, gerðu hann að sigursælasta framkvæmdastjóra í enskri knattspyrnusögu. En aðstoðarmenn hans áttu einnig hlut að máli. Joe Fagan, Ronnie Moran og Roy Evans voru ráðgjafar hans og Bob vanmat ekki þeirra þátt. 

Paisley vann meistaratitillinn sem og UEFA Cup á öðru tímabili sínu með liðið. Paisley var hógvær að vanda: "Liverpool hefur verið að undirbúa þetta í 15 ár. Ég tók einungis við og hélt áfram". Tímabilið 1976-77 var ljóst að Kevin Keeegan, lykilmaður liðsins, myndi yfirgefa liðið að loknu tímabilinu. Þetta tímabil reyndist eitt það besta í sögu Liverpool. Meistaratitillinn var innbyrtur en liðið tapaði í úrslitum FA Cup. Liðið var einnig komið í úrslit Evrópukeppni Meistaraliða í fyrsta sinn í sögu félagsins. Liverpool átti að mæta Borussia Mönchengladbach í úrslitum í Róm. Paisley var kokhraustur í fjölmiðlum: "Síðast þegar ég kom til Rómar var í stríðinu, þá hertók ég borgina með Bandamönnum." McDermott, Neal og Smith skoruðu í 3-1 sigri á firnasterku liði Gladbach.

TIL BAKA